10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

221. mál, bifreiðaskattur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég tók eftir því í ræðu hv. 3. landsk., að hann sagðist telja það eðlilegt, að ríkisstj. yrði að bera fram frv. til tekjuöflunar til þess að freista þess að fá sæmilegan fjárhagsgrundvöll fyrir yfirstandandi ár, og met ég mikils þá viðurkenningu. Hitt er svo í hans augum aukaatriði. þó að einhverju kunni að hans dómi að vera áfátt um till. eins og þá, sem hér liggur fyrir, og er eðlilegt, að meiningamunur geti orðið þar, menn líta svo misjöfnum augum á þessa hluti.

Hv. þm. hóf ræðu sína á því að láta í ljós þá skoðun sína, að kastað hafi verið höndunum til undirbúnings þessa frv. og gæti tæpast kallað á því vera íslenzkt mál. Vitnaði hann þar í upphaf 1. gr. frv. Ég ætla mér ekki þá dul að bera brigður á þá fræðimennsku, sem hv. þm. kann að vilja láta d. í té í þessum efnum, til þess skortir mig lærdóm til að fella um úrskurð, hvort rétt íslenzkt mál sé á þessari 1. gr. frv. eða ekki. en svo mikið sem ég met það — og geri enda ráð fyrir, að hið sama megi segja um fleiri hv. dm. — að fá tilsögn í málinu, þá verð ég samt sem áður að benda hv. þm. á það, að aðfinnslur hans í þessu efni koma helzt til seint og hann sjálfur heldur of seint á Alþ., því að hér er notað sama orðalag og er í þeim l., þ.e. l. nr. 84 frá 1932 um bifreiðaskatt o.fl., sem breyt. sú, sem frv. fer fram á, er miðuð við. Í l. frá 1932 hefst 1. gr. með nákvæmlega sama orðalaginu og er í þessu frv., sem hv. þm. telur nú vera á svo slæmri íslenzku, að hann lét á sér skilja, að frv. þyrfti að prenta upp til þess að lagfæra á því málið. Ég bendi aðeins á þetta til þess að sýna, að þótt núverandi ríkisstj. eða þeir, sem hafa undirbúið þetta frv., kunni að vera illa að sér í málinu, þá er þetta engin ný bóla og virðist hér vera um að ræða áhrif frá fyrri tímum.

Viðvíkjandi skilgreiningu hv. þm. á c-lið vil ég segja þetta: Mönnum verður oft tíðrætt um lúxusflakk og lúxusbifreiðar, og ég held stundum, að menn líti á það sem lúxusflakk hjá öðrum, sem þeir gjarnan vildu taka þátt í sjálfir, en kalla þá ferðalög. Það er og miklum vafa undirorpið, hvort rétt sé að kalla það óhóf eða „lúxus“ að eiga bifreið, því að einkabifreiðar eru oftast notaðar til nauðsynlegra hluta, einmitt hér í höfuðstaðnum, þar sem vegalengdirnar innan bæjar eru orðnar svo miklar milli vinnustaðar og heimilanna o.s.frv. það eru því ekki annað en sleggjudómar að kalla allar einkabifreiðar lúxusbifreiðar og ferðalög manna í einkabifreiðum sínum lúxusflakk. Hv. þm. talaði svo hins vegar um atvinnubifreiðar, sem menn stunda löglega atvinnu á, og áleit, að greina ætti þær frá einkabifreiðum. Það er líka að mínum dómi nokkrum vafa undirorpið, hvort þetta sé að öllu leyti rétt skoðun. Það hefur tíðkazt mjög nú í seinni tíð, að menn hafa eignazt bifreiðar, oft litlar bifreiðar, og eigendur þeirra alls engir ríkismenn, sem kljúfa þrítugan hamarinn til þess að geta skroppið út úr bænum og verið sinn enginn herra og til þess að þurfa ekki að vera háðir „rútum“ og rándýrum leigubílstjórum, ef þá langar til að njóta sveitaloftsins. Ég held, að í mörgum tilfellum sé langt frá því, að þessir menn séu færari um að inna af hendi hækkaða skatta af bifreiðum en stöðvarbílstjórar, sem eru í stöðugri atvinnu, sem nú um langt skeið er í almæli, að sé gróðavænleg atvinna. Þeirra atvinna er að sjálfsögðu nauðsynleg og leigubifreiðarnar eru nauðsynlegar fyrir fólk, sem þarf að nota þær, en hinu verður ekki neitað, að þær eru ákaflega dýrar, ef þær eru teknar á leigu í lengri ferðalög. Ég hygg því, að telja megi það ofvaxið flestum heimilum að taka á leigu bifreiðar. t.d. til sunnudagaferðalaga, sem menn langar til að takast á hendur til þess að lyfta sér upp á frídögum sínum. Stöðvarbílstjórarnir standa sig áreiðanlega eins vel við það að greiða þennan skatt eins og mikill fjöldi þeirra manna, sem eiga einkabifreiðar og nota þær sér til gagns og skemmtunar.

Um jeppabifreiðarnar er það að segja, að það er rétt hjá hv. þm., að þær voru upphaflega fluttar til landsins aðallega með það fyrir augum að hafa gagn af þeim við landbúnaðarstörf, en þróun þessara hluta varð sú, að ýmsir, þ. á m. margir í bæjunum, hafa séð, að hér var um mjög hentugar bifreiðar að ræða til fólksflutninga og ferðalaga, en það verður mjög erfitt að draga línuna milli þess, hverjir eigi að greiða bifreiðaskatt af jeppum og hverjir ekki. Skrásetningu í þessum efnum, álit ég, að verði mjög lítið að marka, og þess vegna held ég, að brtt. hv. 3. landsk. þm. muni ekki koma að gagni, þegar ætti að fara að starfa eftir slíkri löggjöf. Við höfum oft rekið okkur á það hér, að jeppabifreiðar, sem seldar hafa verið út í sveitirnar, hafa eftir skamma stund verið komnar til Reykjavíkur með alls konar bókstöfum, sem sýna, að þær eiga alls ekki heima hér, heldur skráðar annars staðar, en eru svo hér sífellt í gangi, eftir því sem þeir. sem með þær fara, þurfa á þeim að halda, og þær þannig notaðar til annarra hluta, en landbúnaðarstarfa. Þess vegna býst ég við, að það verði ákaflega erfitt að gera upp á milli þess, hvaða jeppabifreiðar séu skattkræfar og hverjar ekki. Ég skal samt sem áður við það kannast. að í mörgum tilfellum eru þessar jeppabifreiðar notaðar til mikils gagns á sveitaheimilum — að sjálfsögðu í og með til fólksflutninga. Ég hef talað við fjölda marga bændur um þessar jeppabifreiðar, og hefur mér skilizt, að það, sem þeim þykir mestur kosturinn við að eignast þær, sé að verða óháðir því að þurfa að biða eftir rútubifreiðunum — oft á vegum úti — og oft er allt í óvissu um, hvenær þær koma, heldur eiga eigið farartæki, sem þeir geta notað, þegar þeir þurfa að skreppa frá bænum. Það er því mjög ánægjulegt, að þessar jeppabifreiðar, sem fluttar hafa verið til landsins í allstórum stíl, virðast reynast mjög vel og verða til gagns fyrir þá. sem hafa keypt þær. Ég ímynda mér líka, að eftir þeirri aðsókn. sem hefur verið og er enn hjá bændum í að eignast þessa jeppabíla, muni þeir ekki telja eftir sér að greiða af þeim léttivagnaskatt, því að skatturinn af þeim yrði aldrei mjög hár, þótt þær væru flokkaðar með öðrum bifreiðum undir c-lið.

Ég held því, að hv. þm. ætti að athuga vel afstöðu sína, að því er snertir það, hvort rétt sé að skattleggja hærra bifreiðar í einkaeign en stöðvarbifreiðar, því að mér er nær að halda, að stöðvarbifreiðar séu í mörgum tilfellum engu síður notaðar í óþarfakeyrslu en einkabifreiðar. Þótt brtt. hv. þm. yrði samþ., mundi það tæplega bæta úr skák, því að slíkt gæfi tilefni til þess, að menn færu að skrá jeppabifreiðar almennt sem eitthvað annað, en fólksbifreiðar til þess að losna við skattinn, en þær yrðu notaðar eftir sem áður á sama hátt og venjulegar fólksbifreiðar, en slyppu við þann skatt, sem af fólksbifreiðum er tekinn. Af slíku mundi skapast misrétti milli eigenda litilla fólksbifreiða, t.d. litlu Fordbílanna, og eigenda jeppabifreiða, þannig að maður, sem á lítinn fólksbíl, getur ekki skráð hann annað en fólksbíl, en hinum yrði það í sjálfsvald sett að skrá sína jeppabifreið þannig, að hann slyppi við skattinn. Hins vegar geri ég þetta ekki að neinu sérstöku kappsmáli, en vil benda hv. d. á, að það er mikið vafamál, hvort það hefði nokkra þýðingu eða mundi vekja annað en öfund, ef farið verður að breyta þessu.