16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

10. mál, útsvör

Frsm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Hv. þm. Barð. spurði um, hvernig mundi verða litið á það, ef þessi ákvæði yrðu að l., sem n. leggur til, og hvernig það mundi verða skýrt, ef millilandaskip hefði aðsetur úti á landi þannig, að það væri þar skrásett, kæmi til Rvíkur við og við til að setja upp og taka menn og hefði aðra afgreiðslu, en atvinnu kannske einhvers staðar úti í löndum. Ég get náttúrlega ekki svarað þessu til neinnar hlítar, vegna þess að það er ekki farið inn á það hér í brtt., og verður ekki gert í útsvarsl., nema með miklum breyt. á þeim l., ef það þá verður gert, að skýra það í l. sjálfum, hvað telst að reka atvinnu á tilteknum stað eða frá tilteknum stað. Ég get þess vegna ekki farið inn á að skýra það neitt verulega og eiginlega alls ekkert. En vitað mál er það, að flest skip koma við hér í Rvík, sem hér við land sigla, þó að manni virðist ekki eðlilegt að líta svo á þrátt fyrir það, að rekstur þeirra sé héðan, ef þau eru annars staðar skrásett og hafa fyrst og fremst þaðan atvinnurekstur sinn. Annars er ekki hægt að neita því, að þá gæti komið til athugunar síðasta málsgr. brtt. n., sem er um skiptingu á útsvörunum, ef hér í Rvík er um svo miklar viðkomur skipa að ræða, að dómstólarnir telji, að hægt sé að líta svo á, að atvinnurekstur sé rekinn héðan, þó að fyrirtækið, sem rekur hann, sé skrásett annars staðar.

Viðkomandi því, sem hv. 1. þm. N-M. spurðist fyrir um, um skrásetninguna, þá er það alveg auðsætt, eins og ég tók fram hér í frumræðu minni um þetta mál, að samkv. 1. málsgr. 8. gr. útsvarsl. skal þar leggja útsvar á gjaldþegn, sem hann hefur heimilisfang vitanlega eða samkvæmt manntali næst á undan niðurjöfnun. Þessi tilfelli gætu komið fyrir bæði um einstaklinga og félög. En þessi ákvæði, sem hér liggja fyrir til umr., þau grípa aðeins til félaga, því að hér segir: „Sé gjaldþegn félag samkvæmt 6. gr. II 1. tölul., skal . .“ o. s. frv. En þessi ákvæði taka ekki til einstaklinga, það er vitað mál, og það af þeirri ástæðu, að þetta er aðeins bráðabirgðabreyt. á útsvarsl., sem á að ná því að leiðrétta þá skekkju, sem hefur átt sér stað samkv. þeim dómi hæstaréttar, sem ég las upp, og í hliðstæðum tilfellum, sem hafa komið fyrir viðvíkjandi félögum. Að því er snertir einstaklinga, þá standa ákvæði útsvarsl. um þá óhögguð eins og þau hafa verið þrátt fyrir breyt., sem hér er lagt til að gera, og eru þau ákvæði í 1. mgr. 8. gr. l. um útsvör frá 1945. Það er vitað mál, að það eru miklu fleiri ákvæði í útsvarsl. en þetta, sem hv. þm. minntist á, sem þyrfti að laga og leiðrétta, og það ætti að vera verk þeirrar mþn., sem að þessu máli starfar, að gera till. um þær leiðréttingar og lagfæringar. En mér er sagt, að sú n. sé ekki sammála um veigamikil atriði. Hins vegar á þessi breyt., sem hér liggja fyrir till. um, aðeins að taka til þessa eina tilviks, sem hér hefur verið um rætt og ég hef bent á og er nákvæmlega hnitmiðað í fyrstu setningu þessarar brtt., sem hér liggur fyrir. Það er sjálfsagt alveg rétt hjá 1. þm. N-M., að það mun vera talsvert algengt, að menn misnoti þessi ákvæði 1. málsgr. 8. gr. útsvarsl. með því að láta skrá heimilisfang sitt þar, sem þeir geta komizt af með að greiða lægri útsvör en ef það væri skráð þar, sem þeir sömu menn dvelja. En það er ekki til þess ætlazt út af fyrir sig með flutningi þessa máls, að þessi lagabreyt. taki til þess atriðis.