13.12.1946
Neðri deild: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Skúli Guðmundsson:

Mér þykir ekki ósennilegt, að þetta frv. komi hv. alþm. einkennilega fyrir sjónir. Þar er lagt til að heimila ríkisstj. að taka lán f. h. ríkisins, allt að 38 milljónum króna, og segir í grg., að fé þessu eigi að verja til byggingar síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði og Skagaströnd, sem unnið hefur verið að undanfarið. Ég geri ráð fyrir, að þeir hv. þm., sem áttu sæti hér á næstsíðasta þingi, minnist þess, að á síðustu dögum þingsins var lagt fram frv. um lántökuheimild vegna þessara verksmiðjubygginga, og var það tekið hér til meðferðar í Nd. 27. apríl og afgr. við allar þrjár umr. sama dag. Þetta frv. var á þskj. 997, og það var flutt af fjhn. d., eins og þetta frv. nú, og þá var farið fram á að hækka lántökuheimildina úr 20 milljónum í 27 milljónir. Þá var komist svo að orði í grg. frv.:

„Framkvæmdir eru nú það vel á veg komnar, að nokkurn veginn má sjá, hver byggingarkostnaðurinn verður. Má ætla, að til þess að unnt verði að ljúka byggingarframkvæmdum bæði í Höfðakaupstað og Siglufirði, þurfi að hækka lántökuheimild ríkisstj. úr 20 millj. kr., eins og hún er í núgildandi l., upp í 27 millj. kr.“

Þetta var Alþ. sagt í apríl í vor. En nú kemur hins vegar á daginn, að þær upplýsingar, sem þá voru gefnar, hafa verið villandi, því að nú er sagt, að 38 millj. kr. þurfi til þessara framkvæmda, og farið fram á, að lántökuheimildin verði hækkuð upp í 38 millj., eða um 11 millj. kr. frá því í vor. Nú fylgir bréf frá byggingarnefnd verksmiðjanna, sem er prentað sem fskj. með grg., og þar er nokkurs konar yfirlitsreikningur um byggingarkostnaðinn. Ég ætla nú ekki að ræða mikið um þetta mál við l. umr., en er það kom til fjhn. fyrir fáum dögum, óskaði ég eftir, að það yrði athugað í n. milli umr., og var því vel tekið af nm. og það er full ástæða til að taka mörg atriði þess til nánari athugunar. Það liggur í augum uppi, að hinn mikli munur á þeim upplýsingum, sem gefnar hafa verið um byggingarkostnaðinn, er óeðlilegur. Þar er ekki nema tvennt til. Annaðhvort hefur verið vísvitandi farið með blekkingar í vor í þessu máli eða vanþekking þeirra, er sjá áttu um framkvæmdirnar, hefur verið meiri en hún má vera hjá þeim, sem fengnir eru til að stjórna þýðingarmiklum framkvæmdum fyrir hönd ríkisins. Ég tel sem sagt fulla ástæðu til að athuga málið nánar og vænti, að það verði sérstaklega gert í fjhn. milli 1. og 2. umr.