31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

151. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Hv. þm. sýnist þetta líklega nokkuð fyrirferðarmikið mál, sem muni tefja nokkuð fyrir fundinum. En ég skal lofa því, að það skal ekki að minni tilhlutun tefja fundinn mjög.

Frv. þetta er flutt að beiðni hæstv. atvmrh., og var það tekið til flutnings af sjútvn. En annars hefur málið verið undirbúið af mþn., sem ég á sæti í. — Það er kunnugt, að allmikið umtal hefur orðið um vátryggingar fiskiskipa, og einkum á þá leið, að iðgjöld væru svo há, að útgerðin risi illa undir því. Og út af þessu kom fram þáltill. á næst síðasta þingi, en var að vísu vísað til ríkisstj. En ríkisstj. hafði þá ákveðið að setja mþn. til þess að athuga þessi vátryggingarmál almennt. Eftir að n. tók til starfa, skrifaði ríkisstj. n. og bætti því við hennar hlutverk að taka til rannsóknar og gera brtt. við l. um vátryggingarfélög fyrir vélbáta. Þau 1. eru nr. 32 frá 1942. N. tók við þessu starfi, og auðvitað var hennar fyrsta verkefni að rannsaka, hvort iðgjöld þau, sem tekin hafa verið, mundu vera óeðlilega há. Ég verð að skýra frá því hér, þó að það komi ekki beinlínis þessu máli við, sem hér liggur fyrir, að þessi rannsókn leiddi til þess, að það kom í ljós, að vátryggingarfélögin eru fátæk, þannig að nær engu þeirra hefur tekizt að safna verulegum sjóðum. Meiri hluti þeirra á sama og ekkert til og sum minna en ekki neitt. Þessi rannsókn hefur þess vegna leitt í ljós, að iðgjöldin hafa sízt verið hærri en í hlutfalli við áhættuna, heldur frekar það gagnstæða. Þetta segir þó ekki það, að iðgjöldin geti ekki verið of há, þegar þannig stendur á, sem ég skal nú greina frá. Iðgjöldin eru greidd samkv. mati á skipunum. Og nú hefur þetta mat orðið ákaflega mismunandi hátt, þannig að eldri skipin hafa verið metin langt undir verðlagi því, sem ríkjandi hefur verið á hverjum tíma. Hins vegar hafa þau skip, sem byggð hafa verið á stríðstímanum og eftir stríð, aftur verið metin á kostnaðarverði. Mat þeirra er því hlutfallslega miklu hærra en á eldri skipunum. Þegar það svo bætist við, að áhættan er miklu minni hjá þessum nýju og góðu skipum en þeim eldri sakir elli og vegna þess, að þau eru úr lakara efni, þá hljóta eldri skipin að verða oftar fyrir tjóni en hin nýrri, og af því sést, að á þessu eru gallar, sem verður að leiðrétta. — Nú er það þannig, að ákvæði um iðgjöld hafa ekki verið tekin upp í þessi l., og koma þannig því ekki beinlínis þessu máli við, því að það er reglugerðaratriði, hvaða iðgjöld skuli greidd, og ríkisstj. sker úr því eftir till. félaganna sjálfra. N. sá sér því ekki fært að taka þetta mál öðruvísi en svo, að hún samdi reglur um flokkun skipa, og er hún birt með þessu frv., svo að hv. þm. geta kynnt sér, hvernig n. ætlast til, að séð verði fyrir iðgjaldamálunum. Er þetta að sjá á fskj. 2. — En í þessari n. eru Arnór Guðmundsson, skrifstofustjóri hjá Fiskifélaginu, Guðmundur Guðmundsson tryggingarfræðingur og ég.

Breyt. þær, sem annars er gert ráð fyrir, að gerðar verði á l. frá 11. júní 1942, um vátryggingarfélög fyrir vélbáta, eru flestar þannig til komnar, að það eru leiðréttingar og umbætur, sem gerðar eru eftir reynslu bæði samábyrgðarinnar og vátryggingarfélaganna sjálfra, og um þessi má1 héldu félögin sameiginlegan fund með stjórn samábyrgðarinnar. Þá var sett þar n. til þess að athuga, hvaða breyt. væri sérstaklega óskað eftir á þessum l. Höfuðbreyt., skal ég taka fram strax, hver er, og fyrir henni hef ég einmitt barizt. En þótt undarlegt sé, hefur verið allmikil mótstaða gegn þeirri till. til breyt. á l., þangað til nú ekki alls fyrir löngu, að áhætta félaganna sé miðuð við hundraðshluta, en ekki ákveðna fjárhæð öðruvísi ákveðna. Fyrirkomulagið er þannig nú, að félögin bera ábyrgð á 50% af öllum skipum, þangað til matsverðið er komið upp í 80 þús. kr. á hverju skipi, en úr því fer hlutdeild félagsins ekki vaxandi, þannig að hún verður ekki meiri en 40 þús. kr. á skip. Það er því svo, að eftir því sem skipin eru líklegri til þess að verða fyrir tjóni, er hlutdeild félaganna í þessu efni meiri. Þetta er óhagstætt fyrir vátryggingarfélögin, en hagstætt fyrir endurtrygginguna. Þess vegna er þessi breyt. hér upp tekin. Bátaábyrgðarfélögin mundu þá nú, ef þetta verður samþ., hafa 15% áhættunnar í eigin ábyrgð, en endurtryggingin á þá að hafa 85% af áhættunni. Hins vegar mun eftir frv. þessu hlutdeild félaganna í stóru skipunum og öruggari verða miklum mun meiri en nú er eftir gildandi lögum.

Að öðru leyti skal ég vísa til grg. frv. og þeirra fskj. sem frv. fylgja, því að þar geta hv. þm. lesið um, hverjar breyt. eru, því að þar er hver breyt. tilgreind og grein gerð fyrir þessum breyt.

Hér er lagt til, að nafnið á l. verði breytt, og sé „Lög um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip“, af því að deilt hefur verið um það, hvað orðið vélbátur þýddi, og á þetta við það, að félögunum sé skylt að taka við öllum skipum, sem eru allt að 100 rúmlestir brúttó. — Það má geta um það líka, að hér er breytt orðalagi um skiptingu landsins í áhættusvæði. Ég vil taka það fram, að það er ætlun þeirra, sem sömdu frv., að áhættusvæðunum verði breytt mikið og félögunum fækkað mikið, því að það hefur sýnt sig, að félögin eru svo smá, að þau hafa ekki eins góða rekstrarmöguleika fyrir það. N. hefur sýnzt, að ekki væri þörf fleiri en 8 vátryggingarfélaga á landinu, og það er ætlazt til þess, að ríkisstj. hafi heimild til þess að breyta þessu, og mundi það þá verða gert smám saman.

Eitt atriði, sem ég geri ráð fyrir, að menn veiti athygli, er það, að í breyt. þessum er gert ráð fyrir því, að eigendur skipa geti krafizt yfirmats bæði á því, þegar skip eru metin til vátryggingar, og eins yfirmats á tjóni. Um þetta atriði hefur verið mikið deilt. Félögin hafa látið eigin trúnaðarmenn annast þetta. En það er hart, ef vátryggjandi, en ekki vátryggður ræður því einhliða, hverjir meta skipin til verðs eða tjóns. En þetta sjónarmið samábyrgðarinnar hefur stuðzt við það, að virðingarmenn hafa verið gamaldags í hugsun og hafa ekki viljað viðurkenna breyt., sem gera þurfi á matinu vegna verðhækkunar og lækkunar á gildi peninga.

N. neyddist til þess að undanskilja bótaskyldu óbeint tjón, og stafar það af því, að menn hafa gengið allt of langt í kröfum um bætur fyrir óbeint tjón, ef þeir hafa veitt aðstoð eða eitthvað því líkt: Og frekja manna í þessu sambandi hefur miðað að því að gera félögin að féþúfu, sem olli því, að félögin ætluðu að sligast undir því. Annaðhvort varð því að undanskilja félögin þessari bótaskyldu eða láta greiða iðgjöld fyrir. Nú hefur orðið samkomulag um það að taka aftur þessar óbeinu tryggingar nema mjög takmarkaðar.

Ég vildi nú sérstaklega benda á þessi atriði, ef hv. þm. vildu nú leggja sig niður við það að rannsaka þessi mál eitthvað. En þetta eru þau atriði, sem sérstaklega hefur verið um deilt.

Að öðru leyti vil ég segja, fyrir hönd sjútvn., sem flytur málið fyrir ríkisstj., að n. hefur áskilið sér rétt til að koma fram með brtt. við frv. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma við það. Og enn fremur vil ég taka það fram fyrir hönd n., að við leggjum mikla áherzlu á það, að hæstv. forseti og hv. þm. sýni máli þessu þá velvild að láta það ganga greiðlega gegnum þingið. Það tafðist óeðlilega lengi að koma málinu á framfæri. En ég hygg óhætt að fullyrða, að lögð hafi verið öll alúð við að vanda til þessara breyt., bæði að tilhlutan n. og ríkisstj., og loks hefur það verið borið undir fjölda manna, sem hlut eiga að máli.

Að svo mæltu óska ég, að málið gangi til 2. umr.