16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

10. mál, útsvör

Frsm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Hv. þd. er kunnugt um þann drátt, sem orðið hefur á þessu máli, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að rekja það mál nú. Eins og líka er kunnugt, gaf minni hl. allshn. út nál. fyrir þá sök, að meiri hl. n. vildi ekki afgreiða málið að svo stöddu. Síðan minni hl. n. gaf út sitt álit, hafa tveir fundir verið haldnir í allshn. og n. hefur orðið sammála um að flytja eftirfarandi brtt. við brtt. 538 og mæla með samþykkt frv. þannig breytts. Áður en ég geri grein fyrir, í hverju þessar breyt. eru fólgnar, vil ég rekja tildrög þessa máls nokkuð.

Eins og komið hefur fram, eru þessar till. fram bornar vegna þess, að Hæstiréttur lagði aðra merkingu í 1. málsgr. 8. gr. útsvarslaganna en almenningur og jafnvel löggjafinn hafa gert. Þetta mál er risið út af útsvari, sem leggja bar á h/f Djúpuvík, en það varð ágreiningur um, hvort það ætti að greiðast til Reykjavíkurbæjar eða til hreppsfélagsins þar á staðnum. Nú var Rvík dæmt að vera heimasetur félagsins, vegna þess að eigendurnir eru búsettir þar og þar fer fram mestallt skrifstofuhald félagsins. En þetta finnst okkur ekki alls kostar rétt, því að öll arðsköpun félagsins fer fram á Djúpuvík eða frá Djúpuvík. Nú má að vísu segja, að það sé heimilt að leggja líka á félagið á Djúpuvík, en það er nú, eins og öllum er kunnugt, ýmsum annmörkum bundið að leggja þannig útsvar á í tveimur stöðum, en þó er hitt aðalatriðið, að okkur finnst, að það sé bæði eðlilegt og rétt, að framleiðslustaðir fyrirtækja eins og þessa fyrirtækis eigi tvímælalaust forgangsrétt að útsvari fyrirtækisins. Efni brtt. get ég lesið upp, með leyfi hæstv. forseta, til þess að það verði ljósara fyrir hv. þm., hvað í þeim felst. Það er gert ráð fyrir, að ákvæðin um þetta atriði verði þannig:

„Sé gjaldþegn félag samkvæmt 6. gr. II. 1. tölulið,“ — það er ekki ætlazt til, að þessar breyt. taki til annarra en félaga, því að þarna er talað , um ýmis félög — „skal leggja útsvar á félagið þar, sem það hefur skrásett heimilisfang“, — það er það fyrsta — “án tillits til þess, hvar stjórnendur eða framkvæmdastjóri eiga lögheimili,“ — þetta sigtar á hæstaréttardóminn, sem miðar heimilisfangið að verulegu leyti við það sama — „enda reki félagið atvinnu sína á skrásetningarstað.“ — Þetta er gert til þess að ekki sé hægt að nota heimilisfang til þess að félög geti látið leggja á sig útsvör þar, sem þeim þyki hentugast, vegna þess að þar séu sveitarþyngsli minnst, heldur sé miðað við skrásett heimili og þá miðað við, að félagið reki atvinnu sína á sama stað og það hefur skrásett heimili. Það er ekki vafi á því að þetta félag, sem minnzt hefur verið á, rekur atvinnu sína á Djúpuvík, og hliðstætt mun einnig hafa átt sér stað um það fyrirtæki, sem hv. flm. mun hafa ætlazt til, að ákvæði frv. tækju til og hann hefur haft í huga. En svo er áframhaldið í brtt. „Ef slíkt félag rekur atvinnu í fleiri sveitum en einni, má á hverjum stað aðeins leggja á þær eignir, sem þar eru, og þær tekjur, sem sá atvinnurekstur gefur.“ Þetta þarf ekki skýringar við. En hér er verið að reyna að gera ákvæði útsvarsl. skýrari en áður hefur verið um það, að útsvörin séu lögð á þar, eða þaðan, sem teknanna er aflað. Það er miðað við það, að einstakir staðir, hvar sem eru á landinu, geti ekki orðið eins konar hjálenda, sem aðrir staðir taki útsvör af atvinnurekstri á. Og það er miðað við þá skoðun, að þeir staðir hér á landi, sem hafa sérstaka aðstöðu til arðbærs atvinnurekstrar, eigi einnig að njóta útsvarstekna af þeim atvinnurekstri, sem þar er rekinn, en að aðrir staðir geti ekki hirt þær útsvarstekjur á óeðlilegan hátt, með því t. d. að miða útsvarsálagningu við það, hvar forstjóri félagsins er búsettur eða stjórnarnefndarmenn félagsins.

Við vorum fjórir mættir á fundi í allshn., þegar þessi brtt. var samin, en einn hv. nm., 7. landsk., skrifaði undir nál. og brtt. með fyrirvara. En ég geri ráð fyrir, að sá fyrirvari sé e. t. v. miðaður við það, að hann var ekki á fundinum. Hann mun hafa hugsað sér að bera fram till. um víðtækari breyt. á útsvarsl., sem snerta önnur atriði þeirra l. Hv. 7. landsk. þm. getur að vísu komið þessum brtt. að við 3. umr. En mér er kunnugt um, að þessum hv. þm. var áhugamál að koma þessum brtt. að.

Með þessum orðum held ég, að ég hafi gert grein fyrir þeim brtt., sem hér eru fram bornar. En ég hef ekki minnzt á það, að við gátum í n. ekki fallizt á þau ákvæði, sem felast í 2. gr. frv., eins og það er fram borið, um að ekki skuli skipta útsvörum milli sveitarfélaga, ef bæði sveitarfélögin eru innan sama sýslufélags. En þær brtt., sem hv. 7. landsk. hyggst að bera fram, eftir því sem hann tjáði mér eftir að nefndarstörfum var lokið um frv., eru einmitt um þetta atriði.