02.05.1947
Neðri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

197. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Út af fyrirspurn hv. þm. Siglf. vil ég taka það fram, að þetta frv. um yfirstjórn niðursuðuverksmiðjunnar er blátt áfram komið fram til þess að gera einfaldari aðstöðu við þessa framkvæmd, og að því leyti er þetta frv. hliðstætt frv. um tunnusmíði. Núverandi stjórn lítur svo á, að eins og síldarútvegsnefnd er langbezt til þess hæf að sjá um tunnusmíði, þar sem hún hefur haft það hlutverk undanfarin ár að sjá fyrir tunnuútvegun, þannig sé það vel fært, að yfirstjórn niðursuðunnar sé hjá stjórn ríkisverksmiðjanna, það þarf ekkert að reka sig á. Það virðist vaka fyrir hv. þm. Siglf. að rubba upp sem flestum stjórnum, en vanrækja að afla fjár til þessara hluta. Hann hefur sent menn af stað til að útvega vélar, og þeir hafa fest kaup á þeim. Þetta á við herzluverksmiðjuna og þetta á að sumu leyti við með tunnuverksmiðjuna. Nú segir hann, að það hafi komið tilboð um niðursuðuvélar, sem sennilega hafa verið pantaðar af hans útsendurum. Þetta er allt gott og blessað. En mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Siglf., hvers vegna hann í einu og öllu á öllum stöðum hefur gengið frá því að sjá fyrir fjárhagshlið þessara mála. Það lá fyrir lánsheimild frá Alþ., en ekkert var um það hugsað að taka lán í þessar verksmiðjur, sem hv. þm. básúnar svo út og hefur nú gert tilraun til að slá sér sjálfum upp á persónulega. En það vantaði alltaf þarna grundvöll, sem Alþ. ætlaðist til, að væri fyrir þessum verkum, og hv. þm. hefur alltaf vanrækt að byggja upp þennan grundvöll. Núverandi stjórn tekur svo við þessu öllu morandi í hálfu kafi. Það er búið að kaupa lóðir á Siglufirði og panta vörur út í heimi og náttúrlega búið að stofna til stjórna á mörgum stöðum, sem allar eru á launum, en fyrir hinu er ekki séð, að hægt sé að framkvæma hlutina, ekki á þann veg, sem þingið ætlaðist til. Þegar svo núv. stjórn tekur við þessum verkum, þá er þetta í þessu ástandi, að stofnað er til skulda, en hvergi séð fyrir fé til að greiða þær skuldir. Nú veit hv. þm., að það er allt annað að útvega fé til þessara hluta nú en var fyrir einu ári. Það er óhætt að segja, að þessar höfuðvanrækslur hv. þm Siglf. í þessum málum, meðan hann hafði aðstöðu til þess að beita sér fyrir þeim, — þessar vanrækslur hafa vissulega ekki þokað málunum áfram, heldur tafið fyrir þeim. Það, hvernig hann skildi við þetta, torveldar nú stjórninni framkvæmdir, sem hún þarf að hafa og vill hafa með höndum. Af því að hv. þm. Siglf. beindi þeirri fyrirspurn til ríkisstj., hvort hún ætlaði sér að halda áfram með niðursuðuverksmiðjuna, byggja hana eða ekki, þá skal ég svara því einu til, að það fer að nokkru leyti eftir því, hvernig þeirri stjórn, sem nú situr, lukkast að fá fé til þessara hluta. Í öðru lagi vil ég taka það fram, að ég lít ekki á Jakob Sigurðsson sem þann eina og ekta framkvæmdamann í þessum málum, eins og þm. Siglf. virðist hafa gert. Ég veit að hann hefur gert marga myndarlega hluti norður á Siglufirði, en ég veit líka, að hann hefur notið aðstoðar manna, sem hafa miklu meiri reynslu en hann verklega í þessum málum. Og það, sem gert hefur verið á Siglufirði, má mest þakka ekki doktorum, mönnum, sem dvalizt hafa erlendis og aflað sér dýrmætrar reynslu í þessum efnum. En hv. þm. Siglf. sér ekkert nema þennan doktor, sem er að vísu góður, en ekki þó sá aleini maður, sem nokkurt mark er á takandi. Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu. dr. Jakobs Sigurðssonar, og ég efast ekki um, að þar sé rétt að orði komizt á margan hátt frá bókfræðilegu sjónarmiði. En hv. þm. Siglf. varast að taka hæfilegt tillit til nokkurra annarra en hinna bóklærðu, hann tekur ekkert tillit til manna með margra ára reynslu að baki, ef þá vantar lærdómsstimpilinn. Einn þessara manna, sem fór út að læra niðursuðu, hefur skrifað mér, og ég veit því frá fyrstu hendi, að það er margt til í þessu máli, bæði á himni og jörðu, ef svo mætti segja, sem hvorki hv. þm. Siglf. né doktorana dreymir um.

Ég hygg, að ekki verði á móti því mælt, að ég hafi sjálfur sýnt hug á því að koma þessum málum áfram. Ég átti frumkvæði að því innan Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, að niðursuðuverksmiðja SÍF var stofnuð, og henni var ætlað að verða til uppörvunar og hvatningar til að ryðja brautina í þessum efnum. Síðan hafa risið upp myndarleg fyrirtæki í landinu af þessu tagi, t. d. niðursuðuverksmiðja Haralds Böðvarssonar á Akranesi og önnur á Bíldudal. Hv. þm. Siglf. skal því bara ekki ímynda sér, að það hafi fyrst verið, er hann og dr. Jakob Sigurðsson hittust, að menn fóru að opna augun fyrir því hér að sjóða niður fiskæti.

Þetta frv., ef samþ. verður, breytir ekki öðru en því, að hin sérstaka stjórn verksmiðjunnar, er hv. þm. skipaði í sinni ráðherratíð, á að hverfa, en fyrirtækið á að komast inn undir valdsvið síldarverksmiðjustjórnarinnar í heild. Út af þessu gerir hann hið mesta veður og heldur hér langa ræðu á víð og dreif til að tefja fyrir þessari litlu breytingu. En þetta, að skipta um stjórn fyrirtækisins, tefur sízt fyrir framkvæmdum. Síldarverksmiðjustjórnin er svo sem ekki fjarhuga þessum efnum, það er nú fjarri því. Hér er aðeins verið að gera málið einfaldara og ódýrara í framkvæmd.

Ég vil svo enda ræðu mína á því að benda hv. þm. Siglf. á það, sem hann hefur sjálfsagt lítið kynnt sér, að flest niðursuðufyrirtæki hafa byrjað starfsemi sína í smáum stíl og unnið sig upp. Þetta hef ég kynnt mér sérstaklega í Svíaríki, en hv. þm. stílar allt upp á sem allra stærst, og eru þetta tvö ólík sjónarmið. En ég vil benda honum á, að kostirnir við það stóra geta horfið og orðið að ókostum, ef við iðnaðinn fást miðlungi hæfir fagmenn og fjárhagshliðinni er ekki borgið. Því að þar sem svo er í pottinn búið, er hætt við, að framleiðslan verði ekki útgengileg á erlendum markaði, og hrakföllin verða þá óumflýjanlega því meiri, því stærra sem af stað er farið. Fikri menn sig hins vegar áfram með öruggum vörum og standi á föstum fótum með því að tryggja markað fyrir þær vörur erlendis, þá er betur unnið en þótt stórt sé brotið, en fyrirhyggjan minni. Mér er kunnugt um, að niðursuðuverksmiðja SÍF starfaði, lengi við örðug skilyrði. Nú er hún betur á vegi stödd með að koma framleiðslunni frá sér, en þó ekki eins og ákjósanlegast væri. Þetta bendir á, að ekki sé hægt að hlaupa inn í þennan iðnað á handahlaupum. Það verður að hafa alla fyrirhyggju með, en ekki eingöngu fína doktora og mikið maskinerí. Svíarnir sögðu mér, að þennan iðnað þyrfti að byggja upp með aðgætni og forsjálni.

Hv. þm. Siglf. þarf ekkert að vera hræddur um það, að þetta frv. verði til að torvelda framkvæmdir í málinu. Það dettur engum í hug að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi sérstaka fagþekkingu á þessu sviði, en það höfðu þeir ekki heldur, er hann lét stjórna. Dr. Jakob getur verið ágætur í sinni grein, án þess að þar með sé ástæða til að gleypa allt ómelt, sem hann og aðrir slíkir segja, og gera því í öllu hærra undir höfði en áliti þeirra, sem reynsluna hafa, en álit þeirra, held ég, að hafi verið sett nokkuð í skuggann á undanförnum árum.