13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

10. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Garðar Þorsteinsson) :

Ég held, að kenni nokkurs misskilnings hjá hv. 6. þm. Reykv., þar sem hann sagði, að bæjarráð væri sammála um að mæla gegn frv., og kom það skýrlega fram í umsögn þess. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Að vísu má segja, að með frv., eins og hv. Ed. samþ. það, sé í raun og veru ekki gerð breyt. á gildandi ákvæðum um útsvarsgreiðslustað félaga samkv. 6. gr. II, 1, þar sem þess er krafizt, að félagið reki atvinnu í skrásetningarsveit til þess að verða þar útsvarsskylt, en að hinu leytinu geti félagið orðið útsvarsskylt víðar en í einni sveit.“ Þetta er höfuðatriðið. Eins og frv. kom frá Ed., er skilyrðið til þess að félag, sem rekur skip frá ákveðnum stað, þar sem það er skrásett, sé útsvarsskylt, að skipið raunverulega reki þaðan atvinnu. Síðan segir bæjarráð: „Hins vegar má, eins og áður segir, líta svo á, að með frv. séu ekki gerðar breytingar á því, hvar félög eru talin útsvarsskyld.“ Úr þessu svari bæjarráðs er ekki hægt að skilja annað en það telji frv. raunverulega enga efnisbreyt. frá gildandi l. Það er verið að slá föstu — og er það engin launung — skýrt og skorinort, í löggjöfinni, að skip, sem eru skrásett frá ákveðnum stað úti á landi og hafa þar atvinnurekstur, eins og segir í frv., skuli gjalda þar útsvar. Það dæmi, sem hv. 6. þm. Reykv. tók af því, að skip kæmi aðeins á skráningarstað til málamynda, er allt annað atriði. Það væri t. d. alveg áreiðanlegt, að félag, sem skrásetti togara sinn í Grímsey, væri þar ekki útsvarsskylt, ef togarinn kæmi aldrei þar, en væri stjórnað héðan af skrifstofu félagsins. Þetta væri þá gert til þess að komast hjá að greiða útsvar á réttum stað. En þetta frv. tekur alveg skýrt fram, að tvennt þarf til: að vera skrásettur á staðnum og reka atvinnu sína þar.

Ég vil upplýsa þennan hv. þm., sem þó er í bæjarráði og bæjarstj., að það var félag, sem hét Sindri, og átti togara, sem hét Sindri. Skrifstofan var í Rvík, stjórnin einnig, en togarinn skrásettur í Hafnarfirði. Meginið af atvinnurekstrinum var hér í Rvík. Hafnarfjörður og Rvík lögðu á félagið. Hæstiréttur sló föstu, að með því að stjórnin væri í Reykjavík og meginið af atvinnurekstrinum frá Reykjavíkurhöfn, bæri að greiða útsvarið til Reykjavíkurbæjar. Ég er sammála um, að þetta er réttur dómur, en á ekkert skylt við hitt, sem hv. þm. var að tala um, að togari skytist inn á höfn einhvers staðar. Á þeim stað, sem togari leggur upp afla sinn og tekur salt og kol og annað að langmestu leyti, er réttlátt, að eigendur hans greiði útsvar. Og það er að engu leyti farið í kringum útsvarslögin með því að leggja á þar, sem gert er út, en ekki þar, sem stjórnin á heima. Ég held hv. 6. þm. Reykv. hafi ekki tekið eftir, að það er beint skilyrði fyrir útsvarsskyldu félaga úti á landi, — án tillits til þess, hvar stjórnin er búsett, — að skipið reki þaðan atvinnu. Og það er einmitt gert til þess að forða því, að nokkur ástæða sé til að óttast, að verið sé að fara í kringum útsvarslögin með því að telja sig að nafninu til eiga heimili úti á landi, en hafa allan rekstur úr Rvík. Það er verið að slá því föstu með löggjöf, að félag sé útsvarsskylt þar, sem reksturinn er. Svo mikið er talað um það, að Rvík dragi til sín, að ég verð að telja það ekki ósanngjarnt, að litlir kaupstaðir úti á landi, sem hafa lagt nokkurt fé fram til skipakaupa, svo sem almennt er nú, og skrá þar sín hlutafélög og láta skipin leggja þar upp aflann að langmestu leyti, njóti einnig útsvara slíkra hlutafélaga, en ekki sé verið að fara eftir því, hvort stjórn og framkvæmdarstjóra þóknast að búa í Rvík. Út á annað gengur frv. ekki. Það er síður en svo verið að lögfesta, að menn geti komizt fram hjá hinum raunverulega greiðslustað.