25.02.1947
Neðri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. skuli vera komið fram frá n. Það hefur dregist lengi, að það fengist gegnum þingið. Það lá fyrir á síðasta þingi og náði þá ekki fram að ganga gegnum þessa d., en nú ættu að vera vonir til þess, að það gerði það, þar sem ríkisstj. hefur lýst því yfir sem einum þætti stefnuskrár sinnar, að hún hafi komið sér saman um, að þetta frv. næði fram að ganga.

Viðvíkjandi þeim till., sem hér liggja fyrir frá landbn., vildi ég í fyrsta lagi gera að umtalsefni till. við 4. gr., en landbn. leggur til, að sú gr. verði felld niður ákvörðun um, að Búnaðarfélag Íslands og nýbyggingarráð skuli í sameiningu gera rannsókn á núverandi ástandi og þróun íslensks landbúnaðar og áætlun um þróun hans næstu 10 ár. Frsm. n. sagði, að þær hugmyndir hefðu verið uppi í n. — þó ekki allir nm. því samþykkir —, að þetta mundi eiga bezt heima í frv. um fjárhagsráð. Ég held, að þetta sé ekki heppilegt. Ég held, að það sé bezt að setja þau ákvæði inn í l. um ræktunarsjóð, að áætlun skuli gerð, og að það skuli falið Búnaðarfélaginu að undirbúa slíka áætlun. Það hefur verið varið þó nokkru fé til íslenzks landbúnaðar, en það, sem mest hefur vantað í sambandi við það, hvernig því fé hefur verið varið, er það, að stefnt væri að ákveðnu markmiði með veitingu þess fjár. Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt, að slík áætlun sé gerð og að í l. um ræktunarsjóð sé þetta fast bundið, að útlán sé gert samkv. slíkri áætlun. Með tilliti til þeirrar reynslu, sem við höfum af því haft, að þetta hefur verið áætlunarlaust fram að þessu, ættum við einmitt að láta okkur það að kenningu verða. Ég held því, að það sé misráðið hjá landbn. og rangt að vilja fella niður þessa gr., og vildi því, að landbn. athugaði það betur og frestaði að taka ákvörðun um það nú. Mun vera á ferðinni frá hæstv. ríkisstj. frv. um fjárhagsráð, og skyldi ekki vera í því frv. ákvæði um þetta, held ég að gerði ekki til, þó að því yrði frestað til 3. umr. að fella niður þessa gr. og hún látin standa eins og nú er.

Þá er það í öðru lagi brtt. við 9. gr. Þar er tekið fram, að seðladeild landsbankans sé skylt að lána ræktunarsjóði ákveðna upphæð í íslenzkum krónum. Mér heyrðist á hæstv. landbrh., að ekki mundi vera samkomulag innan stjórnarinnar um þessa aðferð. Þetta er þó alveg hliðstætt því, sem gert hefur verið í sambandi við sjávarútveginn, og ég hafði haldið, að þetta væri í fullu samræmi við það, og finnst mér, að það væri til þess að gera hlut landbúnaðarins lakari að taka þá skyldu í burtu. Mér kom á óvart að fá um það yfirlýsingu frá hæstv. landbrh., að ekki væri samkomulag um þetta atriði hjá ríkisstj., því að ef ég man rétt, var þetta frv. eitt af þeim fáu frv., sem talið var að ákveðið væri, að gengju í gegn, og því undrar mig, að nú skuli koma fram óskir frá ríkisstj. um það að mega ræða við landbn. um, að hvaða niðurstöðu sé nú hægt að komast, hvernig megi afgreiða þetta frv., og lýst yfir, að það sé ekki einu sinni samkomulag um það innan ríkisstj., hvernig frv. skuli afgr. En hæstv. ríkisstj. um það. Ég held, að ekki megi draga úr þeirri skyldu, sem lögð er á landsbankann að lána þarna. Eftir þeirri reynslu, sem maður hefur af því að útvega fé nú til framkvæmda, þá gengur það ekki svo vel, að það mætti draga úr þeim möguleikum, sem hafa þó reynzt beztir fram að þessu, og veit ég ekki, hvernig afla á þess fjár, sem afla þarf samkv. þessari 9. gr., ef kippa ætti burtu þessari skyldu landsbankans. En það mun koma fram á sínum tíma.

En í sambandi við spursmálið um lánsféð og upphæðina, sem áætluð er, er rétt að vekja athygli á því, að kröfur til þessa sjóðs verða áreiðanlega mjög miklar hjá bændum. Það hefur ekki staðið á bændum að kaupa eins mikið af tækjum til landsins og hægt hefur verið að fá flutt inn í landið. Og við munum brátt reka okkur á það, að það kemur ekki til með að vanta tæki, en það er annar hlutur, sem kemur til með að vanta, og það er miklu meiri ræktun á jörðunum. Bændur kemur til með að vanta landflæmi; sem þeir geta notað þessi tæki á, þar sem afköst vélanna á sléttlendi eru svo gífurleg. Þetta hlýtur að breyta öllum lífskjörum bóndans, og því verður það svo, að jafnóðum og bændur fá þessi tæki í hendur, þá koma kröfur um ræktun á löndunum til með að margfaldast, sem verða þó sennilega mestar fyrstu árin, meðan verið er að gera löndin véltæk, en fara svo minnkandi eftir því, sem þörfin verður minni, og verður þetta þá að sínu leyti svipað og reynslan hefur orðið með sjávarútveginn. Það er þess vegna áreiðanlegt, að kröfurnar um stórkostleg lán til stórfelldrar jarðræktar verða mjög miklar á næstu árum, þó að draga kunni úr þeim seinna, þegar bændur fá tækifæri til að rækta mikið, en því er um að gera að kippa ekki úr þessari þróun landbúnaðarins nú, heldur gera ráðstafanir til þess að geta fullnægt þessum kröfum.

Ég er sammála hv. frsm. n. um það, að nauðsynlegt muni vera að auka þá upphæð, sem seðladeildin eigi að lána ræktunarsjóði. Eins og hv. frsm. minntist á, var strax tekið fram, að þetta væri mjög skorið við neglur, og þó hafa hlutirnir breytzt síðan við í n. vorum að vinna að því að undirbúa það frv. Þeir hafa breytzt þannig síðan, að lánsmarkaðurinn, sem 1945 var góður, er nú mjög slæmur, þannig að þörf er á lánum frá því opinbera. Ég held því, að það sé mjög nauðsynlegt, að n. taki til athugunar milli 2. og 3. umr., hvort ekki mætti auka þessa upphæð og jafnvel framlag ríkisins líka í þessu skyni.

Það er líka annar hlutur, sem hefur breytzt síðan þessi áætlun var gerð. Þá var ekki vitað með vissu, þótt allir bjartsýnir menn byggjust við því, að bændur keyptu mikið af vélum. En nú er það staðreynd, að kaupmáttur og kröfur bænda að fá þessar vélar eru svo miklar, að ekki er hægt að líkja því við neitt annað en algera vélabyltingu Íslendinga. Það hefur aldrei staðið á bændum að kaupa þessar vélar, heldur ekki á leyfum eða yfirleitt framtakssemi til að útvega þær. Það eitt hefur vantað að fá nógu mikið af þeim frá verksmiðjunum, og því er gefið, að þegar við höfum slíka staðreynd fyrir augum okkar, verðum við, sem höfum lánsfjármarkaðinn undir stjórn þess opinbera, að sjá til þess hér á Alþ., að þetta strandi ekki á lánsfé. Ég mun þess vegna, fyrst von er um það, að frv. verði athugað betur, ekki koma fram með neinar brtt. við þessa umr., en þætti vænt um, ef ná mætti samkomulagi við n. um þetta og 1. brtt. yrði tekin aftur til 3. umr., þannig að betri athugun fengist á því, hvort rétt sé að fella þessa gr. niður.