16.05.1947
Neðri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

151. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Út af þessum brtt. á þskj. 846 skal ég geta þess, að hv. Ed. hefur verið ófáanleg til að hafa það ákvæði í l., að tapað verði rétti til bóta, en það er á 2–3 stöðum í frv. Sjútvn. þessarar d. átti einn fund með sjútvn. Ed. og ég marga til að reyna að ná samkomulagi, en n. reyndist ófáanleg til að hafa það ákvæði, að réttur til bóta falli niður, ef trassað er að greiða iðgjöld, en þeir í sjútvn. Ed. töldu, að í stað þessa ákvæðis, sem átti að vera klemma á félögin, mundi hægt að láta endurtrygginguna fá umráð með þessu með því að fá einn stjórnanda. Og það er rökstutt af þeim með því, að félögin bera ekki ábyrgðina eftir þeim nýju reglum nema á 15% af tryggingunum, en endurtryggjandinn, sem er Samábyrgðin, á að bera 85% af áhættunni. Hv. sjútvn. Ed. rökstuddi þá till. með því, að það væri eðlilegt, að sá aðilinn, sem ber 85% af áhættunni, ætti að ráða einum manninum í stjórninni, og ætti því að geta orðið samkomulag um innheimtu til þess að beita lögtaki, sem mun vera dæmalaust, að hafi verið gert af félagi, og þess vegna hefur dregizt allt að tveimur árum að ná inn iðgjöldum, af því að lögtaki hefur ekki verið beitt. Nú taldi hv. sjútvn. Ed. rétt að láta endurtryggjandann fá þannig lagaðan aðgang og áhrif á innheimtu gjaldanna með því að láta hana hafa þar einn mann í stjórn, og vildi hún helzt, að hann væri formaður. En um þetta varð ekki samkomulag. Þetta taldi n. færara en að menn misstu réttinn til tjónbóta. Ég féllst á það, að þeir mættu taka út úr frv. þessi þungu viðurlög, en settu þetta í staðinn, og ég er sannfærður um það, að hv. Ed. gengur aldrei inn á það að breyta þessu aftur. Sjálfum finnst mér ekki óeðlilegt, að sá aðilinn, sem ber 85% af áhættunni, ráði einum af stjórnarnm., og mér þykir líklegt, að þetta mundi leiða til þess, að enn betri samvinna ætti sér stað þarna milli tryggingargjaldenda og tryggingarþega. Ég hygg, að það væri óeðlilegt að breyta þessu aftur samkv. því, sem ætlazt er til í brtt. á þskj. 846 frá hv. þm. V-Húnv., og vildi ég því eindregið leggja til, að þessi ágreiningur milli d. yrði ekki vakinn upp á ný.

Það er rétt, sem hv. þm. Ísaf. tók fram, að hann var fjarstaddur, þegar gengið var frá till. n., en það stendur á till. n., að hún sé frá sjútvn. En það stafar af því, að breyt. er ekkert annað en það, sem n. hafði áður sagt. Allar brtt. á þskj. 838 eru samhljóða því, sem n. hafði öll orðið sammála um áður og þar af leiðandi einnig hv. þm. Ísaf. Og eins og hann sagði við mig, sagði hann ekki þessi orð vegna þess, að hann ætlaði að greiða atkv. á móti brtt., heldur til þess að láta vita um það, sem rétt var, að hann var ekki við, þegar gengið var frá brtt. Ég álit samt, að þarna sé varla um fölsun að ræða, þar sem n. öll hafði á fyrra stigi málsins lagt þetta til.