18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

10. mál, útsvör

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. veik nokkrum orðum að mér, m. a. út af þeim drætti, sem orðið hefði á því, að þetta mál yrði afgr. hér. Ég þykist ekki þurfa að svara þessum ummælum nú. Þeim hefur verið svarað áður. Þessi hv. þm. veit vel, að ástæðan til þess, að málið hefur ekki verið afgr. til þessa, er sú ein, að fram hefur farið heildarendurskoðun á útsvarslöggjöfinni. En það hefur dregizt svo lengi, að lokið yrði þeirri endurskoðun, að Alþ. er orðið uppgefið á að bíða eftir henni, og þess vegna hefur orðið að ráði, að menn vilja ganga inn á að gera nú nokkrar bráðabirgðabreyt. á útsvarslöggjöfinni. Annars er það næsta undarlegt hjá hv. þm. Barð. að fara að ráðast að mér fyrir þessa brtt. mína. Hann segir, að hann vilji að vísu ekki halda því fram, að ég væri að reyna að koma málinu fyrir kattarnef með því að bera þessa brtt. fram. Mér finnst sízt sitja á hv. þm. Barð. að deila á mig fyrir að bera þessa till. fram, þegar þess er gætt að í minni till. felst að miklu leyti það sama, sem hv. þm. Barð. sjálfur hefur lagt til, en meiri hl. allshn. ekki viljað taka upp. Ég hefði frekar búizt við því, að hv. þm. Barð. þakkaði mér og styddi mig af alhug fyrir undirtektirnar en að hann deildi á mig fyrir að taka undir till., sem hann hefur sjálfur borið fram.

Hv. 1. þm. N-M. taldi sig tala á móti þeim brtt., sem ég hef borið fram. Fékk ég þó ekki séð, að uppistaðan í ræðu hans væri annað en meðmæli með till. Niðurstaðan varð þó sú, að hann lagði á móti till., þó að forsendurnar, sem hann kom með, væru á þann veg, að þær mæltu með minni till. Hv. þm. gat þess m. a., og átti það að vera rök fyrir afstöðu hans, að enda þótt ákvæðið um útsvarsskiptingu væri búið að vera í l. yfir 10 ár, þá ættu flestir ekki að því að búa enn þá, og hann spurði, hvað þessi l. ættu að gilda lengi til þess að hægt væri að framkvæma þau. Hv. þm. tók það fram, eins og rétt er, að mörg sveitarfélög töpuðu útsvörum vegna þess, að þau hefðu ekki tök á því að framkvæma l. réttilega, og þá ekki sízt vegna þess, að það þarf ákaflega mikinn vinnukraft til þess að vinna að þeim undirbúningi, sem þarf til þess að njóta réttinda samkv. l. Þetta væri sveitarfélögunum um megn og þess vegna væri ástandið þannig í dag, að sveitarfélögin hefðu ekki rétt á því að framkvæma l. réttilega. Nú finnst manni, að hv. 1. þm. N-M. hefði átt að draga þá ályktun af þessum forsendum að beita sér fyrir að afnema þessi óframkvæmanlegu lög.

Hv. þm. minntist á það ákvæði, að ef menn eru 3 mánuði í skiprúmi, þá ættu þeir að greiða hluta af útsvari, en ef þessi tími styttist, þá félli útsvarsskiptingin niður. Nú væri farið að praktisera það að afskrá menn af skipunum rétt áður en 3 mánuðir væru liðnir, til þess að útsvarsskiptingin félli niður. Ég held því, að þetta ákvæði sé ekki til fyrirmyndar og ekki til þess að halda í það, þar sem þannig er frá ákvæðinu gengið, að hægt er að gera það að engu, ef menn vilja hafa sig í það að fara í kringum l. og misnota þannig aðstöðu sína. Mér finnst þessi rök hv. þm. benda til þess, að gr. eigi ekki að standa, heldur falla niður.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að útsvarsskiptingin væri réttlát. Það væri réttlátt, að maður, sem býr í Mosfellssveit, en vinnur í Hafnarfirði — það væri réttlátt, að þá ætti Hafnarfjarðarbær rétt á því að fá af útsvari þessa manns. Ég er á öndverðri skoðun við hv. þm. í þessum efnum. Mér finnst, að reynslan hafi sýnt, að það er fengur fyrir sveitarfélag að fá vinnuafl, fengur sem venjulega eigi að greiða fyrir, en ekki að fá meðgjöf með. Ég held, að Hafnarfjarðarbæ sé gerður með þessu svo stór greiði, að bærinn eigi ekki rétt á því að skattleggja Mosfellssveit, heldur eigi hann að greiða Mosfellshreppi fyrir þennan greiða.

Þá minntist hv. þm. á það, að ef útsvarsskiptingin væri felld niður, þá mundi það leiða til skattflótta, menn færu að taka sér búsetu á stöðum, þar sem lægri væru útsvör, þó að þeir ættu heima annars staðar; þar sem útsvör væru hærri og þeir stunda vinnu. Ég held, að engin hætta sé á því, að nein breyt. verði á þessu frá því, sem verið hefur. Útsvarslögin hafa að geyma fullkomin ákvæði um það, hvar menn teljast eiga heima og hvar á menn skuli leggja. Það er ekki hægt að fara í kringum það með yfirskynsbúsetu, ákvæði l. eru skýr og ótvíræð, og þó að menn reyni að búa til tyllibústað, þá á það ekki að vera hægt, ef l. eru sómasamlega framkvæmd. En það er svo hlutverk löggjafarinnar um heimilisfestu að sjá til þess, að slík aðstaða sé ekki misnotuð. Það á að koma í veg fyrir mistök með ýtarlegri ákvæðum í þeim l., en það á ekki að taka upp í útsvarsl. ákvæði um rangláta skiptingu útsvara, sem eins og hv. 1. þm. N-M. tók fram, hefur leitt til þess, að menn eftir 10 ár geta hvorki skilið né framkvæmt l., og er því farið með svikum og prettum í kringum þau.