18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

10. mál, útsvör

Guðmundur Í. Guðmundsson :

Þegar þetta mál var til athugunar í allshn. þessarar hv. d., skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur, þegar málið var til 2. umr., til þess að gera grein fyrir fyrirvara mínum. Mér þykir því rétt að fara um hann nokkrum orðum nú. hér við þessa umr., um leið og ég geri grein fyrir þeir brtt., sem ég hef borið fram, enda eru þær fram komnar í framhaldi af þessum fyrirvara mínum. Ég skal taka fram strax, að ég fyrir mitt leyti hef ekkert við þá brtt. að athuga, sem allshn. hefur borið fram. Ég get verið henni fyllilega samþykkur, og sé ekkert því til fyrirstöðu, að hún verði samþ. Ég sé að vísu ekki, að þessi brtt. geri neina verulega efnisbreyt. á l. Hitt er annað mál, að það kann vel að vera, að af þessari brtt. leiði það, að l. verði skilin og framkvæmd öðruvísi en verið hefur. Og er það að sjálfsögðu vel, ef þessi brtt. veldur þessu, ef samþ. verður, að leiða menn úr þeirri villu, sem sumir hverjir hafa verið haldnir af.

Fyrirvari minn lýtur að því, að ég tel, að á þessu stigi málsins sé óhjákvæmilegt að gera frekari breyt. á l. en n. leggur til að gerðar verði, breyt., sem mér virðist, að hefði átt að vera búið að gera fyrir nokkru síðan og séu nú orðnar svo aðkallandi, að ekki sé hægt að ganga fram hjá því lengur að gera þær, þ. e. a. s. að breyta 9. gr. útsvarslaganna um skiptingu útsvar á milli sveitarfélaga. Því að, eins og hv. þdm. er kunnugt, gera útsvarslögin ráð fyrir því, að útsvörum sé skipt á milli sveitarfélaga, ef tekjum þeirra, sem útsvar hefur verið lagt á, hefur verið aflað í fleiri en einu sveitarfélagi. — Þær breyt., sem ég legg til á þskj. 675 og hv. meðflm. minn, að gerðar verði á frv., eru í því fólgnar, að við leggjum til, að hætt verði við skiptinguna á útsvari á tekjum vinnandi fólks, sem vinnur í fleiri en einu sveitarfélagi. Þessa skiptingu viljum við láta alveg niður falla og útsvarið allt renna til þeirrar sveitar, sem lagt hefur útsvarið á. Skal ég nú gera nokkra grein fyrir því, hvaða hugsun liggur á bak við þetta og hvaða ástæður við teljum vera til þess, að þessi ákvæði séu nú felld úr l. Þessi skiptingarákvæði útsvari, hafa nú verið í gildi um nokkurn tíma og verið framkvæmd út í æsar, að því er virðist af flestum sveitarfélögum landsins eða öllum. Það hefur komið á þeim tíma, sem þetta hefur gilt, talsverð reynsla á það, hvernig þetta hefur gefizt. Og ég held, að það sé óskipt skoðun allra, sem með framkvæmd þessara ákvæða hafa haft að gera, að þau hafi verið erfið í framkvæmd og að þau gjarnan megi fara úr l. og eigi, eins og nú er komið, engan rétt á sér. Það fyrsta er, að framkvæmd l. sjálf er miklu vinnufrekari og kostnaðarsamari fyrir sveitarfélögin með þessu ákvæði en án þess. Þau þurfa að vera í stöðugum eltingaleik við alla, sem dvelja utan heimilissveitar sinnar, til þess að fá að vita, hve lengi þeir eru á hverjum stað og hve mikið þeir vinna í þessum eða hinum staðnum, til að plokka útsvar af vinnutekjum þeirra. Svo, þegar búið er að fá að vita þetta, er eftir að innheimta og skipta útsvarinu. Þetta fyrirkomulag er erfitt í vöfum, tímafrekt og óþægilegt. En merkilegast er, að þegar útkoman á þessu er athuguð, þá kemur í ljós, að þegar upp er staðið, eru sveitarfélögin svo að segja jafnt sett eftir skiptinguna og þau voru áður. Útkoman hjá öllum þessum sveitarfélögum, sem skipta með sér útsvörum manna, er mjög svipuð á eftir og áður. Þau fá flest öll jafnmikið og þau verða að láta, þó að frá þessu séu nokkrar verulegar undantekningar. Sum sveitarfélög hafa einhvern lítinn vinning af skiptingunni, en önnur tapa nokkru. Ég hef ekki fundið þau sveitarfélög, sem nokkuð verulegt græða á skiptingu útsvaranna. Ég get sagt það um Reykjavíkurbæ, sem maður gæti búizt við, að hagnaðist á þessu, að mér er sagt það af borgarritara, að eins og nú er, skaðist bærinn á þessu. Persónulega er mér kunnugt um, að Seltjarnarneshreppur, Garðahreppur, Mosfellssveit og fleiri hreppar skaðast á þessari skiptingu. Sama er að segja um Ísafjörð, og mér skilst Seyðisfjörð líka. Ég veit ekki, hverjir hagnast á þessu. Einhverjir hljóta það að vera. En mér virðist sveitarfélög hafa lítið upp úr þessu. En skiptingin hefur fyrirhöfn mikla og ergelsi í för með sér. Og mér finnst lítið misst, þó að hætt verði við þetta fyrirkomulag og ákvæðið um skiptingu útsvara látið falla niður. Og ástæður eru nú og hafa verið um nokkurt skeið allt aðrar en þegar þessi lagaákvæði voru sett. Síðan hefur orðið gerbreyting. Þegar þetta ákvæði var tekið í útsvarsl., var hér atvinnuleysi í landinu. Þá var lítil eftirspurn eftir vinnu, en verulegt framboð á vinnuafli, og þá má segja, að eðlilegt væri, að þau sveitarfélög, sem þannig var ástatt um, að aðkomumenn komu þangað og tóku vinnuna frá heimamönnum, gætu fengið tekjur af vinnu þessara aðkomumanna, sem þar unnu, og má segja, að þá hafi þetta ákvæði verið réttlátt. En nú er þetta allt snúið við. Eftirspurn eftir vinnuafli er mikil í samanburði við framboð á vinnu, og miklu meiri en áður. Það er síður en svo, að það sé greiði við það sveitarfélag, sem vinnuafl er tekið frá, að maður, sem þar á heima, vinnur annars staðar. En það er greiði við sveitarfélagið, sem vinnuna fær, að utansveitarmaður vinnur þar, og væri því eðlilegast, að þessum ákvæðum um skiptingu útsvaranna væri beinlínis snúið við, þannig að þau sveitarfélög, sem fá vinnuaflið til sín, ættu að greiða þeim sveitarfélögum, sem hafa látið vinnuaflið af hendi, álag á útsvarsgreiðsluna beinlínis sem þóknun. Og þetta er beinlínis ástæðan til þess, að ég og hv. meðflm. minn berum fram þessa brtt. Það virðist næsta óeðlilegt og ósanngjarnt, að sveitarfélög, sem hafa næga vinnu fyrir allt sitt heimafólk, verði fyrst að sjá á eftir heimamönnum sínum í burtu í önnur sveitarfélög, þó að þau eigi óleyst verkefni heima hjá sér, og þurfi síðan að greiða með þeim til annarra sveitarfélaga, sem hafa náð í vinnuafl þeirra til sinna afnota. Mér virðist þetta óeðlilegt og eiga að falla niður undir öllum kringumstæðum.

Ég sé að svo stöddu ekki ástæðu til að taka fleira fram um þetta. Ég var að vísu hér með brtt. til vara. Ég sé ekki ástæðu til að hreyfa henni alveg strax. Ég ætla að sjá, hvernig undir þessar brtt. mínar verður tekið, og láta fara eftir atvikum, hvort ég geri nokkrar varabrtt. í málinu.