13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

10. mál, útsvör

Sigfús Sigurhjartarson:

Mér skildist hv. frsm. leggja þá merkingu í umsögn bæjarráðs, að eiginlega væri það frv. ekki andvígt, þar sem það gerði ekki neina breyt. Að sjálfsögðu getur enginn mælt með því frv., sem í bezta falli yrði dæmt þannig, að það breytti engu frá gildandi l. En vissulega er tilgangur þessa frv. að breyta l. og gera auðveldara fyrir menn að láta leggja á sig skatta annars staðar en raunverulegt heimilisfang þeirra er og reksturinn fer fram frá. Ef svo skyldi verða litið á af dómstólum, að sá tilgangur náist að einhverju leyti, er frv. til hinnar mestu óþurftar. Ég vil benda á dæmi, sem er ekki úr lausu lofti gripið, því að það er einmitt vegna slíks dæmis, sem þetta mál er fram komið. Eigendur eins togarafélags eiga allir heima í Rvík. Þeir fóru eitthvað út á land til að stofna félagið. Þeir segja, að togarinn sé gerður út frá þeim stað. Togarinn veiðir í ís lengst af. Slíkir togarar sem þessi eru kannske skráðir í einhverri Dritvík þessa lands, og kannske kemur togarinn aldrei þangað. Hann siglir til Englands og leggur þar aflann og fær eldsneyti, skýzt, ef til vill inn í Rvík og Dritvík endrum og eins. Samkv. þessum l. — eða tilganginum með frv. — á að vera hægt að halda því fram, að togarinn sé ekki gerður út frá Rvfk. Tilgangurinn er sem sé að gera mönnum auðveldara að komast undan sköttum þar, sem þeir eiga að greiða þá.

Ég vil mjög rækilega undirstrika, að bæjarráð var algerlega einhuga að álíta, að ef frv. væri ekki markleysa, þá væri það hættulegt. Svo að í öllum kringumstæðum ber að fella það.