10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

221. mál, bifreiðaskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er nú upplýst í þessum umr., að ætlazt er til þess, að lögreglustjórar, sem eiga að innheimta þennan skatt, fari ekkert eftir því, hvernig bifreiðarnar eru skráðar, hvort heldur þær eru skráðar sem vörubifreiðar eða fólksbifreiðar, heldur eigi þeir aðeins að lita á bifreiðarnar til þess að ganga úr skugga um, hvort eigi að borga af þeim skatt, og ef um jeppabifreiðar er að ræða, eru þær skoðaðar sem fólksbifreiðar. hvað skattálagningu snertir. þótt þær hafi aldrei verið notaðar til annars, en til landbúnaðarstarfa. Hér eru inni tveir sýslumenn, sem eiga að innheimta þennan skatt, og vildi ég spyrja þá, hvort þeir taki ekkert tillit til þess, hvernig bílarnir eru skráðir. Ég er ekki einu sinni viss um, að þeir hafi séð þá bíla, sem þeir innheimta skatt af. Er mér nær að halda, að þeir fái skýrslu frá bifreiðaeftirlitinu um, að bifreiðin hafi verið skoðuð, og síðan eigi þeir að innheimta skattinn af henni. og þar stendur, að bifreiðin sé kannske skráð sem fólksbifreið og kannske vörubifreið. Langar mig til þess að fá að vita það, hvernig hæstv. fjmrh. ætlast til, að þetta sé framkvæmt, hvað jeppabifreiðarnar snertir.

Það eru margir hálfkassabílar úti um landbyggðina, sem taka 8–12 menn, en hafa vörupall aftan á. Hafa þeir upphaflega verið gerðir sem vörubílar, og eru sumir þeirra notaðir á ákveðnum áætlunarferðum til fólksflutninga, en hafa rúm fyrir farangur aftan á. Svo eru aðrir bílar í sams konar áætlunarferðum, sem aka aðeins með farþega, taka oft 14 farþega. en hafa engan vörupall aftan á. Eru þetta vörubílar eða fólksbifreiðar, hvað skattinnheimtuna snertir? Á bíll, sem tekur allt að 12 farþega og með vörupalli aftan á, að losna við þennan skatt. en annar bíll á sams konar áætlunarleið, sem tekur 14 farþega, en er palllaus, að greiða skattinn? Mig langar til að fá upplýsingar um þetta frá hæstv. fjmrh., hvernig hann hugsar sér að skilgreina þessa bíla.

Ég geri svo ráð fyrir, að sýslumennirnir upplýsi, hvernig þeir fara að sundurliða það, hvaða jeppabifreiðar flytja fólk og hverjar eru notaðar til landbúnaðarstarfa.

Þá kem ég að þriðju bílategundinni, sem ég vildi fá útskýringu á í þessu sambandi. Hvernig á að fara með sendiferðabílana, sem notaðir eru alla virka daga til að flytja í vörur, en um allar helgar í skemmtiferðir? Geta sumir þessara yfirbyggðu bíla, sem notaðir eru mikið hér í bænum til þess að flytja út vörur í verzlanir, tekið yfir 10 manns. Á að skattleggja þá sem vörubíla eða fólksbíla?

Það eru m.ö.o. þrjár bílategundir, sem vafi leikur á, hvort eigi að koma undir c-lið 1. gr. frv. eða ekki og hvort eigi að leggja þennan skatt á eða ekki.

Sá skattur, sem þetta frv. fjallar um, er sá af þessum sköttum hæstv. ríkisstj., sem ég get verið með, því að þessi skattur er réttlátur, en vil aðeins, að frá þessu sé betur gengið og skýrari línur dregnar, og af þeirri ástæðu eru þessar aths. mínar fram bornar.

Hæstv. fjmrh. var að tala um það, að það hefðu orðið straumhvörf í notkun jeppabifreiðanna.

Þau eru sem sé fólgin í því, að þeir menn, sem fyrst fengu þessar bifreiðar og notuðu þær til þess að draga plóga, kerrur og herfi með þeim, þeir hættu að fá þær, og það fóru aðrir menn að fá þær til þess að aka í þeim með sig og sína. Nýbyggingarráð hætti nefnilega að láta úthlutun jeppabifreiðanna fara fram eftir tillögum Búnaðarfélags Íslands og tók sjálft að sér úthlutunina. Það var ekki þjóðin, sem orsakaði straumhvörfin, heldur nýbyggingarráð. Og ég held þau hafi ekki verið hyggileg, og bændurnir blessa þau ekki.