16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

10. mál, útsvör

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að brtt. sú, sem hér liggur fyrir, sé áreiðanlega til bóta á útsvarsl., og að ef hún yrði samþ., mundi hún leiða til þess, að félög verði að greiða útsvör þar, sem þau nota atvinnuaðstöðu sína til atvinnurekstrar.

Út af hinu atriðinu, sem hv. 1. þm. N-M. minntist á, að einstakir menn skráðu heimilisfang sitt annars staðar en þar, sem þeir hafa atvinnurekstur, og fyrirspurn hans um þetta til n., vil ég segja nokkur orð. — Ég minnist þess, að það hafa verið fleiri en eitt tilfelli á Ísafirði þannig, að menn hafi skráð lögheimili sitt annars staðar en þeir hafi rekið atvinnu sína, sem þeir hafa rekið á Ísafirði. Við Ísfirðingar höfum hiklaust lagt útsvör á atvinnu þessara manna þar, og síðan höfum við heimtað úrskurð um heimilisfangið. Ég man t. d. eftir útgerðarmanni, sem skráði lögheimili sitt á Ingólfsfirði, en hafði mikil fiskkaup á Ísafirði. Það var úrskurðað, að það væri sýndarheimili, sem hann hefði á Ingólfsfirði, og það var dæmt þannig, að útsvar hans færi til Ísafjarðarkaupstaðar. Og ég hygg, að ákv. l. séu þannig, að hægt sé yfirleitt að fá úr slíkum málum skorið á þennan hátt, ef eftir því er gengið. A. m. k. hefur þannig fengizt úr þessu skorið alveg hreinlega í þeim tilfellum, þegar við höfum fengið úrskurði um sýndarheimilisfang,. er varða útsvarsgreiðslur til Ísafjarðarkaupstaðar. Það er því nokkur vafi um það, hvort gera þarf breyt. á útsvarsl. út af slíkum tilfellum, sem ég hef getið um, varðandi einstaka menn. Ég held, að það séu næg fordæmi til að sanna það, að svo er litið á, að útsvar skuli greiðast þar eða þangað, sem atvinnurekstur er rekinn, ef viðkomandi atvinnurekandi kemur ekki á þann stað með neinn atvinnurekstur, þar sem hann hefur látið skrá lögheimili sitt. Mér er ekki kunnugt um neinn úrskurð eða dóm, sem sé í aðra átt. En hins vegar er mér kunnugt um fleiri dóma, sem fengizt hafa til úrskurðar á þann veg, sem réttlátt virðist vera.