14.05.1947
Efri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

209. mál, Egilsstaðakauptún í Suður - Múlasýslu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eftir þær upplýsingar, sem ég fékk í þessu máli við umr. hér í gær, mun ég ekki bera fram brtt. við frv. um að takmarka það framlag, sem látið er til þessara framkvæmda, vegna þess að upplýst var, að framkvæmdum sé að verða lokið, og ég hef einnig fengið upplýsingar um, hversu mikið fé hafi farið til þess, og ekki þess að vænta, að frekar verði óskað eftir stórkostlegum fjárframlögum frá Alþ. til þess að uppfylla ákvæði l. Ég hef hins vegar borið fram á þskj. 836 brtt. við 8. gr., þess efnis, að í stað orðanna „skal afhenda þau fyrirtæki öll með sérstökum samningi hreppsnefnd Egilsstaðahrepps“ í 1. mgr. komi: er ríkisstj. heimilt að selja þessi mannvirki öll með kostnaðarverði og sérstökum greiðsluskilmálum til Egilsstaðahrepps. — Ég tel, að það sé eðlilegt, að mannvirkin séu seld hinum væntanlega hreppi með kostnaðarverði, en hins vegar, að um greiðsluna verði farið eftir sérstökum samningum, þar sem m. a. verði tekið tillit til þeirrar fjárhagslegu aðstoðar, sem öðrum hreppum er veitt samkv. gildandi l. og því frv., sem liggur fyrir um aðstoð við vatnsveitur, og sams konar fjárhagsleg aðstoð verði veitt við kaup á þessum mannvirkjum, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist lán allt að 85% af kostnaði við vatnsveitur og sama í sambandi við rafveitur. Hreppurinn yrði þá sjálfur að standa undir 15%, en ríkissjóður aðstoðaði um ábyrgð og í þessu tilfelli ef til vill lánaði yfir lengri tíma 85% af upphæðinni. Ég tel þetta eðlilegt og sanngjarnt, því að það er ekki vafi, að ef ætti hér að gefa slíkar framkvæmdir eða selja með stórkostlegu tjóni fyrir ríkissjóð, þá yrði þetta ekki eini hreppurinn á landinu, sem gerði slíkar kröfur, heldur kæmu margir á eftir, og mundi verða ofviða fyrir ríkissjóð að standa undir þeim kostnaði, og yrði þá að neita öðrum um sams konar fríðindi og öðrum hafa verið gefin, og teldi ég það ranglátt.

Ég hef ekki borið fram neina brtt. í sambandi við söluna á landinu, en ég teldi hins vegar eðlilegt, að hinum nýja hreppi yrði gefinn kostur á að kaupa þessar lóðir, að sjálfsögðu þá ríkinu að kostnaðarlausu, en ef það ekki væri gert og ríkissjóður óskaði eftir að eiga lóðirnar áfram, þá væri leigan af lóðunum sett nokkuð með tilliti til þess, sem lóðirnar kosta og þeirra framkvæmda, sem gerðar hafa verið í sambandi við það, en um það hef ég þó ekki borið fram brtt. nú, tel þess ekki þörf á þessu stigi málsins, en vil mjög óska, að d. geti samþ. brtt., sem ég hef borið fram á þskj. 836.