28.04.1947
Efri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

230. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu um þetta mál, þó að grg. sé stutt. Það er á vitund allra hv. þm., að ég hygg, að þessir 2 staðir, Borðeyri og Óspakseyri, eru verzlunarstaðir fyrir allstórt umdæmi, og að talsvert mikið af vörum er flutt til þessara staða og frá þessum stöðum. Það hefði ef til vill þótt eðlilegra að taka þessa staði báða upp í l. um hafnargerðir og lendingarbætur, er þau voru sett á s. l. ári, því að þessir hafnarstaðir eru það mikið notaðir, að það hefði mátt teljast eðlilegt, en þetta varð ekki fyrir þá sök, að ekki var gengið eftir því frá hlutaðeigendum, og það stafaði af því, að á báðum stöðunum eru hafnir góðar.

Það, sem þyrfti að gera þarna, er að byggja stuttar bryggjur til þess að gera framskipun og uppskipun ódýrari en nú er, en hún er mjög dýr eins og er. Menn voru í vafa um það af fyrri reynslu, að hægt væri að láta bryggjur standa þarna, vegna þess að nokkuð mikið ísrek er inn á Hrútafjörðinn, en menn hafa nú í samráði við vitamálastjóra gert sér vonir um, að hægt verði að byggja þarna bryggjur með góðum árangri, án þess að þær skemmist, og það ásamt þeim áhuga sem vaknaður er fyrir því að byggja þarna bryggjur til þess að gera flutninga að og frá þessum stöðum ódýrari, veldur því, að málið er upp tekið. Það eru áskoranir frá báðum þessum stöðum, sem liggja til grundvallar því, að málið er flutt. Ég geri mér vonir um, að báðir þessir staðir fáist teknir upp í l., því að öll sanngirni virðist mæla með því, að þessir staðir verði þeirra hlunninda aðnjótandi, sem aðrar hafnir njóta samkvæmt lögunum.

Það mun teljast eðlilegt, að þetta mál fari til sjútvn., og vil ég óska þess, að því verði vísað þangað að lokinni þessari umr.