27.02.1947
Neðri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Mér er ljóst, að við þessar verksmiðjubyggingar hefur ýmislegt farið í súginn, og sennilega svo að skiptir nokkuð mörgum milljónum, en ég hef ekki hugsað mér að gera það atriði að umtalsefni hér að þessu sinni.

Nú, ég hef áður við umr. um sams konar mál bent á það hér á Alþ., að ég hef talið mjög óráðlegt að skipa sérstaka byggingarnefnd í þetta mál og fela það ekki stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Ég skal ekki ítreka þær umr., en vildi þó út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, þegar hann talaði um, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefði ætlað að reisa á 3 árum þessar tvær verksmiðjur, sem hér um ræðir, en þeirri byggingu verið flýtt með skipun nýrrar byggingarnefndar, leyfa mér að leiðrétta þau ummæli, sem hljóta að byggjast á misskilningi, og vil í því efni vitna til skýrslu. síldarverksmiðja ríkisins fyrir árið 1945, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 4:

„Í fyrr greindu bréfi stjórnar SR til atvmrh., dags. 2. nóv. 1944, segir m. a. svo:

„Í stuttu máli er ætlun stjórnar síldarverksmiðja ríkisins:

1) að leggja áherzlu á, að afkastaaukningin í Siglufirði um 3500/4000 mál á sólarhring komist upp fyrir næstu síldarvertíð.

2) að hin nýja 10 þúsund mála verksmiðja í Siglufirði verði reist fyrir síldarvertíð 1946.

3) að hin nýja verksmiðja í Höfðakaupstað verði reist eins fljótt og hafnarskilyrði þar leyfa, helzt fyrir síldarvertíð 1946.

4) að halda síðan áfram nýbyggingum síldarverksmiðja, sbr. l. nr. 93 1942, eftir því sem aðstæður leyfa.““

Í sambandi við þetta eru svo í skýrslu síldarverksmiðjanna gefnar mjög margar upplýsingar um það, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins var búin að undirbúa byggingu þessara verksmiðja, t. d. með pöntun á ýmsum vélum, á þann hátt, að ómögulegt hefði verið fyrir nýbyggingarstjórn að koma upp verksmiðjunum, ef sá undirbúningur hefði ekki farið fram með því takmarki fyrir augum, sem segir í skýrslunni. — Ég vona því, að það hendi ekki hv. 2. þm. Reykv. framar í þessu máli að bera það ranglega á stjórn síldarverksmiðja ríkisins, að hún hafi ekki ætlað að leysa þessi mál eins fljótt og unnt væri.

Hitt er svo aftur á móti alveg rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að mesta hættan fyrir okkur á tapi liggur í því að hafa ekki verksmiðjurnar tilbúnar. Það er mesta hættan í sambandi við síldveiðarnar að hafa ekki möguleika að taka á móti síldinni, þegar hún berst að. En því miður verður að upplýsa, að þessar tvær síldarverksmiðjur, sem búið var að segja af þeim ráðh., sem bar ábyrgð á kostnaðinum við byggingu þeirra, að yrðu tilbúnar í byrjun síðustu síldarvertíðar, því miður verður að segja, að þær verksmiðjur voru ekki tilbúnar þá og eru það ekki enn þá, svo að í rekstrarhæfu ástandi sé. Og ég hygg, að sú mesta hætta, sem vofir yfir okkur í þessu máli, sé sú, að þessar verksmiðjur verði ekki rekstrarhæfar fyrir næstu síldarvertíð. Það birtist í blöðum og útvarpi tilkynning um það, að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar í byrjun síldarvertíðarinnar. En á fundi, sem verksmiðjustjórnin hélt 27. júlí s. l. sumar á skrifstofu framkvæmdastjórans, voru teknar fyrir viðræður stjórnar síldarverksmiðja ríkisins við byggingarnefnd. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundinum mættu frá byggingarnefnd þeir dr. Trausti Ólafsson, Þórður Runólfsson og Snorri Stefánsson. Form. byggingarn., dr. Trausti Ólafsson og Þórður Runólfsson, skýrðu frá, að n. gæti ekki afhent síldarverksmiðjurnar á Skagaströnd og Siglufirði sem tilbúnar í sumar og naumast fyrr en næsta vor. Allt hefði verið miðað við að koma verksmiðjunum á stað sem fyrst, og mætti vænta, að við reynslu kæmi í ljós ýmislegt, sem þyrfti að breyta, lagfæra og ljúka við. Í sumar yrði haldið áfram að fullgera verksmiðjurnar, eftir því sem hægt væri. Við lagfæringar yrði að sjálfsögðu tekið tillit til þess, sem trúnaðarmenn og framkvæmdastjóri SR kynnu að óska.

Að samkomulagi varð, að endanleg ákvörðun um, hvenær verksmiðjurnar yrðu afhentar SR, yrði tekin í haust.

Formaður byggingarnefndar skýrði frá, að þegar væri búið að greiða 25 millj. kr. fyrir byggingarframkvæmdir, en reikninga vantaði frá vélsmiðjunni Héðni o. fl.

Samkomulag varð um, að byggingarnefnd ráðstafaði ekki húsum, bilum, vélum eða öðru lausafé nema í samráði við stjórn SR.

Byggingarnefnd taldi, að verksmiðjan á Siglufirði gæti orðið tilbúin til reynslu í næstu viku.“ Ég hygg, að þessi skýrsla sameiginlegs fundar staðfesti fyllilega það, sem sagt hefur verið af verksmiðjustjórninni, að hvorki síldarverksmiðjurnar á Siglufirði né á Skagaströnd séu komnar í rekstrarhæft ástand; staðfesti það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að mesta hættan fyrir okkur í síldariðnaðinum væri sú, að verksmiðjurnar yrðu ekki tilbúnar, þegar á þeim þarf að halda. Það var ekki fyrirsjáanlegt annað, þegar síldarvertíðin hófst, en á þessum verksmiðjum þyrfti að halda, og það var ekki annað en síldarleysið, sem bjargaði því, að ekki hlutust af því hin mestu vandræði, að verkamiðjurnar voru ekki tilbúnar.

Verksmiðjan á Siglufirði var svo reynd, ekki í vikunni á eftir 27. júlí, heldur 14. ágúst. Í skýrslu um þetta segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Byrjað var að taka á móti síld í þró SR 46 hinn 14. ágúst, en móttaka stöðvaðist strax vegna ólags á löndunarkrönum, og næstu daga var alltaf annar og stundum báðir kranarnir bilaðir, svo að miklu minna var landað í þrærnar hjá SR 46 en mundi hafa verið, ef löndunartæki hefðu verið í lagi.

Hinn 19. ágúst hafði verið landað ca. 5 þúsund málum. Ákvað byggingarnefnd að setja í gang kl. 13 síðdegis 19. ágúst og byrja þá að taka síld inn í verksmiðjuna til vinnslu. Fyrsta síld var þó ekki tekin inn fyrr en um kl. 10 um kvöldið og vannst lítið og varð fljótlega að stöðva aftur eftir lengri eða skemmri tíma, þar til kl. 9,45 22. ágúst, að stöðvað var til þess að hreinsa til í verksmiðjunni. Höfðu þá alls verið unnir 267 sekkir frá því kvöldið 19. ágúst eða tæp 1200 mál, miðað við eðlilega mjölútkomu, en allmiklu meira hráefni hafði farið í gegnum vélarnar, því að ekki fékkst full mjölútkoma. Talsverður hluti mjölsins var brenndur.

Vinnslu þessara ca. 5 þús. mála var lokið 27. ágúst.

Síðan var unnið að lagfæringum í nokkra daga og tekið á móti í þrær verksmiðjunnar 5–6 þúsund málum síldar. Voru þau unnin í septembermánuði, og gekk vinnsla þeirra álíka illa og í fyrra skiptið. Alls voru unnin í verksmiðjunni 11292 mál í sumar.“

Það eru ekki líkur til, að hægt hefði verið að vinna meira en unnið var, þar sem verksmiðjurnar voru í því ástandi, að koma mátti í gegn einum 5 þús. málum og þó illa. Nú er það svo, að sama niðurstaða varð af þeirri reynslu, sem fékkst á Skagaströnd, varla hlekkur í kerfi verksmiðjunnar, sem var í rekstrarhæfu ástandi s. l. sumar. Og enn er ástandið þannig í þessum málum, að verksmiðjustjórnin skrifaði byggingarnefnd síldarverksmiðja ríkisins 26. febrúar, og byrjar bréfið þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Samkvæmt beiðni stjórnar SR hefur Hilmar Kristjónsson, tæknilegur framkvæmdastjóri verksmiðjanna, samið skrár yfir óleyst verkefni í sambandi við byggingu hinna nýju síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði og Skagaströnd. Eru þær skrár svohljóðandi: ...“ — Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með að lesa þetta upp hér, en skal geta þess, að þau atriði, sem framkvæmdastjóri verksmiðjanna á Siglufirði telur, að bæta þurfi úr nú þegar, eru í 19 tölul., og þau öll nokkuð umfangsmikil og raunar mörg þess eðlis, að ef ekki verður búið að koma þeim í lag fyrir næstu síldarvertíð, þá eru verksmiðjurnar alveg óstarfhæfar. Og að því er viðvíkur Skagaströnd, þá eru talin þar upp 29 óleyst verkefni. — Í framhaldi af þessari upptalningu segir verksmiðjustjórnin:

„Svo sem fram kemur í framanskráðri upptalningu framkvæmdastjóra SR á óleystum verkefnum í hinum nýju verksmiðjum, eru mörg þeirra svo þýðingarmikil fyrir rekstur verksmiðjanna, að fyrirsjáanlegt er, að nýju verksmiðjurnar verða ekki í reksturshæfu ástandi á komandi síldarvertíð, nema því aðeins, að það takist að bæta úr því, sem mest er ábótavant, í tæka tíð fyrir næstu síldarvertíð.

Það skal tekið fram, að upptalning framkvæmdastjóra á þeim atriðum, sem þurfa úrbóta, er miðuð við það, sem hann hefur komið auga á, að er brýn þörf á að framkvæma og lagfæra fyrir næstu síldarvertíð. Margt fleira getur komið í ljós, er úrbóta þarf, við nánari athugun og þegar farið verður að reka verksmiðjurnar.

Oss er ljóst, að útvegun sumra vélarhluta og efnis og lagfæring á alvarlegum ágöllum og sumar byggingarframkvæmdir hafa dregizt svo á langinn, að ekki er öruggt, að nýju verksmiðjurnar verði í fullkomlega rekstrarhæfu ástandi á komandi síldarvertíð, jafnvel þótt nú þegar verði gert allt, sem hægt er, til þess að vinna að því og undirbúa, að svo megi verða. Til þess er of skammur tími til stefnu. Má því enginn tími fara forgörðum til þess að vinna að lausn hinna óleystu verkefna í verksmiðjunum.

Í framhaldi af þeirri aðstoð, sem vér höfum látið yður í té til þess að framkvæma ýmislegt í sambandi við byggingu nýju verksmiðjanna, bjóðum vér yður enn aðstoð SR til þess að ljúka verkinu og óskum samkomulags og samvinnu við yður um, hvernig lausn hinna óleystu verkefna skuli hraðað sem mest.

Förum vér fram á, að þér gerið nú þegar sérstakar ráðstafanir til þess að hraða framkvæmdum og að þær séu gerðar í fullu samráði við stjórn verksmiðjanna.“

Ég skal ekki þreyta hv. d. á langri ræðu um þetta, en taldi skyldu mína að leiðrétta að nokkru það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um vilja stjórnar síldarverksmiðja ríkisins til nýbygginga, og eins hitt, að upplýsa það, að það er langur vegur frá því, að verksmiðjurnar hafi verið rekstrarhæfar nokkurn tíma á s. l. sumri, og hætta á, að þær verði enn ekki rekstrarhæfar fyrir næstu síldarvertíð að dómi stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, nema róttækar ráðstafanir verði gerðar.

Ég vil svo óska þess við hæstv. forseta, að hann reyni að hraða afgreiðslu þessa máls, sem er búið að liggja hér allt of lengi. Það er áreiðanlega fyrir allra hluta sakir bezt, að því verði hraðað gegnum þingið, svo að ekki sé hægt að benda á það fyrir næstu síldarvertíð, ef verksmiðjurnar komast ekki í gang, að nýbyggingarstjórn hafi brostið fé til framkvæmdanna.