13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

10. mál, útsvör

Sigfús Sigurhjartarson:

Mér finnst hv. 2. þm. Eyf. gera sér upp fullmikla einfeldni, þegar hann skilur ekki, að tilgangurinn í þessu máli er auðsær, jafnvel þó að hann náist ekki. Þeim mönnum, sem fjölluðu um frv., er vel trúandi til þess að semja frv., sem nær ekki tilgangi sínum. Og það er það, sem bæjarráði var ljóst, hvert var stefnt, en sá jafnframt, að það náði ekki marki. Ég veit, að hv. þm. skilur þetta vel.

Hv. þm. fannst lítilfjörlegt að tala um togara, sem gerður er út á ísfiskveiðar og hefði lítil sem engin sambönd við hafnir annað en að taka ís. En þetta hefur verið um mörg ár algengasta fyrirkomulagið um rekstur íslenzkra togara, og þeir eru veigamesti þátturinn í íslenzkri útgerð. Ég fékk raunar alveg nýjar upplýsingar hjá hv. frsm. Ég skildi hann svo, að venjulega mundi það nægja fyrir þessi skip, ef þau tækju ís í smástöðvum úti á landi og vistir: Ættu þau þar þá heimahöfn og greiddu þar skatta. Ódýrara yfirskin er nú ekki hægt að hafa fyrir sköttum en þetta.

Í lok ræðu sinnar fór svo hv. þm. að tala um það, að ég væri að baksa við að toga skattana til Rvíkur. Það er nú svo. Ég tel mér rétt sem þm. fyrir Rvík og sem trúnaðarmaður Rvíkur í ýmsum störfum að halda fram hagsmunum Rvíkur hvar sem er. En ekki meira um það.

Ég tók það mjög skýrt fram í minni ræðu, að ég er ánægður með þá dómvenju, sem skapazt hefur í þessum málum. Þau hafa verið dæmd þannig, að ef útgerðin að öllu leyti fari fram frá einum stað, skuli greiða útsvörin þar, en tilgangur þessa frv. er að gera það auðveldara fyrir Reykjavíkurtogarana að láta líta svo út sem þeir eigi annað heimilisfang. Þetta er tilgangurinn, en ég er ekki sannfærður um, að lagasmiðirnir hafi verið það vel vandanum vaxnir, að tilgangurinn hafi náðst, og þetta er það, sem í bréfi bæjarráðs segir, en það bréf er samið af manni, sem mest hefur um þessi mál fjallað, nefnilega borgarritara.