13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

10. mál, útsvör

Sigfús Sigurhjartarson:

Mér þykir gott að heyra, að hv. 2. þm. Eyf. er tiltölulega ánægður með dómsvenjur í þessum málum. Ég er honum sammála, að ég hygg, að hæstiréttur hafi í flestum þessum málum dæmt efnislega á mjög réttlátan hátt. En ef það er svo, að þetta frv. er alls ekki neitt, eins og bæjarráð hallast að og mér heyrðist þessi hv. þm. undirstrika, til hvers er verið að eyða tíma í málið og berjast fyrir því? Nei, sannleikurinn er sá, að það er tilgangurinn að reyna að breyta l. og skapa nýjan grundvöll fyrir dóma. Og það er tilgangurinn að gera það auðveldara en hefur verið, — eins og öll ræða hv. frsm. gekk út á, — að menn geti haft atvinnurekstur annars staðar en þar, sém þeir búa, og komizt undan sköttum á búsetustað og sloppið þannig með mjög lága skatta. Ég er ekki viss um, að þessi tilgangur náist. Eigi að síður kann það að vera, að dómstólar líti svo á, að menn hafi nokkru hægari aðstöðu til slíks en áður hefur verið. Hv. frsm. hélt, að ég hefði ekki athugað skilyrðin, sem fram eru tekin í frv. Jú, ég hef athugað þau. En hann á eftir að gefa ýmsar skýringar áður en ég tek hans „skilyrði“ fullgild. Ég nefndi það áðan, að togari á ísfiski rekur atvinnu frá ákveðnum stað. Hann er lengst af úti á hafi, siglir til Englands, selur fiskinn þar, kaupir kol þar. Hann tekur ís á einhverri höfn þar, sem er frystihús. Á það eitt að nægja, að togari, sem er gerður út frá Rvík eða Hafnarfirði, taki ís t. d. vestur á Bíldudal eða norður á Hjalteyri, svo að hann sé talinn gerður út þaðan? Og það jafnvel þó að skipshöfnin sé frá Rvík eða Hafnarfirði og stjórn félagsins öll á sömu stöðum. Á skipið að greiða skatt þar, sem það kann að taka ís, en ekki í Rvík eða Hafnarfirði?

Við þurfum ekki að eyða löngum tíma í þetta. Tilgangurinn er auðsær, — að koma því svo haganlega fyrir, að Rvík geti verið borg efnaðra útgerðarmanna, framkvæmdastjóra stjórna í hlutafélögum, sem reka atvinnuveg sinn einhvers staðar annars staðar. Og allur leikurinn er til þess gerður að gera þetta auðveldara en ella. Ég vil nú ekki breyta þessari skoðun minni fyrr en ég hef heyrt miklu, miklu skýrari rök frá hv. frsm. Sjálfur veit hann vel, að upphafsmaður að þessu frv. er maður, sem á beinna hagsmuna að gæta í þessu sambandi, býr í Rvík og er í stjórn útgerðarfélags. Allir stjórnendur þess eru í Rvík, en hafa álitið hagkvæmt að skrá útgerð sína annars staðar. Hvað hún hefur mikið samband við þá höfn, veit ég ekki, en það gæti verið í sambandi við ísfiskveiðar það eitt að taka ís. Fjármagn og eignir yfirleitt, stjórn og skipsmenn úr Rvík. En skattarnir eiga að greiðast úti á landi. Ég treysti þannig á dómstólana, að þetta bragð takist ekki. En hví ætti Alþ. að vera að setja lög, sem ef til vill eru markleysa, en ef ekki, þá hættuleg?