13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

10. mál, útsvör

Hermann Jónasson:

Út af ummælum um hlutverk mitt í afgreiðslu þessa máls vil ég taka það fram, að afgreiðsla þess hefur dregizt lengi, sumpart af ástæðum, sem ekki er hægt að færa rök fyrir, og einnig af öðrum ástæðum. Á einum fundi, þar sem ég mætti ekki, var mér falið að forma brtt. í málinu. En á seinni fundi, þar sem átti að afgreiða málið, kom einn nefndarmanna fram með aths. um, að dómurinn, sem vísað er til í grg., væri efnislega rangt siteraður, og af þeim ástæðum dróst afgreiðslan. Þegar þetta var, var komið að jólum og þurfti að fá afrit af dómnum og rannsaka þessa aths. nefndarmannsins. Þegar afritið kom, kom í ljós, að aths. var röng. Dómurinn er í öllum aðalatriðum rétt síteraður, en eigi vannst þá tími til afgreiðslu fyrir jól. En nú er ég reiðubúinn að afgreiða málið hvenær sem er, fyrirvaralaust. Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að það er vel hægt að afgreiða þetta mál hér í d., þótt mþn. sé starfandi.