07.05.1947
Neðri deild: 123. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

197. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil segja hér nokkuð um það, sem sérstaklega stendur í sambandi við það spursmál, hvort ríkið hefði nægilegt fé til þessara framkvæmda, en nauðsynlegt er að gera sér ljóst, hvort þjóðin hefur efni á þessu. Þessi gamla mótbára, sem kom fram hjá hæstv. atvmrh., á sjaldan rétt á sér og þá allra sízt, þegar þjóðfélagið sjálft er að taka undir sig, hvernig fjármagninu skuli varið. Hitt er aftur nauðsynlegt að leysa það fé, sem til er, láta það renna í þætti atvinnulífsins. Og hvað þurfum við svo til að byggja síldarniðursuðuverksmiðju? Við þurfum erlendan gjaldeyri og innlent vinnuafl, og peningarnir eru aðeins ávísun á þessa hluti. En ef við höfum peninga, nóga seðla, en ekki erlendan gjaldeyri, verkamenn né efni, þá eru þessir peningar einskis virði fyrir okkur eins og ávísun, sem ekkert er til fyrir. Við verðum því að aðgæta, að þó að nóg fé sé til, þá þarf það ekki að vera trygging fyrir því, að hægt sé að framkvæma hlutina. En jafnvel þótt seðlar séu ekki til, en ef hitt þrennt er fyrir hendi, erlendur gjaldeyrir, vinnuafl og innlent efni, þá er það það, sem þjóðin þarf með til þess að geta haldið uppi framkvæmdum, og ef þessir þrír hlutir eru til, er aumingjaskap og óstjórn um að kenna, ef við getum ekki tengt þessa þætti saman og framkvæmt hina ákveðnu hluti. En þegar hæstv. fjmrh. kemur með þá mótbáru, að ekki sé fé til, þá verður hann að sanna, að það skorti innlent vinnuafl eða gjaldeyri eða eitthvað annað eigi að ganga fyrir. Annars er mótbáran féleysi almennt röng og notuð sem afsökun, og í þjóðfélagi með áætlunarbúskap er bábilja að halda fram, að engir peningar séu til. Spurningin er því í því fólgin, hvort síldarniðursuðuverksmiðjan og þess háttar á að ganga fyrir öðrum framkvæmdum. Undanfarið hefur verið talað um, að við þyrftum að geta unnið úr afurðum okkar, og er það hið dýrmætasta fyrir okkur. Meðan við vorum nýlenda, framleiddum við hráefni og seldum þau litlu verði, t. d. framleiddum við kryddsíld og seldum hana Svíum, en þeir unnu svo úr henni og fengu margfalt verð fyrir hana. Nú hafa undanfarið verið gerðar tilraunir með síldarniðurlagningu hér, og hefur alltaf sýnt sig, að markaður er nógur fyrir slíka framleiðslu, og höfum við ekki getað fullnægt eftirspurninni. Eins gæti hafizt hér stórrekstur við gaffalbitaframleiðslu. Það, sem ríður á, er að geta fullnægt eftirspurninni, því að þeir, sem kaupa vöruna, hætta því, ef ekki er hægt að fullnægja eftirspurn þeirra, og er því um að gera að margfalda framleiðsluna.

Það sama má segja um lýsisherzluna, því að, ef við getum hert síldarlýsið og sent það þannig út, þá verður það margfalt dýrmætara en það annars er á normal tímum. Lýsisherzlan er því eitt stærsta efnahagslega sjálfstæðismál okkar. Það mál var undirbúið af fyrrv. ríkisstj. og nýbyggingaráði, og nær ekki nokkurri átt að stöðva það og sízt með þeirri átyllu, að ekki sé fé til. Við höfum gjaldeyri frátekinn í þessu augnamiði, og einnig er til nóg vinnuafl, og þá er bara spursmálið að fá fé til að hagnýta gjaldeyrinn og vinnuaflið. Í stjórnarsáttmála nýsköpunarstjórnarinnar var svo ráð fyrir gert, að ef ekki fengist fé eftir venjulegum leiðum, þá var gert ráð fyrir skyldulánum, og hljóta síldarniðursuðuverksmiðja og lýsisherzluverksmiðja að verða með því fyrsta, sem komið er á fót. Ef ríkið hefur ekki nægilegt fjármagn, þá er opin leið að leggja á skyldulán. Hins vegar er það aðeins átylla, að bankarnir hafi ekki nóg fé til að byggja þessar verksmiðjur. Erlendur gjaldeyrir mun vera um helmingur kostnaðarins, og er minnst á munum að skylda bankana til að lána ríkinu þennan gjaldeyri, þess vegna er óþarfi að tala um fjárskort í þessu tilfelli. En þetta þarf til þess að gera okkur fært að standa undir hærri lífs„standard“. Þjóðir, sem framleiða hráefni, lifa alltaf við bág kjör, en þær, sem vinna úr hráefnunum og koma sér upp einhverri iðju, hafa góða afkomu. Þess vegna er það stór fjárhagsleg villa, ef draga á úr eða stöðva þessi stóriðjufyrirtæki, því að það, sem hér er um að ræða, er efnahagslegt sjálfstæði okkar. Þetta er almennt viðurkennt, og er út í hött að tala um, að hér skorti fé, þegar ekki einu sinni enn þá er farið að brydda á eignakönnuninni, sem þó ætti að geta gefið nokkurt fé í aðra hönd.

Þetta var það, sem ég vildi aðallega segja um afstöðu stjórnarinnar til þessara mála, og það þarf að koma skýrt fram, hver tilgangur hennar er með þessar verksmiðjur, hvort eigi að fresta framkvæmdum eða ráðast í að byggja þessar verksmiðjur, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika.