18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

10. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Hv. 7. landsk. sagði, að ég hefði átt að þakka sér fyrir þessa brtt. Ég vil í sambandi við þetta benda á, hvernig gangur þessa máls hefur verið undanfarið. Honum er ljóst, að félmrn. lét, meðan Finnur Jónsson átti þar sæti, gera miklar athuganir á útsvarsl. Á sama tíma flutti ég hér frv. og óskaði eftir, að allshn. þessarar d. léti ganga atkv. um frv. eða felldi meginatriðin í því frv., sem þá var hér á ferðinni. Hv. 7. landsk. hafði þá engan skilning á því, að 1. eða 2. gr. þyrfti fram að ganga. Ég hafði hvað eftir annað óskað eftir, að þetta mál yrði afgr. frá allshn., og þessi hv. þm. hefur setið í n. og aldrei haft skilning á því fyrr en nú, að þessi hlið málsins þyrfti að afgreiðast. Þegar því n. kemur þannig, óklofin og vill samþykkja 1. gr. óbreytta, en ekki taka afstöðu til 3. gr., vegna þess að hún er ósammála um þetta atriði og 7. landsk. gerir fyrirvara um þetta atriði, — þá er ekkert óeðlilegt, þó að ég álíti, að hér vaki eitthvað annað fyrir hv. þm. en að fá kjarna málsins fram á þessu þingi. Hins vegar getur verið, að hér skorti á bak við þvingun frá hans umbjóðendum, sem hafa meiri möguleika til þess að koma honum í skilning um þetta en mér hefur tekizt, en það á þetta mál ekki að líða fyrir. Ég sé hins vegar ekki, að það sé útilokað, þó að seint sé, að félmrn. biðji allshn. að flytja frv. um breyt. á þessari gr., því að ef fyrir því er fylgi í þinginu, ætti það frv. að geta farið í gegn á skömmum tíma, og vildi ég mælast til þess, að hv. 7. landsk. tæki upp þá aðferð, til þess að fá fullt samkomulag um þetta frv.

Ég vil benda hv. 7. landsk. á það, að núv. dómsmrh. er efnislega á móti þessu máli, bæði 1. gr. eins og hún nú er og till., sem hann ber hér fram, og ég hygg einmitt fyrir það, að hann vill nota öll leyfileg meðul þm. til þess að stöðva málið. Vil ég víta form. n. og alla, n. fyrir það, hvernig farið hefur verið með afgreiðslu þessa máls. Hygg ég, að það hafi enginn notað slíka aðstöðu til þess að fara eins með mál, sem er jafnöruggt sem réttlætismál eins og þetta mál til þess að láta það daga uppi. — Út af ummælum hv. 1. þm. N-M. nú um, að það sé farið að taka upp slíka skrásetningu, þá vil ég benda hv. þm. á það, að það er hreinn misskilningur. Sannleikurinn er sá, að einn hreppsnefndaroddviti, Hákon í Haga, hefur mótmælt vegna þess, að menn hafi aldrei verið lögskráðir. Þess er krafizt, að menn séu allir skráðir, þegar þeir eru á togurum, en ólögskráðir þegar þeir koma í land. Menn eru aldrei skráðir nema í eina veiðiför í einu, og þess vegna ekki grundvöllur fyrir að krefjast skiptingar. Maður er aldrei skráður á skipi lengur en hann er um borð í skipinu. Það var þess vegna, sem hann (Hákon) fékk úrskurð frá ríkisskattan. um, að ekki væri hægt að skipta útsvarinu, úr því að hér var ekki um að ræða óslitið starf í 3 mánuði.

Ég vil svo vænta þess, að hæstv. forseti ljúki málinu á þessum fundi.