10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

221. mál, bifreiðaskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — Ég vil fyrst spyrja um það, af því að það hefur sýnt sig, að það gæti orðið vafaatriði, eins og frv. nú er, hvaða bifreiðar það eru, sem falla undir skattinn. Eru það bílar, sem fluttir eru inn til þess að byggja yfir og gera þá með þeirri yfirbyggingu að langferðabílum fyrir 18–20 manns? Eru þær samkvæmt frv. óbreyttu skattskyldar eða ekki? Frv. er orðað þannig, að þær bifreiðar, sem aðallega eru gerðar sem fólksbifreiðar, skulu skattskyldar, hinar ekki.

Langflestar 18 manna bifreiðarnar, sem hér eru á langferðaleiðum, eru byggðar hvað vél og undirbyggingu snertir sem vöruflutningabifreiðar. Ég held, að það sé aðalgerð þeirra. Og ef á að miða við gerðina. þá mundi sá bílakostur, sem að vísu hefur verið byggt þannig yfir, fara langt með að sanna, að þetta væru vagnar, sem gerðir væru til vöruflutninga. En það væri undir mati hlutaðeigandi skráningarstjóra, hvort ætti að telja þá bifreið sem slíka eða ekki.

Hv. 1. þm. Eyf. lýsti yfir, að hann mundi vilja vinna að því, að settur væri á lúxusbílaskattur, ef hægt væri að skilgreina hugtakið lúxusbílar frá bílum, sem notaðir eru í þjónustu atvinnulífsins. Ég held, að þetta sé áreiðanlega hægt. Ég geri þar mikinn mun á, að t.d. bifreið, sem notuð er sem aðalatvinnutæki fyrir bifreiðastjóra, hvernig sem gerðin er, er engin lúxusbifreið, heldur atvinnutæki til bjargræðis, og græði hann mikið á sinni bifreið, er hann skattlagður samkv. l. sem gilda þar um, í sambandi við sína atvinnu. En ef maður kaupir sér bíl og fær innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir bíl til sinna persónulegu nota, en ekki sem sitt aðalatvinnutæki, það er vitanlega lúxusbifreið. Þar með er ekki sagt, að bifreiðin sé óþörf, en það er mikill „lúxus“, sem sá maður getur veitt sér, sem kaupir slíkar bifreiðar sér til þæginda, en ekki til þess að afla sér lífsviðurværis með. (BSt: En læknarnir?). Já, t.d. læknarnir, þeir hafa ekki sín embættislaun eftir því, hvort þeir hafa bíl eða ekki. Þeir hafa laun hjá ríkinu og geta þess vegna öllum mönnum fremur verið bifreiðaeigendur. Læknarnir eru betur fjárhagslega settir en borgararnir yfirleitt, og eru þeir ekkert of góðir til þess að borga þennan skatt.

Hv. 1. þm. Reykv. kom einmitt með sönnun fyrir því, að það er réttlátara, að hver maður, sem er svo efnum búinn og hefur slíka aðstöðu, að hann getur keypt sér einkabifreið og hefur fengið slíkan gjaldeyri til umráða, er ekki of góður að greiða slíkan skatt. Hv. 1. þm. Reykv. sagði. að sá maður, sem þyrfti að taka leiguvagn, yrði að borga fyrir hann til þess að geta farið með fjölskyldu sína í sumarferðalag um 10 þús. kr. og það hefðu færri efni á slíkum „lúxus“. En ef hann á sinn Austinbíl, þarf hann ekki að kosta til þessa ferðalags nema nokkrum hundruðum. En er sá maður, sem hefur efni á því að kaupa bíl, of góður til þess að borga af honum skatt? Ég held ekki. Það eru engin rök hjá hv. 1. þm. Reykv. að halda því fram, að þeir, sem ekki hafa efni né tækifæri til þess að kaupa sér bifreið, eigi að sæta verri kjörum en hinir eða sitja heima, en það verða þeir vissulega að gera.

Nú, þegar dæmin eru orðin þannig, að ein og sama fjölskyldan á kannske 4–5 Austinbifreiðar, strákarnir hafa eina til þess að fara á í skólann og til þess að fara í ferðalög um helgar allan ársins hring o.fl. o.fl., — er sú fjölskylda of góð til þess að borga skatt af slíkum bifreiðum? Ég held ekki.

Í raun og veru ætti ekki að leyfa 6–7 manna bifreiðar inn í landið nema fyrir atvinnubílstjóra. Einstaklingar, sem vilja eiga bifreiðar, mega vel láta sér nægja minni bíla, sem minni gjaldeyrir er bundinn í, og jafnvel þó að þeir þyrftu að borga af þeim hærri skatt en atvinnubílstjórar, þá tel ég það ekki ósanngjarnt. Og það er vel hægt að greina þarna á milli, og ég held, að það sé sjálfsagt og réttlátt, en það er ekki gert með þessu frv.

Þá skal ég aðeins víkja að því, sem ég gerði að umræðuefni áðan, en það er 1. gr. frv. Hæstv. fjmrh. hefur nú ekki tíma til að vera hér. Það er nú svo, að ríkið hefur efni á því að eiga 5 ráðherrastóla hér í hv. Ed., en hæstv. ráðh. eiga svo annríkt, að þeir hafa ekki stundir til þess að setjast í þessa stóla, jafnvel þó að verið sé að ræða stórkostleg tekjuöflunarfrv., sem ríkisstj. stendur að. Þetta frv., sem ríkisstj. stendur að, er svo úr garði gert, að það verður varla hægt að telja það á góðri íslenzku. Á upphafsgr. þessa frv. getur málið varla talizt góð íslenzka, en hæstv. fjmrh. sagði það sér til afsökunar, að nákvæmlega sama orðalag væri á gildandi l. um þetta efni. það er þó engin afsökun, því að vitanlega varð ambagan ekki að íslenzku máli, þó að hún væri prentuð þarna upp aftur. Einn fyrrverandi þm. sagði: „Lygi er lygi, þó að hún sé ljósmynduð.“ Og ambaga er ambaga, þó að hún hafi staðið í eldri l. og ekkert réttlætir það, að hún sé látin standa.

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. lagaði málið á frv., svo að það væri á íslenzku máli. en ekki ambögumáli, en það bólar ekki á því. Þess vegna hef ég leyft mér að umorða þessa 1. gr. frv., svo að hún sé á íslenzku máli. Og getur þá hv. d. gert það upp við sig við atkvgr., hvort hún vill hafa gr. á íslenzku máli eða ekki. Inn í gr. svo umorðaða, að hún lítur sæmilega út á íslenzku máli, hef ég fært þá efnisbreytingu, sem ég gerði grein fyrir í minni fyrri ræðu, og þá í þeim búningi, sem ég flutti hana fyrst. Eftir umorðun minni hljóðar 1. gr. frv. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til viðhalds og umbóta akvegum skal greiða sérstakt innflutningsgjald:

a. af benzíni 4 aura innflutningsgjald af hverjum lítra;

b. af hjólbörðum og gúmmislöngum á bifreiðar 3 — þrjár — krónur í innflutningsgjald af hverju kg.

Einnig skal til viðhalds og umbóta akvegum greiða skatt af bifreiðum sem hér segir:

1. af bifreiðum, sem aðallega eru geróar og notaðar til fólksflutninga, 36 — þrjátíu og sex — krónur á ári af hverjum 100 kg af þunga þeirra;

2. af bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín, 90 — níutíu — krónur í þungaskatt árlega af hverjum fullum 100 kg af þunga þeirra;

3. af bifhjólum 60 — sextíu — krónur árlega af hverju hjóli.

Verði ágreiningur um gerð bifreiðar, sker fjmrh. úr.“

Þetta síðasta atriði er í frv. inni á milli skattlagaákvæðanna, en á auðvitað að vera lokaatriðið. Þá á auðvitað að taka sér það, sem er innflutningsgjald, og sér það, sem á að greiða í skatt.

Nú má náttúrlega segja, að það sé aukaatriði, á hvernig máli frv. og lög séu, sem Alþ. lætur frá sér fara, en algert aukaatriði er það ekki. en hæstv. ríkisstj. ætti að gera sér far um, að þau frv., sem hún býr út, séu á íslenzku máli.