16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (2948)

92. mál, tannlækningar

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, rætt það á nokkrum fundum og hefur ekki orðið algerlega sammála um afgreiðslu málsins, þannig að tveir nm., LJóh og ég, viljum samþykkja frv. óbreytt, en tveir, BrB og HV, munu bera fram brtt. við það; einn nm., HermJ, var ekki á fundi, þegar endanlega var gengið frá málinu.

Mál þetta mun vera borið fram aðallega vegna þess, að nýr tannlæknir hefur setzt að í Hafnarfirði og gert kröfu til þess, að tannsmiði þeim, sem þar hefur sett sig niður og starfað þar í nokkur ár, verði víkið burt samkvæmt gildandi lögum. N, þykir ekki rétt að ganga á rétt þeirra manna, sem hafa áður fengið leyfi til að starfa í þessari grein, og er sammála um, að þeir haldi þeim rétti, þótt gerðar séu nú frekari kröfur til náms í þessari iðngrein en þeir geti uppfyllt.

Mismunurinn milli þeirra aðila, sem leggja til að frv. verði samþ. óbreytt, og hinna, sem skila brtt., er sá, að HV og BrB óska eftir því, að gerð sé sú breyt, á frv., að þessi réttur sé aðeins bundinn við þá staði, sem viðkomandi tannsmiður nú starfar á. Á þetta gátum við ekki fallizt og teljum eðlilegt, að réttur tannsmiða sé takmarkalaus til starfa, úr því að þeir hafa einu sinni fengið leyfi til að starfa við tannsmíðar á vissum stöðum. N. hefur kallað til sín formenn tannlæknafélagsins og tannsmiðafélagsins og einn félaga úr stjóra félags tannsmiða og hefur rætt þetta mál ýtarlega við þessa aðila. Á þessum fundi hefur það verið upplýst, að hér er aðeins um að ræða 5 tannsmiði á landinu. Þar af er ein kona á Sauðárkróki, sem hefur starfað við tannsmíðar í 17 til 18 ár, og kemur varla til mála, að hún flytji sig þaðan til annars staðar, þótt frv. verði samþ. óbreytt. Þá er önnur kona í Hafnarfirði, og verði frv. samþ. óbreytt, mun hún ekki flytja sig þaðan og ekki heldur þótt brtt., sem borin er fram af hv. minni hl., verði samþ. Í þriðja lagi kemur hér til greina kona, sem starfar við tannsmíðar á Akranesi, en þar er nú enginn tannlæknir. Í fjórða lagi er hér um gamla konu að ræða, sem komin er á sjötugsaldur og hefur haft leyfi til að ferðast um og hafa tannlækningar með höndum í hinum ýmsu héruðum. Yrði frv. samþ. óbreytt, mundi hún halda rétti til að vinna — ekki eingöngu í hinum ýmsu héruðum, heldur einnig í Reykjavík. Sækir hún fast að fá það leyfi, vegna þess að hún vill gjarnan geta haft aðstöðu til að vinna hér á veturna, og sé ég ekki ástæðu til að hefta það. Um aðra aðila er ekki að ræða, að því er þetta snertir.

Þetta mál virðist liggja þannig fyrir, að þessir aðilar hverfi mjög brátt úr sögunni, þótt frv. verði samþ., eins og það liggur fyrir, og er það eðlileg lausn á málinu með tilvísun til þeirrar reglu, sem tekin hefur verið upp, þegar farið er að gera nýjar kröfur í öðrum atvinnugreinum, að menn haldi þeim rétti sínum, sem þeir hafa áður fengið til atvinnu sinnar.

Hér er efnislega gengið inn á þau rök tannlækna, að eðlilegt sé að skipa þessum málum þann veg í framtíðinni, að menn hafi lokið fullkomnu námi í þessari starfsgrein til þess að njóta þar réttinda, en hins vegar er einnig forðast að ganga á rétt þeirra aðila, sem undanfarin ár hafa unnið störf sín í þágu þjóðfélagsins, og víkja þeim til hliðar. Við leggjum því til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hv. Nd.