13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

10. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda n. á nokkur atriði. Í fyrsta lagi tel ég það ekki ná nokkurri átt að samþykkja 2. gr. Fimm útgerðarfélög hafa reynt að skapa sér gerviheimili í hreppum. Ef þessi gr. yrði samþ., yrði ekki eitt einasta útgerðarfélag eftir í kauptúnum, þar sem útsvör eru há. Þau mundu flytja. Meira að segja héðan úr Rvík mundu þau flytja út á Seltjarnarnes og inn á Vatnsleysuströnd, og þeir mundu búa þar í torfkofum fyrir 20 kr. á mánuði, en búa þar bara að yfirvarpi.

Það verður líka að fyrirbyggja þann ósið, að nú er farið að skrá á skipin fyrir túr og túr, og þó að maður sé á togara allt árið frá Patreksfirði, geldur hann þar engin gjöld, því að hann er aðeins skráður túr og túr og á svo lögheimili annars staðar, en er ekki fastskráður á togarann.

Ég vil eindregið mælast til þess við n., sem fær þetta mál til meðferðar, sem sennilega verður allshn., að athuga þetta mál gaumgæfilega og taka ekki neinar ákvarðanir fyrr en hún hefur fengið álit þeirrar n., sem kosin var í sumar til þess að athuga einmitt þessi mál. Þessi mþn. hefur haft það með höndum og leitað álits frá bæjarstjórnum og hreppsn., og liggja þar fyrir á einum og sama stað álit þeirra allra, og hún á að skila áliti fyrir 1. febr. Og vil ég mælast til þess, að allshn. fái að vita, hvað líður störfum mþn. og þeim till., sem koma fram þar að lútandi.

Viðvíkjandi þeim atvinnurekstri, sem hv. þm. Barð. minntist á, þá hugsa ég, að slík dæmi séu fá, en aftur á móti munu mörg dæmi vera til um það, að menn búi sér til gerviheimili eingöngu til þess að borga lægra útsvar.