13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

10. mál, útsvör

Bjarni Benediktsson:

Ég sé nú ekki, að það sé rétt, að hv. þm. Str. hafi verið falið að forma brtt., samkv. bókuninni á þessum fundi. Þá vil ég og geta þess, að því fer svo fjarri, að n. hafi ekki sinnt þessu máli, að allir fundir frá því í nóvember hafa um þetta mál fjallað, og er ekki að efa, að til þess hefur ekki verið kastað höndum. Ástæðan til þess, að málið hefur dregizt, er fyrst og fremst sú, hve vandasamt það er, og hefur form. mþn. komið á einn fund n., og segir hann, að þetta atriði sé eitt hið vandasamasta og hefur n. þá komið sér saman um að taka ekki ákvörðun um það fyrst í stað.

Það er rétt, að hér er um mjög vandasamt atriði að ræða og engan veginn eins einfalt og hv. þm. Barð. og hv. þm. Str. vilja vera láta. Það er algerður misskilningur, að þessi atriði hafi ein verið ráðandi í dómnum, en það nær vitanlega engri átt að banna dómendum að taka tillit til mikilvægra atriða um það, hvar félagið eigi heimili. Og það er alls ekki sæmandi fyrir Alþ. að taka svo fram fyrir hendurnar á dómendum. Álit form. mþn. sýnir, að hér er ekki um neitt smámál að ræða, og ég hef einnig sýnt fram á, að allshn. hefur ekki legið á því.

Annars mun ég ekki fjölyrða um málið að svo stöddu. Það, sem hv. þm. Barð. sagði um að leita álits mþn., gæti þá komið fram í nál. sem rökstuðningur fyrir að fella frv. eða vísa því frá með rökst. dagskrá.

Ég hef nú gert grein fyrir þeim ástæðum, sem til þess liggja, að ég óska, að málið sé tekið af dagskrá í dag, og vænti þess, að hæstv. forseti verði við þeirri ósk, sérstaklega þar eð flm. frv. hefur fallizt á það.