09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég vildi segja aðeins örfá orð og geta þess um till. hv. þm. A-Húnv., að ég tek undir það með hæstv. landbrh., að efnislega er ég till. samþykkur, og veitir sannarlega ekki af því, að fjárráð sjóðsins séu aukin, en samkomulag hefur ekki náðst um hærri fjárveitingu. Það var reynt í fyrra, hvernig það gengi að fá hækkun, eins og hv. þm. reynir að koma fram með, og mun hann ekki hafa verið stuðningsmaður hækkunarinnar þá, heldur hygg ég, að óhætt sé að segja, að hv. þm. hafi verið afskiptalaus eða beitt sér gegn henni á því stigi málsins. Hvort það stafaði af því, að afstaða hans til stjórnarinnar þá var öðruvísi en nú, það veit hv. þm. bezt sjálfur. En ég vil ekki stofna málinu í tvísýnu eða rjúfa það samkomulag, sem gert hefur verið. Og ég vil sérstaklega taka það fram vegna ummæla um búnaðarþingið, að þingið telur, að frv. sé til bóta og meinar þá frv. eins og það nú liggur fyrir, en svo vill búnaðarþing, að fjárráðin verði aukin, og er ég að sjálfsögðu meðmæltur því. Það er því fyrst og fremst í samræmi við vilja búnaðarþings, að frv. sé samþ. eins og það nú er. Og ber því fremur að fella till. hv. þm. A-Húnv. en að stofna málinu í hættu, og er það í fullu samræmi við stefnu meiri hl. búnaðarþings, þar eð það vildi, að frv. gengi fram í þessari mynd, heldur en það ef til vill dagaði uppi.

Ég hygg, að ræktunarsjóður geti nokkuð aukið fé sitt án vaxtahækkunar, þar sem honum er heimilað að gefa út handhafavaxtabréf, og vona ég, að sjóðurinn verði svo öflugur, að hann geti aukið fjárráð sín án þess að hækka vexti. Nú er þörfin orðin mjög brýn, því að nú þegar leita bændur hundruðum saman eftir lánum úr sjóðnum á þessu ári. Sérstaklega þurfa þeir lán til útihúsabygginga, t. d. til fjósbygginga, sem eru mjög aðkallandi á mæðiveikisvæðinu, og þolir það enga bið, að þessum mönnum sé hjálpað, og er því mikil ógæfa fyrir landbúnaðinn, ef þetta frv. verður ekki afgr. á þessu þingi. Það er ekki vafi á því, að það er í samræmi við vilja búnaðarþings að tryggja framgang málsins, eins og það nú liggur fyrir, og þess vegna mun ég fylgja frv. óbreyttu fyrst um sinn. Þetta vildi ég taka fram vegna ummæla hv. þm. A-Húnv. En ef trygging fæst um samkomulag til hækkunar, þá skal ég verða fyrsti maður til að vinna því fylgi.