05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

92. mál, tannlækningar

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson) :

Ég skal ekki segja mörg orð að þessu sinni, en verð að lýsa yfir því, að mig furðar á málflutningi flm. þessa frv. Þeir eru stöðugt að tala um, að við séum aðskerða hlut tannsmiða. Með hverju höfum við gert það? Ég spyr og óska svars. Sannleikurinn er nú reyndar sá, að till. okkar ganga allar í þá átt að auka rétt tannsmiða. Það er alger misskilningur, að við viljum níðast á tannsmiðunum, því að þeir starfa samkvæmt leyfum eftir sem áður, þar er engu breytt. Það er deilt um, hvort þeir eigi að fá fullan rétt á við tannlækna. Þá koma allir, sem leyfi hafa, og fleiri. Ég veit t. d. um einn tannsmið, nýkominn frá útlöndum með öll skilríki í lagi. Þá koma einnig gleraugnasalat og heimta sinn rétt á borð við augnlækna. Vill hæstv. ráðh. það? Þá koma og nuddkonur, sem heimta að fá, að starfa án handleiðslu læknis. Vill hæstv. ráðh. það? Ég óska svars. Það er ekki nýtt fyrirbæri hér á Alþ., þótt menn tali og hnýti í heilbrigðisstj. Fyrir tveim árum voru samþ. hér l. um læknishéruð þvert ofan í vilja landlæknis. Þessi lög hafa að ósk flm. sjálfra aldrei verið framkvæmd, og býst ég við, að svo geti einnig farið nú um þá menn, sem með mestu offorsi og ranglæti tala fyrir þessu frv. Hv. 5. þm. Reykv. hélt því fram, að meiri hl. vildi banna tannsmiðum að smíða tanngarða og munna, eins og hann orðaði það. Jú, vissulega mega þeir smíða munna. Veitti ekki af að smíða nýjan munn í hv. 5. þm. Reykv. (SH:. Gagnslaust, ef nýtt innræti fylgir ekki með.) Við viljum ekki skerða rétt tannsmiða og höfum gengið svo langt til samkomulags, að furða er, að flm. hafa ekki gengið inn á það, og sést af því, að þeir hafa ekki sérstaklega hagsmuni tannsmiða fyrir augum, heldur einhverra einstaklinga. En þá eru menn áreiðanlega á villigötum, ef á að breyta heilli löggjöf vegna einhvers einstaklings. Það má ekki ganga of langt í að veita undanþágur, því að þá kemur fram misrétti innan stéttarinnar, sem erfitt er að réttlæta, og ef veita á einum undanþágu þá koma vitanlega aðrir úr stéttinni, sem eins stendur á um, og krefjast, sem eðlilegt er sama réttar, því að vont er að þola órétt, en verra þó að þola misrétti innan eigin stéttar. Og það koma fleiri í kjölfarið, gleraugnasalarnir, nuddkonurnar og hómopatarnir. Ég vona því, að deildin samþykki framkomnar miðlunartill., því að hvers vegna eiga tannsmiðir að vera rétthærri en aðrar stéttir? Því hefur verið haldið fram af ýmsum, að það væri ekki sanngjarnt, að tannsmiðir yrðu að sætta sig við þann taxta eða gjaldskrá, er heilbrigðisstj. setti. Það er nú svo. Læknar verða að hlíta reglum, er heilbrigðisstj. setur í þessu efni, og það ætti ekki að vera hart fyrir tannsmiði að hlíta sömu reglum. Það þýðir ekki að koma með öfgar í svona mál, sem ætti að leysa með samkomulagi, enda hefur meiri hl. heilbr.- og félmn. gengið mjög til samkomulags.