09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki fara að flytja hér langt mál, en ég vil þó taka undir með þm. Borgf., að það er allt annað, hvaða kröfur eru gerðar á búnaðarþingi, heldur en hvað hægt er að gera hér á Alþingi. Búnaðarþing var ekki í neinni villu í þessu máli. Því var alveg ljóst, að frv. mundi ganga fram eins og það liggur fyrir, en ég tel, að kröfur þess verði ekkert óeðlilegri fyrir það.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á þá áætlun um ástand og þróun landbúnaðarins, sem nýbyggingarráð skyldi gera í samráði við Búnaðarfélag Íslands, og þm. saknaði þess, að gr. í frv., sem innihélt þessa áætlun, skyldi vera felld úr. Það er alveg rétt, að landbn. lagði til, að þessi gr. væri felld niður og það með þeim forsendum, að hún ætti ekki heima í svona frv. Við 2. umr. lét ég það í ljós, að ég teldi þessa gr. eiga heima í frv. um fjárhagsráð, en nú er líka á ferðinni annað frv., sem inniheldur ekki ólík ákvæði og þessi gr., en það er frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins, og þar getur þessi 4. gr. því líka átt heima. Ég hygg því, að landbn. muni ekki skipta um skoðun, en hún mun að sjálfsögðu taka afstöðu til málsins og athuga, hvar það eigi bezt heima, en það kemur varla til álita að setja 4. gr. inn aftur.

Um skriflegu brtt. við 8. gr. vil ég segja það, að það er gleðilegt að fá þá skoðun frá hv. 2. þm. Reykv., en það hefði verið betra, að hann hefði léð því máli lið, á meðan hann var í stjórnaraðstöðu, því að þá kom fram till. um það. (JPálm: Það kom ekkert fram um það, að hv. 2. þm. Reykv. væri á móti þeirri hækkun.) Ég skil ekki, hvað þm. A-Húnv. er hörundssár fyrir 2. þm. Reykv. Ég hélt satt að segja, að hann gæti svarað sjálfur fyrir sig. Annars skal ég taka það fram, að 2. þm. Reykv. var fúsari en margur annar að leggja fé til landbúnaðarins, meðan við störfuðum saman í nýbyggingarráði.