29.04.1947
Efri deild: 123. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna fyrirvara, sem ég gerði við nál. Það er dálítið einkennilegt þarna norður frá, hvernig allar áætlanir eru breytilegar. Þrisvar eða fjórum sinnum þurfti að hækka lántökuheimildina vegna Skeiðsfossvirkjunarinnar, og veit ég ekki, hvort enn er lokið. Hv. frsm. hefur nú rakið þetta mál, að ýmsu leyti þannig, að ég þarf ekki miklu við að bæta. Fyrst voru veittar 10 millj., svo 15, síðan 27, þá 38, og nú er lagt til að hækka heimildina upp í 43 millj. og óvíst, hvort enn dugar, því að ekki er lengra síðan en vika, að dunur miklar og dynkir og brak og brestir heyrðust þar norður frá (BSt: Ætli það hafi ekki verið frá Heklu?) Mig minnir, að það stæði í Vísi, að dunurnar mundu stafa af einhverju öðru, og svo minnir mig, að blað hv. frsm., Dagur á Akureyri, hafi sagt. Það er því viðbúið, að enn þurfi að veita meira fé til þessara verksmiðjubygginga. Sannast að segja er ýmislegt athugavert í skýrslu stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, og vantar þar upplýsingar um kostnað við ýmsar framkvæmdir, t. d. íbúðarhús, sem byggja þarf á Skagaströnd, og 400 ha. mótor, sem þangað vantar. En kostnaðar er ekki getið. Alþ. á bara að samþykkja heimild fyrir því fé, sem þurfa þykir. Það er vafasamt, að rétt sé fyrir d. að samþykkja þessa viðbótarheimild, fyrr en ljóst er, hverjar framkvæmdir séu nauðsynlegar og hvað þær munu kosta, og þar sem hæstv. fjmrh. er hér viðstaddur, gæti hann kannske leitt oss í allan sannleika um það. En ég bind atkv. mitt við það að vita, til hvers féð á að nota, og að notkun þess sé ekki öll í óhófi. Það er rétt að læra af fyrri reynslu og láta vítin verða sér til varnaðar.