07.05.1947
Efri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

151. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil í sambandi við það, sem hv. þm. N-Þ. sagði um þetta mál, benda á nokkur atriði.

Í 229. gr. l. nr. 56 frá 30. nóv. 1914 stendur: „Krefja má björgunarlauna jafnt, þó að skip, sem bjargaði, sé eign sama manns sem hitt, sem bjargað var.“ Þetta sýnir, að svo hefur verið litið á, að slíkt ætti ekki að hafa áhrif á björgunarlaunin, hvort það er einn og sami aðilinn, sem á þessi skip, þ. e. skipið, sem er bjargað og sem bjargar.

Breytingin á þessu kom fyrst 1938, um takmörkun björgunarlauna fyrir skip, sem vátryggð eru hjá samábyrgðinni. Og síðar (1942) var þetta sérstaka ákvæði sett um skyldur þeirra skipa, sem ekki eru ríkisskip, heldur eru gerð út af Skipaútgerð rígsins, m. ö. o., ef skipaútgerð ríkisins tekur á leigu einhvern bát, eins og hún hefur gert undanfarin ár, og leigir hann með skipshöfn fyrir ákveðið verð á dag, þá er líka skertur réttur þeirra manna, sem eru ekki á fullum launum hjá útgerðinni, eins og hv. þm. gat um áðan. En það er ekki aðalatriðið fyrir mér, hvort skertur er réttur einhverra skipshafna til meiri launa en þær hafa, heldur hitt, að það sé ekki gerð veikari aðstaða til björgunar með þessu ákvæði.

Hv. þm. N-M. talaði einmitt um það, að ef hann væri sannfærður um það, að þetta gæti valdið tjóni, þá skyldi hann verða með n. í þessu máli. Ég verð þá að biðja hv. þm. að rannsaka það nánar, fyrst og fremst hvaða orðrómur liggur um þetta mál meðal sjómanna almennt, og í öðru lagi, hvað hefur verið vanrækt viðvíkjandi björgun undanfarið, sem ekki hefði verið, ef þetta ákvæði hefði verið komið inn. Það gæti verið, að hann skipti um skoðun, ef hann rannsakaði þetta ofan í kjölinn. Ég vil benda honum á, að þetta á ekkert skylt við þann óeðlilega hugsunarhátt, sem hv. þm. talar um. Því að það getur verið, að skip virðist ekki í neinni hættu, þegar farið er fram hjá því. Veður getur verið sæmilegt. En þó geta brostið á fyrirvaralítið þau veður, sem geta orsakað tjón á þessu skipi, sem ekki hefði komið fyrir, ef því hefði verið hjálpað á réttum tíma. Ef menn gera sér það að féþúfu að bjarga skipum yfirleitt, þá eiga ákvæðin í l. að breytast til samræmingar og verða þau sömu, hvar sem skipin eru vátryggð.

Það, sem greinir á milli hv. þm. N-Þ. og okkar hinna nm., er það, að hann vill hafa sérákvæði yfir þau skip, sem eru vátryggð h já samábyrgðinni, og það ákvæði sé áfram eins og það er í l., enda þótt gerð sé breyt. á l. hvað snertir önnur skip. Þetta tel ég rangt. Ég tel, að þetta þurfi allt að taka til endurskoðunar og breyta því. Það er ekki rétt að fara að halda inn á þá braut að gefa tilefni til þess, að menn leggi sig ekki eins mikið fram til þess að bjarga þeim skipum, sem eru í þessum vátryggingarfélögum, eins og öðrum skipum. Og þetta er ekki sönnun fyrir því, að þetta lækki iðgjöld, heldur getur verið hætta á því, að skip geti orðið fyrir enn meira tjóni en borga ætti björgunarlaun fyrir eftir þessum fyrirmælum.

Ég legg því til að samþykkja breyt. þessarar gr. eins og allar aðrar brtt. n.