09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það væri rétt að athuga það í sambandi við 3. umr. þessa máls, hvort ætti ekki að bæta 4. gr. inn í frv., sem á sínum tíma var felld úr því. Ég vildi skjóta þessu hér fram til hv. frsm., þar sem forsendan er nú ekki fyrir hendi, því að þá var gengið út frá, að 4. gr. yrði tekin upp í frv. um fjárhagsráð.

Viðvíkjandi 8. gr. vildi ég segja, að eftir reynslu síðari ára um þörf bænda á landbúnaðartækjum er ég hræddur um, að þær 10 milljónir, sem seðladeildin lánar, hrökkvi skammt, og vonir hv. 1. þm. Skagf. um handhafabréf verða sennilega ekki að miklu liði. Þess vegna er nauðsynlegt að athuga, hvort ekki bæri að hækka framlagið í 15–20 millj. kr. Ef landbúnaðurinn á að komast í rétt horf og afkasta miklu, þá þarf hann að fá vélar sínar fljótt og þarf því að auka lánin. Brtt. er frá hv. þm. A-Húnv. um að hækka framlag í 3. gr. úr millj. í 1 millj., og mun ekki vera vanþörf á því, en það á ekki síður við um 8. gr. Þá hefur verið rætt um það, hvort hægt væri að koma hækkun á framlagi í gegnum þingið, og hef ég heyrt að Framsfl. hafi boðið stuðning sinn, ef það væri tryggt, að það næði fram að ganga. Ég býst við, að við sósíalistar mundum fylgja því að hækka þetta framlag, og ef nokkrir menn úr öðrum flokkum eru reiðubúnir til þessa, þá yrði hækkunin tryggð. Ef alvara er um að tryggja fé til landbúnaðarins, þá vildi ég, að það kæmi fram við þessa umr., því að oft hefur þurft harðfylgi til að knýja fram lán til atvinnuveganna. Það kostaði mikla baráttu að fá það, sem fengizt hefur til sjávarútvegsins, því að það sýndist sumum alltaf of mikið, og eins er það með landbúnaðinn, en hins vegar er sýnilegt, að ef hann fær ekki þessa hækkun, þá kemst hann í þrot, því að allir sjá, hversu geysilega þörf þessi atvinnuvegur hefur fyrir fjármagn. Ég tel því nauðsynlegt að tryggja þessa hækkun og er reiðubúinn ásamt mínum flokki að bindast samtökum um að koma slíku fram.