25.02.1947
Neðri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (3043)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Út af því, sem hæstv. landbrh. sagði, skal ég taka fram, að n. er mjög kært að ræða við hann um þessa gr. frv. fyrir 3. umr. Hæstv. ráðh. óskar ekki eftir, að þessi gr. verði tekin til baka, enda virðist mér það ástæðulaust, því að þótt hún sé samþ., má gera breyt. á því síðar. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan — og hygg, að ég mæli þar fyrir hönd n. —, að ekki komi til mála, að slaka megi á þeim fjárráðum, sem ræktunarsjóður á að hafa. Það verður að tryggja honum fé, ekki minna en gert er ráð fyrir í 9. gr. frv. og með ekki lakari kjörum en þar er gert ráð fyrir. Ég vék að því áður, að það hefur verið rætt um það í n. að bera fram till. um frekari fjárframlög til ræktunarsjóðs, og er ég ekki í vafa um, að þess er þörf, og er það rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. drap á viðvíkjandi þessu atriði, að það er mikil þörf á því að efla ræktunarsjóð sem allra mest. Þetta vildi ég aðeins taka, fram út af því, sem ráðh. sagði um 9. gr. frv.

Ég vil segja örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. Reykv.

Hann var því mótfallinn, að 4. gr. yrði felld niður. Þetta atriði var rætt mikið í landbn., og það, sem gerði það að verkum, að n. sameinaðist um þetta, þó að sjónarmið nm. væru ólík að öðru leyti, var það, að við vorum sannfærðir um, að þessi gr. ætti ekki sérstaklega heima í frv. um ræktunarsjóð, heldur hefði þessi gr. eins mátt eiga heima í l., sem nú er búið að samþykkja, um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, því að vitanlega er staðsetning nýrra heimila ákveðin þar fyrst og fremst í sambandi við nýbýli, og hefði því af þeim ástæðum verið betra, að ákvæði eins og þessi ættu þar heima. Nú er og gert ráð fyrir, að hið væntanlega fjárhagsráð — ég held það sé rétt nafn — fái fjárfestingarvald í hendur, og virðist þá bezt, að um alla stærri hluti viðvíkjandi landbúnaðinum gildi sama og um aðra atvinnuvegi, að þessi l. séu í höndum þess ráðs til staðsetningar.

Svo er hins vegar um lánveitingar til einstakra býla, þar sem menn vilja byggja upp á jörð sinni fjós, hlöðu o. s. frv. Þar er gert ráð fyrir í frv., að leitað verði álits, þegar á þarf að halda, Búnaðarfélags Íslands varðandi þau mál, sem undir það heyra, og nýbýlastjórnar ríkisins. Er það gert með því innskoti, sem við höfum sett í 5. gr. frv. Á þann hátt hygg ég, að séð sé fyrir því varðandi hin einstöku býli, eins og hægt er, að þar komi til faglegrar athugunar, hvort ríkið eigi að veita lán til þeirra eða ekki. Það liggur í hlutarins eðli, að þetta vald um staðsetningu eða skipulagningu, í hvaða staði veita eigi fé, verður að ná til fleiri en þeirra hluta, sem lán er veitt til úr ræktunarsjóði. Það verður einnig að ná til íbúðarbygginga og nýbýla, og það er ekki ræktunarsjóðs að taka ákvarðanir um slíkt. Af þessum ástæðum varð n. sammála um að leggja þetta til. Ég sé ekki ástæðu til þess, að brtt. n. við 4. gr. verði tekin aftur, því að mér virðast jafnmiklir möguleikar á því við 3. umr. að koma einhverju ákvæði þarna inn, ef hv. d. vildi, að það stæði í 4. gr., en n. telur — eins og 4. gr. er í frv. —, að ekki sé rétt að láta hana standa þar. Af þeim ástæðum hygg ég ástæðulaust annað en að gengið sé til atkv. um hana eins og aðrar brtt. landbn. við frv.

Ég er hv. 2. þm. Reykv. sammála um flest það, sem hann sagði um lánsþörf landbúnaðarins. Vil ég undirstrika það, sem ég hef áður tekið fram, að lánsþörfin á því sviði er geysilega mikil og verður á næstu árum og ekki sízt til þeirra verkefna, sem ræktunarsjóði er ætlað að leysa, því að það er nú þannig, að þótt allmikill skortur sé á íbúðarhúsum í sveitum, þá hafa íbúðarhúsabyggingar verið látnar ganga á undan byggingu peningshúsa, og er því nú brýnust þörfin þar. Á voru landi fer nú fram bylting á sviði landbúnaðarins á fleiri en einn hátt. Hún er ekki aðeins véla- og verkfærabylting, heldur á hún sér stað einnig á þann hátt, að sú atvinnugrein landbúnaðarins, sauðfjárræktin, sem í sumum héruðum landsins hefur verið höfuðatvinnugreinin, er nú að þoka fyrir annarri nýrri, þ. e. nautgriparæktinni. Þessi breyting hefur það í för með sér, að byggja verður mikið af peningshúsum, því að fjárhúsin verða ekki notuð fyrir búpeninginn nema rétt til bráðabirgða, meðan verið er að byggja upp. Þetta eitt eykur mjög lánsþörfina, og fleira mætti nefna, en ég mun ekki fara frekar inn á þetta mál hér. Ég býst við, að okkur hv. 2. þm. Reykv. greini ekki á um það, að rétt sé, að skipulag sé haft um þessi efni og að í l. séu ákvæði svipuð því, sem nd eru í 4. gr., þótt þau eigi ekki þarna heima, heldur rétt að staðsetja þau annars staðar.