05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (2935)

92. mál, tannlækningar

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég bjóst ekki við að fylgja þessari brtt. minni úr hlaði með mörgum orðum, en þar eð ég sé, að ágreiningur nokkur er um brtt. og málið í heild, þá mun ég reyna að skýra hana nánar.

Þessi brtt. mín er fyrst og fremst fram borin til þess að miðla málum milli tannlækna og tannsmiða og til þess að tryggja tannsmiðum atvinnu undir vissum kringumstæðum.

Ég verð að segja það, að mig undrar mjög á ágreiningi og hinu einkennilega viðhorfi sumra þm. til þessa réttlætismáls. Menn þykjast hér vera að verja réttindi tannsmiðanna, en sannleikurinn er sá, að ég sé ekki, að nokkur stefni að því að skerða réttindi þeirra, heldur er verið alí bæta þau.

Hæstv. samgmrh. gat þess í ræðu sinni, að tannsmiður yrði fyrir óláni, ef tannlæknir settist að, þar sem hann starfar. Ég hygg nú, að þótt tannsmiðinum verði eftir þetta heimilað að starfa áfram í þessu umdæmi, þá verði hann samt sem áður fyrir atvinnutjóni án þess forgangsréttar til vinnu hjá viðkomandi tannlækni, sem ég vil tryggja honum með brtt. minni. Það liggur í augum uppi, og eftir að þessir tveir aðilar, tannsmiður og tannlæknir, eru farnir að vinna í sama héraði að tannsmíðum, þá hlýtur atvinna tannsmiðsins að bíða mikinn skaða. Ég hygg því, að við ættum ekki að hrekja tannsmiðinn út á kaldan klakann í þessu efni, heldur tryggja honum vissa atvinnu hjá tannlækninum. Ég tel, að menn geri nokkuð mikið úr hinu sjálfstæða starfi tannsmiðsins. Það er ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að það kemur fyrir, að tannlæknir verður að leiðrétta villur og mistök, sem verða hjá tannsmiðum, ekki af því að tannsmiðirnir séu ekki nógu góðir tannsmiðir út af fyrir sig, heldur af því, að þeir hafa ekki aðstöðu til þess að undirbúa gómana, eins og tannlæknar geta, áður en gervitennur eru tilbúnar. Ég vil að lokum geta þess, að það, sem fyrir mér vakir með flutningi þessarar brtt., er að leggja fram miðlun í þessu máli. Ég álít, að aðstöðu tannsmiða verði betur borgið með því að samþykkja brtt. mína en með því að fella hana og fara eftir till. meiri hl. heilbr.- og félmn.