07.05.1947
Efri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

151. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þessu máli var vísað til sjútvn. 12. febr. og hefur tafizt þar nokkuð lengi, en ástæðurnar fyrir því eru tvenns konar. N. hafði á þeim tíma mjög annríkt við frv. um eftirlit með skipum. Enn fremur voru haldnir um þetta mál mjög margir fundir og málið rætt við alla aðila, áður en n. kom sér saman um afgreiðslu þess. Hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafði skipað mþn. til að athuga þetta mál og endurskoða, gera athuganir og breyt. við löggjöfina um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip. Var frv. lagt fyrir Nd., eins og það kom frá mþn., og tók það litlum breyt. í d. En þegar það kom í þessa d., þótti sjútvn. svo mörg varhugaverð fyrirmæli í frv., að henni þótti nauðsynlegt að taka þetta mál til ýtarlegrar athugunar. N. hefur haft umr. um þetta við sjútvn. Nd. og við forstjóra Samábyrgðarinnar og komizt að samkomulagi um afgreiðslu málsins. Þó skal ég geta þess, að það eru tvö atriði í frv., sem ekki varð samkomulag um, og mun ég ræða um það, þegar ég kem að þeim gr. Má því búast við, að enn geti orðið átök um þetta mál, áður en lýkur, en hins vegar er mjög nauðsynlegt, að málið geti fengið afgreiðslu á þessu þingi vegna margvíslegra nýrra fyrirmæla og að frv. verði að l.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um þær breyt., sem sjútvn. leggur til, að gerðar verði á frv. Í fyrsta lagi er gerð breyt. við 1. gr. Er þetta engin efnisbreyting, aðeins orðabreyting, að í stað orðanna „skip og bátar“ komi: fljótandi för. — Önnur breyt. er við 3. gr. Í stað orðsins „Atvinnumálaráðherra“ í 1. mgr. komi : Ráðherra. Ástæðan fyrir þessu er sú, að þessi mál kunna að verða sett undir annað ráðuneyti en atvmrn., og er því eðlilegt að gera þessa breyt., sem ekki er nein efnisbreyting. — Alveg sams konar breyt. er lagt til að gera við 5. gr. — Ein af meginbreyt. er við 6. gr., þ. e. að 1.–3. málsgr. orðist eins og getið er um á þskj. 755. Eins og nú er í l. um vátryggingarfélög og eins í frv. á þskj. 338, er ætlazt til þess, að vátryggingarfélögin skipi sjálf sínar stjórnarnefndir, og skal hún kosin á aðalfundi félagsins. Í l., eins og þau voru, var ætlazt til þess, að stjórnin væri kosin til þriggja ára í senn, en mþn. hefur gert þá breyt., að hún skuli kosin til 3 ára, en einn maður skuli ganga úr stjórninni á hverju ári. Þessum stjórnum var svo gefið það vald að skipa virðingar- og skoðunarmenn og úrskurða skaðabótagreiðslur, en þó ekki hærri upphæð en allt að 10 þús. kr., því að þá yrði að leita samþykkis samábyrgðarinnar. Með l. er fyrirskipað, að samábyrgðin skuli endurtryggja hér a. m. k. 85%. Það er því ljóst, að þessi aðili, sem á að bera meginþungann af vátryggingunni, eigi að sjálfsögðu að hafa einhvern rétt til að stjórna félögunum, sem skyldug eru til að vátryggja og endurtryggja hjá stofnuninni. Var því mjög rætt um það í n. að setja þá breyt. inn í frv., að einn maður skuli jafnan vera valinn af samábyrgðinni og skyldi hann um leið vera form. í stjórnarn. Um þetta varð þó ekki samkomulag. Hins vegar varð samkomulag um það, að stjórnin skyldi sett þannig saman, að skipaeigendur velji sjálfir tvo menn, en samábyrgðin einn mann. Með þessu er ætlazt til þess, að miklu nánari samvinna náist milli félaganna annars vegar og samábyrgðarinnar hins vegar, þegar stjórnin er skipuð eins og ég hef hér lýst. Um þetta náðist fullkomið samkomulag, bæði við hv. sjútvn. Nd. og við stjórnendur samábyrgðarinnar, svo að þetta atriði út af fyrir sig ætti ekki að valda neinum erfiðleikum. Á sama hátt eru valdir 3 stjórnarnm. til vara, en stjórnarn. kýs sjálf form. og framkvæmdarstjóra fyrir félagið. Það varð einnig samkomulag að gera þá breyt., að stjórnarnm. skulu kosnir til tveggja ára í senn. Ég skal taka það fram af gefnu tilefni, að það er ekki endilega ætlazt til þess, að samábyrgðin velji í stjórnina einhvern mann, sem er fyrir utan félagið, hún getur valið hvern þann mann, sem henni sýnist, til þess að taka þar sæti, einnig einn af skipaeigendum, en hins vegar færist þá yfir á þann mann sú ábyrgð, sem hvílir á þeim, sem er umboðsmaður ákveðins aðila í fyrirtæki. Þá er ætlazt til þess að kjósa 2 endurskoðendur og 2 til vara til sama tíma. Þóknun til stjórnenda og endurskoðenda ákveður aðalfundur. Hér er einnig gerð sú breyt., að stjórnarn., sem á að úrskurða skaðabótagreiðslur, skuli ekki miða við 10 þús. kr., eins og áður var, heldur skuli þetta takmarkast við það, að ef stjórnarn. er ekki sammála um bótagreiðslurnar, þá skuli leita samþykkis samábyrgðarinnar. Þetta er gert til þess, að ef umboðsmanni samábyrgðarinnar kann að þykja skaðabótagreiðslurnar of háar, þá hafi samábyrgðin, sem á að greiða a. m. k. 85% af þeim, leyfi til þess að athuga þetta nánar, áður en gert er út um skaðabótagreiðslurnar. Telur n. þetta ákvæði vera til bóta.

Við 7. gr. er gerð sú breyt., að stjórn félagsins og samábyrgðin skipi hvor um sig einn skoðunar- og virðingarmann fyrir hvert félag og einn til vara til að framkvæma skoðunar- og virðingargerðir samkvæmt fyrirmælum l. Samkv. frv. er ætlazt til þess, að þessir tveir menn skuli útnefndir af stjórninni, en hér þykir nauðsyn til bera að gera þessa breyt. Liggja til þess þau rök, sem ég skal nú greina. Það hefur verið mjög deilt um það undanfarið, hvort mat á bátum og skipum hafi verið rétt hjá viðkomandi aðilum. Vil ég m. a. leyfa mér að benda á það, að það hefur komið í ljós, að m/s Borgey, sem fórst sem alveg nýtt skip, var vátryggt fyrir mun lægri upphæð en skipið kostaði, þegar það kom til landsins. Þegar svo ofan á það bætist, að eigendur skipsins hafa ekki leyfi til þess samkv. l. að vátrygg ja nema 90% af matsverði og mega hvergi tryggja afganginn, er nauðsynlegt, að á hverjum tíma sé matið að sjálfsögðu sem næst sannvirði. Þetta hefur orðið til þess, að eigendur skipsins hafa þurft að leita til Alþ. um sérstaka aðstoð til þess að geta keypt annað skip vegna þess, hve matið var of lágt, og hins vegar vegna þess, að verðmætið hefur ekki verið vátryggt að fullu. Þá stendur það í núgildandi l. og í frv., að hvenær sem skip er flutt frá einu tryggingarsvæði til annars, skuli fara fram nýtt mat, en þetta ætti ekki að þurfa, þegar svo er komið, að samábyrgðin skipi annan manninn, því að þá ætti að nást samræmi milli matsins um allt land, og til þess er raunverulega ætlazt.

Þá er gerð nokkur breyt. við 11. gr. Hv. Nd. hefur breytt töluvert þessari gr., eins og sést á þskj. 382. Þar hafa verið gerðar breyt. við tvær gr. frv., 11. og 30. gr., en sjútvn. þessarar hv. d. hefur ekki viljað á þær fallast. Leggur hún til, að gerðar séu enn víðtækari breyt. á þessari gr. Fyrsta breyt. við 11. gr., undir a., er ekki annað en afleiðing af því, sem gert hefur verið áður, um það, hversu skoðunarmenn skulu skipaðir. Brtt. undir lið b. gerir ráð fyrir, að 2. málsl. 4. málsgr. frv. orðist svo: Þó er aðilum heimilt að krefjast þess, að skoðun og mat fari fram, hvenær sem þeim þykir ástæða til. — Þetta á við það, að n. þótti ekki ástæða til, þótt skip sé flutt milli skoðunarsvæða, að látið sé fara fram nýtt mat á því, eins og gert er ráð fyrir í frv., heldur sama mat látið gilda, en aðilum sé þó heimilt að krefjast skoðunar, hvenær sem þeim þykir ástæða til, t. d. ef verðbreyting yrði í landinu til hækkunar eða lækkunar. Var n. algerlega sammála um að setja þetta ákvæði inn. — Brtt. undir lið c. er alveg ný till. og mjög mikil efnisbreyting frá því, sem verið hefur. Er þar lagt til, að hafi vátryggingarfélag ekki innheimt tryggingargjöld, eins og tilskilið er í l., og standi ekki í skilum við samábyrgðina með endurtryggingargjöld, skuli ráðuneytinu heimilt að leggja félagið niður og ráðstafa vátrygginguna yfir á annað félagssvæði eða beint til samábyrgðarinnar. Skuli þá sá aðili, sem tekur við tryggingunum, öðlast allar eignir félagsins, kröfur og réttindi, enda taki hann og að sér allar skuldbindingar þess. — Ástæðan fyrir því, að lagt er til, að þessi gr. komi þarna inn, er sú, að reynslan hefur sýnt, að samábyrgðin á útistandandi um 3½ millj. kr. í iðgjöldum. Er það m. a. vegna þess, að hér hefur komið fram frv. á þingi, sem nú er orðið að l., um að leggja samábyrgðinni til 1½ millj. kr., svo að hún geti innt af hendi skyldur sínar, einmitt vegna þess, hve erfiðlega hefur gengið áð fá þetta fé inn. Þegar það er athugað, að svo mikið fé er útistandandi, sem raun ber vitni um, og að það eru eigendur bátanna, sem eru í stjórn félaganna og ráða því miklu um það, hvernig því er beitt að innheimta féð eða að það sé vanrækt, þá er skiljanlegt, að erfitt verður að koma þessu í betra horf, nema með því að breyta l. samkvæmt 11. gr. frv. á þskj. 382 er gert ráð fyrir því, að ef iðgjald er ekki greitt innan eins mánaðar frá gjalddaga, þá verði tjón, sem eftir þann tíma verða, ekki bætt, fyrr en iðgjald hefur verið greitt. Sjútvn. þessarar d. getur þó ekki fallizt á, að þetta ákvæði nái tilgangi sínum, auk þess sem vafasamt er, hvort skip telst veðhæft, ef slíkt ákvæði yrði jafnan gert gildandi. Hún leggur því til, að í stað þessa verði ráðuneytinu heimilað að leggja félag niður og ráðstafa tryggingunum á annað félagssvæði, ef iðgjöld eða endurtryggingargjöld, eru ekki greidd eins og tilskilið er. Telur n., að slík ákvæði tryggi að fullu iðgjaldagreiðslur, en á það verður að leggja megináherzlu, að gjöldin verði innheimt eins og l. standa til, þar sem það er grundvallaratriði fyrir starfsemi tryggingarinnar.

7. brtt. n. er við 12. gr. Samkv. 12. gr. frv. er ætlazt til þess, að þegar skip flyzt á annað vátryggingarsvæði, þá skuli að sjálfsögðu tilkynna það, en þó er það svo, að skipið er raunverulega ekki tryggt, ef þetta hefur verið vanrækt, og auk þess er ætlazt til þess, að nýtt endurmat verði látið fara fram, sem ekki er ætlazt til samkv. 12. gr., eins og ætlazt er til, að hún verði, af sjútvn. þessarar d., sem leggur til, að hún orðist svo : Nú er skip flutt á annað tryggingarsvæði, og skal þá eigandi og skrásetningarstjóri tilkynna það viðkomandi vátryggingarfélögum og samábyrgðinni. Vanræksla á tilkynningu varðar sektum frá 1000–5000 kr. Ábyrgð fyrra félags fellur niður jafnskjótt og skip hefur verið skrásett á öðru félagssvæði. — N. lítur svo á, að með þessu ákvæði sé tryggt, að flutningur verði tilkynntur.

8. brtt. n. er við 13. gr., og fjallar hún um það, að ef skip er statt utan vátryggingarsvæðis félagsins, þegar það verður fyrir tjóni, þurfi það aðeins að snúa sér til skoðunarmanna þess félagssvæðis, sem skipið er statt á, og láta þá framkvæma skoðunina. Samkv. 13. gr. frv. er gert ráð fyrir, að skip, er verður fyrir bótaskyldu tjóni utan vátryggingarsvæðis síns félags, skuli skoðað og tjónið metið af skoðunar- og virðingarmönnum, þar sem skipið á heima. Þykir okkur eðlilegra og heppilegra, að skoðunin fari fram, þar sem viðgerð á tjóni skipsins fer fram og þar sem gert er ráð fyrir, að samábyrgðin hafi valið annan skoðunarmanninn. Enn fremur stendur í brtt. n., að sé skipið statt erlendis, beri að tilkynna samábyrgðinni tjónið símleiðis, sem þá ákveður skoðunarmenn í samráði við stjórn félagsins. — Samkv. 13. gr. frv. segir svo: „Skipaeigendur annast sjálfur um aðgerðir skipa sinna,“ en samkv. brtt. n. er bætt við : „nema félagsstjórnin ákveði annað, enda sé sýnt, að aðgerð verði þá ódýrari.“ — Þá er einnig gerð sú breyt. undir b-lið, að við 5. málsgr. bætist eða samkomulag hafi orðið við félagsstjórnina um frestun á viðgerðinni. — Eins og stendur í l. nú, er ákveðið, að menn eigi ekki kost á eða kröfu til tjónsbótagreiðslna, ef ekki hefur verið gert við tjónið innan eins árs. Hins vegar getur oft verið eðlilegra að fresta viðgerð, og þótti n. því rétt að bæta þessu inn í frv. — c-liður 8. brtt. n. er um það, að síðasti málsl. síðustu málsgr. 13. gr. frv. falli niður, sem hljóðar þannig: „Vátryggjandi getur einhliða fellt slíkan samning úr gildi, ef vátryggður lætur fara fram aðgerð á tjóninu, eftir að slíkur samningur var gerður.“ Fyrri málsl. þessarar málsgr. hljóðar þannig : „Nú óskar vátryggður að fá tjónbætur greiddar, án þess að viðgerð á tjóninu fari fram, og hafi skipið þó ekki verið dæmt óbætandi (condemnerað), og er þá heimilt að semja um bæturnar eftir atvikum, en aldrei mega þær vera eins háar og matsupphæð á tjóninu.“ N. leggur því til, að síðasti málsl. falli niður, þar sem ekki aðeins er búið að gera þennan samning, heldur er líka búið að uppfylla hann. Það er hins vegar engan veginn óeðlilegt að gera samning um tjónsbætur, þótt ekki sé gert við tjónið að fullu. Það getur t. d. staðið þannig á, að það borgi sig ekki að gera við skipið eða að tjónið sé svo víðtækt eða þess eðlis, að viðkomandi aðili óski eftir að gera ýmsar breytingar á skipinu. Getur þá verið erfitt að meta, hvað sé kostnaður við breytingar á skipinu og hvað sé viðgerðarkostnaður á tjóni. Undir þeim kringumstæðum er venjulegt, að tjónið sé metið og greitt og eigendum skipsins sé síðan leyfilegt að ákveða, hvaða breytingar þeir geri á skipinu.

9. brtt. n. er við 17. gr. a-liðurinn er um það, að í stað orðanna „fer fram úr verði skipsins í viðgerðu ástandi“ í 3. tölul. 1. málsgr. komi: að viðbættum björgunarkostnaði fer fram úr vátryggingarupphæð skipsins. — 3. tölul. 17. gr. frv. fjallar um það, að vátryggður hafi rétt til bóta fyrir algeran skipstapa, þegar skipið er löglega dæmt óbætandi, þ. e. hefur orðið fyrir svo miklum skemmdum vegna sjótjóns, að aðgerð á því borgar sig ekki, þar eð kostnaðurinn við aðgerð á skemmdunum fer fram úr verði skipsins í viðgerðu ástandi að frádregnu verði þess óviðgerðs. Þetta, sem n. leggur hér til, er algild regla hjá vátryggingarfélögum almennt. — b-liður 9. brtt. n. við 17. gr. er um það, að 3. málsgr. falli niður, en hún hljóðar þannig: „Félögin skulu þó ávallt hafa rétt til, ef skip verður fyrir ónýtingardómi á þennan hátt, að gera við skipið á sinn kostnað og skila eiganda því í skoðunarfæru standi.“ Þetta ákvæði getur hins vegar ekki staðizt í frv., eftir að búið er að ákveða 3. tölul. 1. málsgr. svo sem n. leggur til, því að þá er það tekið með annarri hendinni, sem áður hefur verið gefið með hinni. Undir c-lið stendur í frv.: „á þá vátryggður því aðeins rétt til bóta fyrir algerðan skipstapa, að björgun skipsins sé ekki lokið í síðasta lagi 10 mánuðum eftir, að áfallið varð, eða björgunartilraunum sé áður hætt.“ Þetta hefur n. ekki viljað fallast á, en samkomulag hefur orðið um það að breyta þessu í 6 mánuði úr 10 mánuðum, því að n. telur ekki rétt, að nokkru félagi leyfist að halda vátryggingarfénu svo lengi til skaða og tjóns fyrir tryggingarnar. Má sjá það þegar eftir 6 mánuði, hvort hægt er að bjarga, og ef svo er ekki, þá á þegar að borga út.

10. brtt. er við 22. gr., en um þá gr. er ekkert samkomulag við sjútvn. Nd., en nú er þar svo fyrir mælt: „Ef skip þiggur hjálp af öðrum vegna bilunar á vél eða af öðrum ástæðum, greiðir vátryggjandi kostnað af því í hlutfalli við vátryggingarupphæðina, að frádregnum 25%“. Það er það fyrsta, að eigandi greiðir ¼ af kostnaðinum við að bjarga skipi til lands, sem yrði greiddur að fullu, ef skipinu yrði ekki bjargað. N. getur ekki fallizt á, að þetta sé sanngjarnt, en einn nm., hv. þm. NÞ., vill halda þessari gr. óbreyttri. En meiri hl. n. lítur svo á, að þar sem hér er verið að bjarga verðmætum, sem eru vátryggð að fullu, beri einnig að greiða björgunarlaunin að fullu. Hitt ákvæðið er það, að öll skip, sem tryggð eru samkvæmt þessum l., séu skyld að hjálpa hvert öðru úr háska. Þetta þykir n. ekki tilhlýðilegt að lögbjóða, hún álítur, að þetta sé þjóðfélagsskylda, sem ekki þurfi að lögbjóða, en ef svo sé, þá í einhverjum öðrum l. en þessum. Þá segir enn fremur: „Greiðslu fyrir slíka hjálp verður ekki krafizt eftir venjulegum björgunarreglum, heldur skal hún ákveðin af stjórn hlutaðeigandi félags, ef bæði skipin eru tryggð hjá sama félagi, ella af stjórn samábyrgðarinnar.“ Hér er brotið í bága við önnur l., l. um siglingar, þar sem ákveðið er, hvernig fara skuli með þessi mál, og n. vill ekki fara inn á þá braut að hvetja til þess með lagaákvæðum, að dregið sé úr því, að mannslífum og skipum sé bjargað, bara fyrir lakari björgunarreglur en almennt gilda. N. telur það meiri ábyrgð en hún treystir sér til að bera. Hefur það og komið í ljós, að menn hafa sneitt fram hjá að bjarga, bátum vegna þessa lagafyrirmælis. Þá segir enn: „Greiða skal aðeins það fjártjón og þann tilkostnað, sem hjálpin hefur bakað þeim, er hana veitti, þó með þeim takmörkunum, er segir í 3. málsgr. 13. gr., og aldrei getur greiðslan orðið hærri en vátryggingarfjárhæð skipsins, sem hjálpina þáði. Ákvæði l. nr. 32 9. jan. 1935 um hlutdeild skipshafnar í björgunarlaunum breytist í samræmi við ákvæði gr. þessarar.“ Hér er einnig gengið á rétt skipverja, sem bjarga. Þeir eiga samkv. öðrum l. meiri rétt. Af öllu þessu leggur meiri hl. n. til að gr. verði orðuð svo: „Kostnað vegna björgunar eða aðgerðar á skipi greiðir vátryggingarfélagið eftir mati eða dómsúrskurði, ef eigi næst samkomulag um fjárupphæðina.“ Ef menn almennt álíta, að hlutur fyrir björgun skips sé of hár, eins og haldið var fram af sjútvn. Nd. og sérstaklega af form. hennar, sem einnig er form. samábyrgðarinnar, þá er sjálfsagt að breyta þeim l., og nú hefur verið samþ. þál. í Sþ. um, að þessi lög verði endurskoðuð. Þar verður svo ákveðið, hver skuli vera hlutur skipverja fyrir björgun, en hér er þetta ekki eðlilegt ákvæði í þessu frv., að greiddur sé stærri hlutur fyrir að bjarga bát, sem ekki er tryggður hjá samábyrgðinni, heldur einhverjum öðrum, en minni, ef hann er tryggður hjá samábyrgðinni. Ef þessi gr. verður látin standa, mun óánægjan og hættan aukast meir en svo, að nokkur sé fær um að bera ábyrgð á því.

Þá leggur n. til, að við 24. gr. verði gerð breyt. Það er ekki ætlazt til, að tjón á trillubátum sé greitt nema að hálfu, nema báturinn farist alveg. N. fannst þetta smámunir einir og leggur til, að sömu reglur gildi um bætur fyrir tjón á trillubátum og öðrum bátum. b-liðurinn er svo aðeins afleiðing af þessari breyt.

Við 29. gr. er gerð nokkur breyt., enda er óhjákvæmilegt að gera á henni breyt., því að ekki er hægt að samþykkja l. með henni, eins og hún er. En í gr. segir: „Skipin verða einnig að fullnægja ákvæðum l. um útbúnað, áhöfn, ljós- og bendingartæki o. fl.“ Þetta er ekki ástæða til að hafa hér, því að þetta er allt í l. um eftirlit með skipum. N. leggur því til að þessi málsl. verði orðaður svo : Skipin verða einnig að fullnægja ákvæðum l. um eftirlit með skipum, eins og þau eru á hverjum tíma. — Svo er lagt til, að 3. málsgr. falli niður. En svo er sagt í 2. málsgr.: „Félögin og samábyrgðin geta hvort um sig neitað skipstjórn þess skipstjóra, sem þrisvar, vegna ógætni eða vanrækslu, hefur orðið fyrir bótaskyldu tjóni á skipum, sem tryggð eru samkv. l. þessum.“ Um þetta er ekki hægt að segja, þó að sett sé í l. En svo segir í 2. málsl. : „Ef eigandi skips hlítir ekki fyrirmælum um þetta, verða ekki bætt þau tjón, er sá skipstjóri verður fyrir.“ Þetta getur ekki staðið í frv., því að ekki er ætlazt til, að það eina, sem ekki er bætt, sé það tjón, sem skipstjóri verður sjálfur fyrir, heldur líka það, sem hann er valdur að. N. leggur því til, að í stað orðanna „verður fyrir“ komi: „verður talinn eiga sök á.“

13. brtt. er við 30. gr. og er aðeins leiðrétting, að í stað „atvinnumálaráðuneytisins“ í 1. og 2. málsgr. komi „ráðuneytisins.“

Þá er 14. brtt., við 31. gr., að á eftir orðunum „hafnaráhættu (revier)“ komi: og bruna. — N. þótti það sjálfsagt og nauðsyn, að skip sé jafnan tryggt fyrir bruna, þótt í höfn sé, en eins og ákvæðið er nú, er það ekki fullkomlega ljóst, að það eigi einnig við bruna.

Þá er 15. brtt. við 32. gr. Þessi brtt. hefur valdið töluverðum umr. og er ekkert samkomulag um hana við Nd. Brtt. er við síðustu málsgr., en hún er svo í frv.: „Gerðardómur uppkveðinn samkvæmt þessum ákvæðum er óraskanlegur.“ Þetta vill n. ekki fallast á, en leggur til, að þessi málsl. verði orðaður svo: Dómi uppkveðnum samkvæmt þessum ákvæðum má þó áfrýja beint til hæstaréttar, enda sé það gert innan 30 daga frá birtingu dómsins. — N. getur ekki fallizt á, að gerðardómur eigi að skera úr um svona mál og að hann sé síðasta dómstig. Hér getur verið deilt um ekki minna en tugi og hundruð þús. kr. M. a. má benda á, að Borgey hefði ekki verið greidd út, ef fylgt hefði verið fast eftir l., því að í gömlu l. er mælt svo fyrir, að skip skuli ekki greiða út, ef það er ekki haffært eða hlaðið eins og vera ber. Það virðist því sjálfsagt, að hvor aðilinn um sig eigi kost á því að láta málið fara til hæstaréttar. Í þessu sambandi má benda á það, að krafan á hendur Höjgaard og Schultz í sambandi við virkjun Fljótaár var endanlega úrskurðuð af gerðardómi, sem í sátu 2 verkfræðingar og 1 dómari, og hér var felldur úrskurður, sem ekki var hægt að áfrýja. Þetta tel ég rangt, og ég vil benda á það, að svona málsmeðferð leyfist ekki í Bretlandi. Slíkir dómar eru þar teknir gildir sem undirdómar og mega fara beint til hæstaréttar, en sín á milli geta þegnarnir ekki gert svona samninga. N. telur því ekki rétt, að aðeins eitt dómstig skuli fjalla um þessi mál.

Þá er 16. brtt. við 36. gr., en þar stendur, að lög, venjur og reglur samábyrgðarinnar gildi um þau atriði, sem eigi eru ákvæði um í l. þessum. N. getur ekki fallizt á að lögbjóða, að venjur vátryggingarfélaga skuli gilda sem lagaákvæði, og leggur því til að gr. orðist svo : Ráðuneytið setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara l. — Séu einhverjar venjur orðnar svo fastar, að þær séu hefð, þá tekur ráðuneytið þær til athugunar, en venjur, sem almenningur veit ekki,. hverjar eru, getur n. ekki fallizt á að lögbjóða.

17. brtt. við ákvæðin til bráðabirgða er, að lagt er til, að síðasti málsliður falli niður. Þessi brtt. er afleiðing af brtt. við 22. gr. Falli sú brtt., verður þessi tekin aftur.

Ég hef þá skýrt þessar mörgu og víðtæku brtt., sem n. hefur gert við frv. Um þær allar er samkomulag við Nd. nema tvær, eins og getið var. Ég vona að hv. d. sjái sér fært að samþykkja þessar brtt., því að mikil nauðsyn er, að frv. verði að l. á þessu þingi, því að það er til mikilla bóta.