09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það er aðeins vegna þess, að ég var einn af flm. þeirrar brtt. varðandi þetta sama efni, sem fram kom á síðasta þingi, að ég vil segja nokkur orð.

Þessi brtt., sem þm. A-Húnv. flytur nú, er algerlega tekin upp úr þeirri brtt., sem ég flutti ásamt fleirum hér á síðasta þingi og hann kom í veg fyrir, að yrði samþ. Mér þykir afstaða þessa þm. harla undarleg nú, þegar athuguð eru ummæli hans um þetta mál á síðasta þingi. Það vill nú svo vel til, að ég hef hér fyrir framan mig þingræðu, sem þessi þm. flutti um þetta mál þá, en þar segir meðal annars með leyfi hæstv. forseta:

„Tilgangurinn með þessari till. er sá að koma málinu fyrir kattarnef“ — og hann segir enn fremur : „það er allt annað, hvað menn óska eftir en hvað hægt er að fá.“ Þetta er alveg rétt hjá þm., eins og atvmrh. drap á, að þegar samkomulag hefur náðst, þá er ekki hægt að koma aftan að með auknar kröfur. Þegar brtt. okkar varðandi þetta kom fram á síðasta þingi, var ekkert ákveðið samkomulag um að ræða eins og nú, og þess vegna er rangt, að hún hafi haft truflandi áhrif, þegar hún var borin fram. Nú er öðru máli að gegna, eins og þm. A-Húnv. veit, því að við erum báðir stuðningsmenn þeirrar stjórnar, sem nú situr, eða að minnsta kosti hefur ekki annað verið látið uppi, en í þeirri stjórnarsamvinnu hefur einmitt verið samið um þetta mál, og þess vegna er komið aftan að, ef farið er að rifta þeim samningi nú á síðustu stundu. Þm. A-Húnv. heggur því nærri sjálfum sér með þessari till.

Af þessu má vel sjá það ósamræmi, sem fram hefur komið hjá þm. A-Húnv., þegar hann flytur þessa brtt. undir þeim kringumstæðum, sem nú eru fyrir hendi en beitir sér á móti till. okkar á síðasta þingi. Ég skal fúslega viðurkenna það, að það er full þörf fyrir það fé, sem till. fer fram á, en eins og þm. A-Húnv. sagði: það verður oft að sætta sig við ýmislegt, þó að það sé ekki eins og maður óskaði — og vegna þess, að ég tel mig bundinn af þeim samningum, sem stjórnarsamvinnan byggist á, þó að þm. A-Húnv. telji sig það Ekki, þá mun ég greiða atkv. á móti þessari till.