13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

10. mál, útsvör

Gísli Jónsson :

Ég bar þetta mál fram í þriðja skipti nú á þessu þingi. Ég hef spurt um málið einu sinni utan dagskrár, og lofaði forseti þá að hafa áhrif á, að málið yrði afgr. og hafa samráð við mig um, hvenær málið væri tekið fyrir. Þáv. form. n. tjáði mér svo, að málið væri afgr. og að hv. þm. Str. hefði verið falið að semja nál., og varð það til þess, að ég féllst á að fresta, að málið yrði tekið fyrir. En ég legg áherzlu á að fá málið afgr. sem fyrst, enda veldur þetta deilu milli Suðurfjarðarhrepps og Reykjavíkurbæjar, og trúi ég ekki, að nefndarformaður noti aðstöðu sína til að liggja á málinu og tefja afgreiðslu þess, vegna þess að hann er borgarstjóri í Rvík, en þá fyrst, þegar mál þetta hefur hlotið afgreiðslu hér á hv. Alþ., er hægt að taka ákvörðun í þessari deilu. Ég vil benda á, að ég mætti fyrir hönd hreppsins og hv. 10. landsk. fyrir hönd Reykjavíkurbæjar til sáttaumleitunar. En eins og málið stendur nú, er alveg óviðunandi, og Alþ. verður að taka ákvörðun um það, á hvorum staðnum útsvarið eigi að greiða. En ég get fallizt á, að málið verði tekið út af dagskrá í dag.

Varðandi ummæli hv. 1. þm. N-M., þá sé ég ekki, að það komi þessu máli við eða hafi áhrif á það. Alþ. verður að taka afstöðu til þess, og ég veit, að hv. 10. landsk. er svo vel inni í þessu máli, að hann hefur skapað sér skoðun á því. Svo fæ ég ekki séð annað en hv. allshn. geti aflað sér upplýsinga þeirra, sem þurfa þykir, frá form. mþn., en ég endurtek það, að málið þolir enga bið.