16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt ég sé samþykkur þessu frv. að mörgu leyti, þá er ég á móti, að áætlunarkaflinn verði hafður í því. Það hefur verið mikið talað um, að það þyrfti að skipuleggja betur landbúnaðinn, og ég er hjartanlega sammála í því, að það er mikil nauðsyn að fá úr því skorið, hvernig landbúnaðurinn á að vera meira sérhæfur en hann nú er. En þetta eiga bændur sjálfir að gera og þetta stefnir í rétta átt. Þar sem bestu skilyrðin eru fyrir mjólkurframleiðslu, þar er framleidd mjólk, en þar sem bezt eru skilyrðin fyrir sauðfjárrækt, þar á að framleiða kjötið. Í framtíðinni, og það jafnvel fyrr en varir, taka bændasamtökin þetta mál í sínar hendur, enda er þetta sannarlega eitt af verkefnum þeirra. Þá er ég ekki sammála því, að auka þurfi höfuðstól ræktunarsjóðsins. Eftir frv. koma vextir og afborganir til með að nema nál. ¾ úr millj. Þó að sú upphæð sé ekki um of, þá sé ég ekki ástæðu til, að sú upphæð sé hækkuð nú. Ef hún reynist of lítil, þá hefur stofnunin þá möguleika að gefa út verðbréf.

Ég legg mikla áherzlu á, að þetta frv. verði samþ. nú, því að vitað er, að margir bíða eftir að fá lán úr þessum sjóði. Þess vegna tel ég hæpið að fara að gera breyt. á frv. nú, því að þá má eins gera ráð fyrir, að það lendi í ruslakörfunni í Nd.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar.