13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

209. mál, Egilsstaðakauptún í Suður - Múlasýslu

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég tók sæti í allshn. í stað Hermanns Jónassonar, þm. Str., meðan hann er fjarverandi, og sem nm. allshn. tala ég nú. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu í þessu máli, bæði er það, að það er þingheimi kunnugt, þar eð það hefur verið meira og minna til umr. á þingi hin síðari ár, en þó sérstaklega af því, að höfundur þessa frv., hr. Jónas Guðmundsson, skrifstofustjóri í heilbr.- og félmrn., hefur hann samið það fyrir hæstv. ríkisstj., og komið því á framfæri hér á Alþ., hefur skrifað svo ýtarlega grg. fyrir frv., að eiginlega þarf þar engu við að bæta.

Þetta frv. er fram komið til þess að skapa þessu þorpi, sem er að myndast á hreppamörkum Vallahrepps og Eiðahrepps og nefnt skal Egilsstaðakauptún, aðstöðu til þess að geta orðið hreppur út af fyrir sig með svipuðum hætti og gegndi með Selfosshrepp, sem var til umr. hér á síðasta þingi.

Þetta mál er raunar nokkuð gamalt. Það mun hafa verið á árinu 1938, sem fyrst var farið að hreyfa því eystra, að komið yrði upp þorpi, sem yrði nokkurs konar miðstöð fyrir Fljótsdalshérað. Rekspölur komst þó ekki á málið fyrr en samþ. var þáltill. árið 1946, sem nokkuð margir menn stóðu að. Fjallaði hún um það, að ríkið skyldi beita sér fyrir skipulagi á væntanlegum þorpsstað og að þar yrði lögð vatnsleiðsla, skólpræsi og vegir lagðir, og var þá búið að ákveða, að þorpið skyldi vera á Egilsstöðum. Veit ég ekki betur en að nú sé búið að raflýsa þorpið, leggja um það vegi, vatnsleiðslu og skolpræsi, og er nú svo komið, að þeir menn, sem þarna hafa setzt að, óska eftir því, að þessi staður verði hreppur út af fyrir sig. Það ber ekki að draga dul á það, að slíkt er þessum mönnum mjög nauðsynlegt. Á hitt ber heldur ekki að draga dul, að þeir hreppar, sem þarna eiga hlut að máli, Eiðahreppur og Vallahreppur, vilja halda íbúum þessa þorps innan sinna vébanda. Um málið eystra er því nokkur ágreiningur, og mun slíkt oftast verða, þar sem líkt stendur á.

En hvað sem því líður, hygg ég, að allir séu sammála um það, að þessum nýja hrepp fylgi nokkurt land fram yfir það, sem hús þorpsins er reist á, og ég hygg, að takmörk þau, sem Jónas Guðmundsson hefur sett hreppnum í þessu frv., séu eðlileg og sjálfsögð, enda vissi ég til þess, að hann hafði borið það mál undir marga kunnuga og hlutlausa menn, áður en hann setti það í frv.

Við fyrstu umr. þessa máls minntist ég á 12. gr. og bað n. að athuga hana og hvort þörf væri að breyta henni. Þetta hefur nú verið gert, og eru nm. sammála um, að það sé undanskilið í gr., að kosningarrétturinn nái einungis til þeirra, sem eiga hann að öðrum lögum, og því þurfi ekki að taka þetta skýrar fram.

N. er sammála um að mæla með samþykkt frv.