13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

10. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Garðar Þorsteinsson) :

Mér dettur ekki í hug að vefengja, að hv. 6. þm. Reykv. sé rökvís maður. En ef athuguð er afstaða hans frá því í bæjarráði og þangað til nú, þá held ég, að sé brotalöm á rökfærslunni. Hann sagði áðan, að tilgangurinn væri auðsær, sá að gera mönnum auðvelt að komast hjá útsvarsgreiðslu þar, sem heimilisfangið er. En sjálfur hefur hann samið bréf í bæjarráði, þar sem hann segir, að frv. breyti engu. Hvernig ætlar hann að samríma þetta? Einkennilegt er, að þessir vitru menn í bæjarráði, fimm að tölu, hafi ekki séð það, sem var auðsætt, þar eð það liggur nú opið fyrir þessum hv. þm. Sannleikurinn er sá, að hv. þm. hefur einhvern veginn af meðfæddri tortryggni fengið í sitt höfuð, að endilega sé verið að reyna að komast fram hjá því að greiða skatta þar, sem heimilisfangið er raunverulega. Hann fór svo að taka dæmi af togara og nefndi Bolungarvík og Hjalteyri, (þar eru raunar ekki íshús) og spurði, hvar skipið ætti heima. Það getur verið opið spursmál. En ég vil benda hv. þm. á, að í gr. segir — og það er það, sem verið er að tala um —: „enda reki félagið atvinnu sína á skrásetningarstað“. Hv. þm. var að tala um ísfiskveiðar. En það eru líka til saltfiskveiðar og tognótaveiðar. Á mörgum þingum hefur verið rifizt um, hvar t. d. bátar, sem skrásettir eru úti á landi, eigi að borga útsvar, ef þeir hafa verið gerðir út frá Sandgerði eða Akranesi svo og svo lengi. Togari getur haft önnur sambönd við hafnir úti á landi en til þess að taka ís. Hann þarf að taka vistir handa sínum skipsmönnum, kol og salt og leggja einnig upp afla sinn. Hinu dettur mér ekki í hug að neita, að komið geta vafatilfelli, og þá liggja þau undir úrskurði dómstóla, hvort raunverulegt heimilisfang útgerðarfélaga sé þar, sem stjórnin situr og hefur skrifstofur og skipið er skrásett. Útsvarslögin eru þannig samin, að mörg vafatilfelli hafa komið í ljós. En þetta frv. er einmitt til þess að girða fyrir þann vafa, þannig að ef skip er gert út og hefur atvinnurekstur frá skrásetningarstað, þá á það að borga þar sín opinberu gjöld, en ekki í Rvík, þó að skrifstofur séu þar, stjórn og framkvæmdastjóri. En hv. þm. virðist vera svo trúr Reykvíkingur, að hann er að reyna að toga til Rvíkur gjöld af skipum, sem ekki eiga heima í Rvík, eru kostuð af félögum úti á landi og með skipshöfn þaðan, skip, sem hafa meiri og minni tengsl við heimahöfn, en svo hittist á, að stjórn og framkvæmdastjóri eiga heima í Rvík. Að lokum þetta: Frv. er til að slá föstu, að félög, sem hafa svo föst tengsl við staði úti á landi, að þau eru skrásett þar og atvinnurekstur þeirra er rekinn þaðan, en ekki annars staðar, þá skuli útsvarsgreiðslur renna þangað, en ekki hingað.