16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

92. mál, tannlækningar

Páll Zóphóníasson:

Mér kemur þetta einkennilega fyrir sjónir. Vegna eins kvenmanns er allt Alþ. sett á annan endann, af því að einn kvenmaður þarf að búa við landslög og hætta tannsmíðum, það sem tannlæknir sezt að. En ýmis önnur mál, sem snerta hundruð manna, eru látin eiga sig. Formaður fjvn., leyfir sér að liggja með síðan í haust till. í Sþ., sem snertir hagsmuni mörg hundruð sinnum fleiri manna en hér um ræðir, till. um, hvort eigi að taka 50 eða 80 aura af hverju kg af kjöti og borga hallann sem fyrrverandi ríkisstj. lagði á þetta ár. Þetta snertir hvern fjáreiganda í landinu. En þegar kemur einn kvenmaður, sem þarf að hlýða lögum, sem fyrir eru og allir eiga að gera, og hún vill ekki hlýða, þá hlaupa allir upp til handa og fóta og breyta lögunum. (GJ: það sýnir, hvað menn eru kvenhollir.) Ég skil ekki þennan hugsunarhátt, þó að til séu ákaflega kvenhollir menn, að setja hagsmuni einnar manneskju ofar hagsmunum fjöldans og verja tíma Alþ. í annað eins, að ég ekki nefni önnur mál, sem miklu skipta. Ég álít, að það orki ekki tvímælis, að ef þeir geta átt von á því, t. d. á Sauðárkróki, að þessi stúlka starfi þar áfram, þá séu miklu minni líkur til, að þar setji sig niður tannlæknir, heldur en ef hún þarf að hætta, ef tannlæknir kemur. Það er ekki svo vítt starfsvið þar, að hægt sé að skipta milli manna. Þess vegna voru ákvæði um, að ef tannlæknir kæmi, þá hætti tannsmiður. Það var til að tryggja það, að tannlæknar kæmu sem víðast. Þó að það sé búið að koma til mín og lofa mér öllu fögru og láta vel að mér til þess að bjarga þessu, þá hef ég kalt og rólega tekið afstöðu móti því. Mig undrar, ef þingmenn eru svo misvitrir að verða við tilmælum eins kvenmanns, en svæfa mál, sem skiptir hundruð og þúsundir.