20.02.1947
Neðri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

92. mál, tannlækningar

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 150, er búið að vera alllengi á döfinni hjá heilbr.- og félmn. Hún hefur rætt þetta mál á allmörgum fundum, og endirinn varð sá, að n. varð ekki einhuga um það að afgreiða frv., eins og það liggur fyrir, vildi meiri hl. afgr. málið með rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 399, en minni hl. vill afgr. málið með nokkrum breyt.

Frv., eins og það liggur fyrir, fer fram á það að rýmka þann rétt, sem tannsmiðir hafa haft í sinni grein hér á landi síðan 1934 og gera þá jafnréttháa og tannlækna í því að smíða og setja tanngarða í fólk. Það er nú svo hjá okkur, að tannlæknalöggjöfin er ekki gömul, það var fyrst árið 1929, sem sérstök löggjöf var gefin út um tannlækna og starfsvið þeirra, og fram að þeim tíma var fátt um tannlækna. Í Reykjavík voru lengi tveir tannlæknar, sem sinntu því starfi sérstaklega, og okkar tannlæknamenning er mjög lítil, miðað við aðrar menningarþjóðir. Fram að þessu hefur það verið aðalatriðið að draga úr skemmdar tennur, en minna hirt um það að halda tönnunum við, svo hægt sé að nota þær sem lengst. En þetta þarf að breytast og verður að breytast, ef við eigum að halda velli á þessu sviði sem menningarþjóð. 1934 var gerð breyt. á l. um tannlækningar frá 1929 í þá átt, að þá skyldi heimila tannsmiðum vegna tannlæknaeklu að setja gervitennur í menn. Þetta var gert sem neyðarráðstöfun vegna þess, hvað tannlæknar voru fáir í landinu, og þessi heimild var bundin því skilyrði, að leyfi væri veitt í hvert sinn af heilbrigðisstjórninni, og í öðru lagi urðu þessir tannsmiðir að víkja, þar sem þeir voru fyrir, ef tannlæknir settist þar að, og vitanlega er það markmiðið, að tannlæknar geti verið sem víðast og að sem flestir geti notið þess að hafa tannlækna. Tannlæknafæðin hefur verið svo mikil, að þessi undanþága var veitt, en það þótti þó ekki fært að láta tannsmiði, sem eingöngu smíða tanngarða í fólk, víkja, þegar tannlæknir settist að á viðkomandi stað. Og í kauptúnum og kaupstöðum utan Reykjavíkur, þar sem ekki er margt fólk, þá er það gefið mál, að tannlæknar setjast ekki þar að, ef þar er fyrir tannsmiður, vegna þess, að á meðan fólk er að venjast því að nota tannlækna á réttan hátt, láta gera við skemmdar tennur, þá er aðalverkefnið að smíða tanngarða í það fólk, sem hefur misst sínar tennur. Þetta frv. er því spor aftur á bak í löggjöfinni, og nágrannaþjóðir okkar eru búnar að losa sig við það, t. d. hafa Svíar og Norðmenn þetta eins og er í okkar lögum, en Danir eiga eftir að breyta sinni löggjöf í þessa átt, en ætla að gera það við fyrstu hentugleika.

Ég skil varla, hvers vegna þetta frv. er komið fram, og þó veit ég raunar ástæðuna. Það er vegna þess, að kona ein, sem sennilega er góð í sinni iðn, hefur starfað sem tannsmiður í Hafnarfirði, en svo kemur tannlæknir og sezt þar að, en ekki er samkomulag á milli þeirra. Og svo kemur hv. þm. Hafnarf. með þetta frv. um að breyta löggjöf, til þess að konan geti haldið áfram þessu starfi, þótt hún vissi, að hún yrði að fara, ef tannlæknir kæmi, það vissi hún fyrir. En að breyta löggjöf til að fá aukin réttindi einnar konu þvert ofan í gildandi lög er vægast sagt hæpið, og þá er Alþ. hætta búin á ýmsum sviðum, ef einstaklingsrétturinn á að ganga þannig fyrir hag almennings. Þá er okkur betra að gæta að okkur og fara varlega.

Ef réttindi tannsmiða eru rýmkuð, er það gefið mál, að tannlæknum fækkar, en fjölgar ekki, en aðalmeinið er einmitt það, að tannlæknarnir eru alltof fáir. Vonir stóðu til, að þeim fjölgaði, er farið var að kenna tannlækningar hér í háskólanum, en ekki rættist úr í þessu efni, eins og menn höfðu gert sér vonir um, og veldur því ef til vill of langur námstími, þar sem tannlæknar verða hér að ljúka stúdentsprófi og þar að auki allt að 7 ára sérnámi. Þetta er of langur námstími, og það er skiljanlegt, er læknastúdentar hafa lokið miðhlutaprófi eftir allt að fimm ára háskólanám, það er skiljanlegt og eðlilegt, að þeir kjósi heldur að halda áfram úr því og taka almennt læknapróf en fara út í tannlæknanám, og því liggur nú hér fyrir þinginu frv. um að stytta námstíma tannlækna, svo að hann verði tvö eða þrjú ár, og er það borið fram í því skyni, að fleiri stúdentar en nú leggi fyrir sig tannlæknanám, og á því er full nauðsyn. Tannlæknar eru hér miklu færri en hjá öðrum menningarþjóðum, bæði í hlutfalli við fólksijölda og í hlutfalli við aðra lækna. En verði rýmkaður réttur hinna iðnlærðu tannsmiða, dregur það úr tannlæknafjölguninni, og með því móti er útilokað, að tannlæknar setjist að í sveitarhéruðum, þar sem tannsmiðir eru fyrir, sem smíða tennur í fólk, því að við það er mest að gera í fyrstu.

Ég vil mjög eindregið mælast til þess, að þessu máli verði nú vísað hér frá með rökst. dagskrá, og þá er það frv. þar með úr sögunni og þar með brtt. minni hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 394, sem gengur í þá átt að útiloka lækna frá tannsmiðum. Við þessa brtt. sína hefur þó minni hlutinn flutt nýja brtt. á þskj. 428, er gengur í þá átt, að læknar megi þó vera með tannsmiðum. Það er nú að vísu góðra gjalda vert, en ég vona, að þessu verði öllu vísað frá. Í undirbúningi er nú frv., sem mun koma fram á næstunni, um kennslu tannsmiða, réttindi þeirra og skyldur og afstöðu þeirra til tannlækna, en þeir telja sig vera of háða tannlæknum. Kennslan mundi þá verða tekin af þeim og færð yfir á tannlæknaskólann.