09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því, að það vantar þskj., sem ekki er búið að útbýta, með brtt., sem ég þarf að mæla fyrir, en ef til vill verður búið að útbýta þeim áður en ég kem að þeim, því að ég þarf að mæla fyrir tveim öðrum brtt.

Það er nú orðið langt síðan þetta frv. var hér til umr. og var afgr. við 2. umr. hér í d., og ástæðan er sú, að hæstv. stjórn, eða hæstv. atvmrh. sérstaklega, hafði óskað eftir, að málið yrði ekki afgr. fyrr en stjórnin væri búin að athuga eina gr. í frv., svo að samkomulag næðist um mismunandi sjónarmið.

Á þskj. 776 eru tvær brtt. frá landbn., sem ég skal lýsa með örfáum orðum. Fyrri brtt. er við 4. gr. frv. og er um það, að á eftir „landbúnaðarverkfæra“ í 1. málsgr. komi: íbúðarhúsa og verkstæða fyrir iðnaðarmenn í sveitum, þ. e. að þetta bætist við það, sem þar er talið upp. Þau verkefni, sem ræktunarsjóður á að veita lán til, eru allmörg, og leggur n. sem sagt til, að bætt sé við þau íbúðarhúsum og verkstæðum fyrir iðnaðarmenn í sveitum. Eins og verkaskiptingin er hugsuð milli ræktunarsjóðs og nýbyggingarsjóðs, er svo til ætlazt, að ræktunarsjóður nái alls ekki til íbúðarhúsa, heldur til útihúsa, ræktunarframkvæmda og annarra slíkra hluta. En nú er það svo, að samkv. l. um nýbyggingar er ekki ætlazt til, að lánað sé nema til íbúðarhúsa á jörðum, en þá verða út undan ýmsir aðilar, sem nú eru að reyna að reisa sér býli í sveitum. Það eru ýmsir aðilar, sem svo er háttað um, að þeir komast ekki undir lögbýli. Þeir vinna ýmislegt í þágu sveitarinnar, t. d. stunda trésmíðar, gera við ýmsa hluti, stunda bílakstur o. s. frv. Oft er það svo, að íbúðarhús og verkstæði er byggt undir sama þaki., og er það oft heppilegt. En þessir menn hafa ekki möguleika til að fá lán. Þeir geta ekki fengið það úr byggingarsjóði, og undir l. um ræktunarsjóð er ekki gert ráð fyrir, að komi nokkur íbúðarhús, en það er nauðsynlegt, að þessir menn geti fengið lán eins og til íbúðarhúsabygginga, og var n. á einu máli um, að nauðsynlegt væri að hjálpa þessum mönnum, og væntir n. þess, að d. geti fallizt á það, að þetta ákvæði verði sett hér inn í, þannig að þessir menn í sveitum verði ekki útilokaðir frá því að geta fengið lán. Ég vænti þess, að þm. geti fallizt á, að undir þetta ákvæði geti líka komið bílstjórar, sem reisa hús og hafa oft smáviðgerðarverkstæði fyrir sig, og vil ég taka fram, að við lítum svo á, að slíkir menn geti líka komið undir þetta ákvæði, þó að ekki sé hægt að segja, að þeir komi beinlínis undir það. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt., en vænti þess, að hv. d. geti fallizt á hana.

Þá hefur verið útbýtt hér þskj., sem ég minntist áðan á. Ég vil fyrst minnast á brtt. á þskj. 790, sem sömuleiðis er flutt af n. allri. Sú brtt. er við 7. gr., þar sem talað er um, gegn hvaða tryggingum og með hvaða skilyrðum lán verði veitt úr ræktunarsjóði. Landbn. leggur til, að aftan við gr. komi ný málsgr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þrátt fyrir ákvæði 45. gr. laga nr. 116 30. des. 1943 má lána út á jarðir í opinberri eign á sama hátt og aðrar jarðir, enda komi samþykki landbrh. til.“ Þessi l., sem þarna er vísað til, eru l. um erfðaábúð og óðalsrétt, og er í 45. gr. þeirra l. takmarkað mjög, hversu mikið má lána út á jarðir, þannig að lán út á þær má aldrei vera hærra en 50% af fasteignamatsverði landsins, að við bættu allt að 50% af gildandi fasteignamatsverði húsa þeirra, er á jörðinni eru. Þetta er svo takmarkað, að segja má, að þessar jarðir séu útilokaðar frá lántöku, svo að að nokkru gagni komi. Það var sérstakt ákvæði í þessa átt sett inn í l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, þegar þau voru til umr. í fyrra, og féllst Alþ. á, að það væri rétt. Nákvæmlega sama ástæðan er til þess, að þetta sé haft þannig, að jarðir í opinberri eign séu ekki útilokaðar frá að fá lán. Þetta ákvæði er eingöngu sett í því skyni.

Að lokum er 3. brtt. frá landbn., sem er á þskj. 776 og er við 8. gr. frv., þá gr. er fjallar um, að seðladeild Landsbanka Íslands sé skylt að lána ræktunarsjóði með vissum skilyrðum, sem sett eru fram í gr. Hæstv. stjórn óskaði eftir, að breyt. yrði gerð á þessari gr., þannig að upphaf gr. breytist á þann hátt, sem frá er skýrt á þskj. 776. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þessa brtt. Hún breytir engu um það, að bankanum á að vera tryggt, að hann fái þetta fé til umráða. Breytingin er eingöngu sú, að það sé annaðhvort bankinn eða ríkissjóður, sem leggi fram þetta fé, og mælir hæstv. landbrh. með því, að þetta verði samþykkt.

Ég hef þá mælt með þeim brtt., sem landbn. flytur við frv. að þessu sinni. Ég sé, að það er hér brtt. á þskj.— 784 frá hv. þm. A-Húnv., en ég vil ekki ræða hana, fyrr en flm. hefur gert grein fyrir henni, og læt þá máli mínu lokið.