13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

209. mál, Egilsstaðakauptún í Suður - Múlasýslu

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ræða hv. þm. Barð. er byggð á misskilningi. Það er búið að veita fé og koma upp rafstöð. Það er búið að raflýsa á kostnað ríkissjóðs. Það er búið að leggja götur, og það er búið að leggja vatnsveitu og allt þetta hefur ríkissjóður kostað. Þetta er allt búið að gera. Og það er þess vegna alveg tilbúið fyrir þorpið að taka við því í þessu standi, þegar það verður til sem sérstakur hreppur. Og ég tel, að það sé þetta, sem hv. þm. áttar sig ekki á. Þá er það, hvernig með afhendinguna skuli fara, en um það segir í frv., að það fari eftir samkomulagi, og hvort ríkið þá fær kostnaðinn upp borinn við afhendinguna, fer eftir því, hvernig semst. Um það er ríkisstjórnin fær að gera samning. Þetta er munurinn. Það er búið að gera margt, en það gerir grunntóninn í ræðu hv. þm. Barð., að ekki skuli vera búið að gera allt, sem á að gera. Það hefur verið látið til þessa fé af fyrrv. ráðh., Pétri Magnússyni, samkv. þál. frá 27. , apríl 1946. (HV: Vita menn, hvað það kostar?) Ég veit það ekki. Það liggur fyrir í ráðuneytinu. Hitt er annað mál, að nauðsynlegt er, að ríkisstj. fái heimild til að festa kaup á verulegu landsvæði, og væri þá æskilegt að komast hjá eignarnámi með viðunanlegum kaupsamningum. Nú er búið að laga þarna 26 lóðir, 250 ferm. flestar, virtar á 250 kr. hver lóð. Svo að það er hætt við, að eignarnámið geti orðið dýrt. En ég lít svo á þetta frv., að þegar það er orðið að l., þá geti það orðið ríkinu vegur og hagur, að hreppurinn yfirtaki verkin og sjái úr því sjálfur um lagning gatna, aukning rafmagnslagna o. s. frv., sem vitanlega þarf að stækka með aukinni byggð. Það tel ég ekki óeðlilegt, það þarf alltaf að bæta við og auka slíkt.

Ég sé enga ástæðu til að taka frv. aftur til athugunar hjá n. Hv. þm. Barð. er málið kunnugt, og hv. 1. þm. Reykv. á einnig sæti í n. og hefur ekki gert aths. við það. Hins vegar getur verið, og ég skil það vel, að hv. þm. Barð. athugaði málið sem gætinn fjármálamaður. En þetta er allt sem sagt búið að gera. Og ég vil ekki binda hendur ríkisstj. að því er snertir afhendinguna til hreppsnefndarinnar. Ég vil fyrir mitt leyti lofa ríkisstj. að hafa óbundnar hendur um það.