02.05.1947
Neðri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

165. mál, fóðurvörur

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Það er nú orðið langt síðan frv. var til umr., en þegar það var, þá var þess þó getið, að þó að landbn. sem slík flytti frv., mundi hún þó taka það til rækilegrar íhugunar fyrir 2. umr. Það hefur n. nú gert og m. a. leitað umsagnar stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, sérstaklega um þá kafla frv., sem fjalla um verzlun með fóðurvörur innanlands. Þá leitaði n. einnig álits búnaðarþings þess, er sat í vetur, um efni frv. almennt. Það hefur því dregizt nokkuð, að brtt. kæmu frá n., en þær eru nú komnar á þskj. 687, og vil ég geta þess, að þótt hér standi, að það sé landbn. sem flytur þær, þá hefur hv. 8. þm. Reykv. sérstöðu um eina gr., og mun hann gera grein fyrir þeirri afstöðu sinni, ef honum þykir ástæða til. En að öðru leyti stendur n. öll að þessum brtt.

Skal ég svo í stuttu máli gera grein fyrir þessum brtt.

1. brtt, er við 1. gr. og er gr. orðuð um samkv. brtt. Í gr. er talað um, að tilraunaráð búfjárræktar skuli hafa eftirlit með verzlun með fóðurvörur. N. þótti þetta ekki vel að orði komizt, því að efni frv. er ekki síður að hafa eftirlit með framleiðslunni, og því hefur n. breytt orðalaginu.

2. brtt. er við 3. gr., og er sú gr. einnig orðuð um. Það stendur í upphafi gr.: Eftir 1. janúar 1947. — Sá tími er nú þegar hlaupinn. Efnisbreyting er engin gerð, en orðalagsbreyting til að gera ákvæðin öllu skilmerkilegri.

3. brtt. er við 4. gr. b. liðurinn er aðeins smáatriði, leiðrétting á prentvillu í 6. lið, en 4, lið taldi n. réttara að orða eins og hér er gert ráð fyrir, að sett sé „búfjártegund“ í staðinn fyrir „búfé“, sem fóðurblandan er ætluð.

4. brtt. er við 5. gr., og er sú gr. orðuð um, en ekki er um verulega efnisbreytingu að ræða, aðeins þótti n., að gr. væri skýrar orðuð svo sem hér er gert ráð fyrir.

5. brtt. er við 9. gr., og höfum við einnig orðað þá gr. um. Í þessari gr. eru ákvæði um það, á hvern hátt sýnishorn til efnarannsókna skuli tekin af fóðurblöndum. N, þótti gr. óljós og orðaði hana um án þess að gera neina verulega efnisbreytingu á henni.

6. brtt. er við 10. gr., 1. málslið, og er hún umorðun á fyrstu línum gr. Má segja það sama um þessa brtt. og þá síðustu, að aðallega er unn orðabreytingu að ræða til að gera ákvæðin skýrari.

7. brtt. er við 11. gr. Þar stendur, að tilraunaráð skuli birta, niðurstöður sínar eigi sjaldnar en tvisvar á ári í búnaðarblaðinu Frey. N. þótti óviðkunnanlegt að tilgreina í lagamáli ákveðið blað, annað en þá Lögbirtingablaðið, og leggur því til, að það sé birt, eftir því sem tilraunaráðið telur heppilegt.

8. brtt. er sú langstærsta brtt. við frv., en hér er lagt til, að 13.–15, gr. í II. kafla frv. falli niður. Þessar gr. fjalla um það, að notendur síldarmjölsins, þ. e. bændur, geti haft trúnaðarmenn á Siglufirði til að taka frá gott mjöl til sölu innanlands. Þetta atriði var einkum rætt við stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Hér er um að ræða gamalt og viðkvæmt deilumál, en notendur hafa þótzt fá skemmt mjöl flokkað sem 1. flokks vöru. Það hefur reynzt erfitt að fá þetta leiðrétt, og því er þessi hugmynd komin fram til bóta á þessu ákvæði. Búnaðarfélag Íslands og búnaðarþing hafa oft rætt þetta mál, og ávallt hafa komið fram kvartanir yfir skemmdu fóðri. En ástæðan til, að n. féll frá að fylgja þessum ákvæðum fast fram, var, að stjórn síldarverksmiðjanna lagðist mjög eindregið á móti, og var það sérstaklega eitt atriði, að stjórn síldarverksmiðjanna taldi það geta haft miður góð áhrif á markaði erlendis, ef það vitnaðist, að íslenzkir notendur gætu valið úr á markaðsstað. Þessu taldi n. sig ekki þora að andmæla, og landbn. og Búnaðarfélag Íslands álitu, að bót mundi fást á þeim göllum, sem eru á síldarmjölinu, án þess að lagaleiðin sé farin. En ég vil taka það skýrt fram, að við erum ekki fallnir frá því, að það beri að gera endurbætur á þessum málum og verja bændur fyrir því að verða fyrir tjóni af skemmdri vöru. En við væntum þess, að samkomulag náist, og föllum því frá 13.–15, gr.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar. Um 9. brtt. er það að segja, að þar er lagt til, að fyrirsögn frv. verði breytt í samræmi við 1. brtt., því að aðalefni frv. er ekki síður eftirlit með framleiðslu en verzlun, og leggjum við því til, að fyrirsögn frv. orðist svo: „Frv. til l. um eftirlit með framleiðslu og verzlun fóðurvara.“

Ég skal svo ekki orðlengja frekar, en ég vil geta þess, að fram er komin og hefur komið til n. till. til þál. um að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að betri flokkun fari fram á síldarmjöli. Væri gott að fá þessa till. samþ. og ríkisstj. hlutaðist til um betri flokkun á þessari vöru.