13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

209. mál, Egilsstaðakauptún í Suður - Múlasýslu

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Ég hefði viljað óska þess mjög gjarnan, að hv. þm. Barð. hefði fyrr séð, að ríkið átti að kaupa Egilsstaðaþorp, þá mundi hann hafa greitt atkv. með heimild til þess, er ég flutti, 1944. En hún fékkst með engu móti samþ., hvorki 1944 né 1945. En batnandi manni er bezt að lifa. Svo er hér 8. gr. Hún byrjar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar ríkissjóður hefur komið upp vatnsveitu, skólpveitu og rafveitu í Egilsstaðakauptúni, skal afhenda þau fyrirtæki öll með sérstökum samningi hreppsnefnd Egilsstaðahrepps.“ Ég tók fram áður, að ég veit ekki, hvað þetta hefur kostað mikið. Vatnsleiðsla var lögð 1945, en aðalvatnsleiðslan og skólpleiðslan í fyrrahaust og sumar. Um þessar framkvæmdir eru vafalaust til sérreikningar, og það væri fróðlegt að sjá, hvað ríkissjóður hefur í þetta lagt. Það ætla ég að vera búinn að athuga fyrir 3. umr. Hins vegar vil ég ekki taka það upp í 8. gr., að ríkisstj. sé fyrirskipað, á hvaða verði hinum nýja hreppi verði seldar þessar framkvæmdir. Ég vil láta það vera samningsatriði milli ríkisstj. og hreppsins. Það liggja margar ástæður til þess, og ég hygg, að sumar þessar framkvæmdir verði metnar við yfirtöku hreppsina. Nú munu hafa verið keyptir 3 mótorar, þótt einn hafi kannske verið seldur aftur. En áreiðanlega verður ekki þörf fyrir nema einn og svo annan til vara. En ég skal síðar upplýsa, hvað þetta hefur kostað. Annars mætti segja mér, að ekki væru komnir fram allir reikningar varðandi vatnsleiðsluna og skólpleiðsluna. En ég get ekki gengið inn á að setja það í 8. gr., að þetta skuli selt með kostnaðarverði. Ég vil láta ríkisstj. hafa óbundnar hendur um það, hvort hún selji þetta með kostnaðarverði eða slái af þessu, eins og hv. þm. talaði um, þ. e. a. s. því, sem nemur þeim styrk, sem veittur er til vatnsveitulagningar eða minna, því að ríkisstj. ber skylda til að koma bæði vatni og rafmagni í læknabústaðina. Það kann að vera, að ríkisstj. gangi inn á það. Ég lít svo á, að þessi afhending eigi að fara fram nú seinni partinn í sumar, þegar hreppsstjórn hins verðandi hrepps er orðin til.