11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

221. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fjhn. tók þetta frv. til meðferðar á fundi sínum í morgun, og niðurstöðurnar af þeirri athugun urðu þær, að meiri hl. n., 4 nm. tjáðu sig meðmælta frv. og leggja til, að það verði samþ. óbreytt, en minni hl. (EOl) er frv. andvígur.

Frv. var reifað við 1. umr. í gærkvöldi af hæstv. fjmrh., og þarf ég ekki miklu við það að bæta, en vil aðeins geta einstakra atriða, sem komu til athugunar og meðferðar hjá n.

Það er lagt til í c-lið frv., að af bifreiðum, sem aðallega eru geróar til fólksflutninga, séu greiddar 36 kr. á ári af hverjum 100 kg af þunga þeirra. Má segja, að það geti kannske verið nokkurt matsatriði. hvaða tegundir bifreiða skuli falla undir þetta, og sérstaklega var í því sambandi vikið að svokölluðum jeppabifreiðum. Ég vil láta þess getið, að það mun hafa vakað fyrir stjórninni að þessar bifreiðar falli hér undir, því að þær eru aðallega gerðar til fólksflutninga og aðallega notaðar til þeirra hluta hér. Ég átti í þessu sambandi tal við bifreiðaeftirlitið. sem tjáði, að þessar bifreiðar væru flestar skráðar sem fólksflutningabifreiðar og bifreiðaeftirlitið hefði litið svo á, að það bæri svo að gera, enda er það svo, að þessar bifreiðar eru mest notaðar til slíkra þarfa hér á landi, þó að hins vegar sé hægt að nota þær til landbúnaðarstarfa og, þegar á þarf að halda, til flutninga.

Það er að vísu svo, að það bar nokkuð á því í upphafi, að sumir menn óskuðu eftir að þessar bifreiðar væru skráðar sem vöruflutningabifreiðar, og hefur það sennilega verið vegna þess, að af þeim tegundum bifreiða bar ekki að greiða þungaskatt. En það kom í ljós, að þetta kom nokkuð út á eitt, þar sem iðgjaldagreiðslur af vörubifreiðum eru nokkru hærri, en af fólksflutningabifreiðum, og munar það þess vegna ekki nema 5 kr., hvort bifreið er skráð sem vöruflutningabifreið eða fólksbifreið, og þess vegna hafa þessar bifreiðar yfirleitt verið skráðar sem fólksbifreiðar. Ég vil láta þess getið, að n. barst á fundinum bréf frá bifreiðastjórafélaginu Hreyfil. þar sem óskað er eftir því, að þessi skattur sé ekki á lagður, og rök færð fyrir því, að það leggi mikinn aukinn kostnað á herðar bifreiðastjóra í sambandi við rekstur bifreiðanna. Ég skal ekki segja, hvernig þetta kemur við hvern einstakan bifreiðaeiganda í sambandi við rekstur bifreiða, það fer aðallega eftir því, hvernig á þetta verður litið af verðlagsyfirvöldum og hvaða áhrif þetta gjald hefur á gjaldskrá bifreiða, en um það er að eiga við þá aðila, þegar að því kemur.

Í öðru lagi er á það að líta, að það er um þetta gjald eins og önnur gjöld, að það eru fáir, sem komast hjá því að verða á einhvern hátt við þau varir, og ég held nú kannske, að það sé ekki meiri ástæða fyrir þessa stétt manna að kveinka sér undan því en aðrar stéttir, og sannleikurinn er sá, að það hefur þótt arðvænlegur atvinnuvegur að stunda fólksflutninga einnig á bifreiðum. Það kemur þarna til greina annað atriði. Hér er ekki aðeins um að ræða hækkun hjá leigubifreiðum, heldur eru þær settar við sama borð og aðrar bifreiðar, en þungaskatturinn var áður lægri á þeim en einkabifreiðum. En á það var bent af hæstv. fjmrh. í gærkvöldi, að það er svo með margar fólksbifreiðar, sem eru í einkaeign, að þær eru að verulegu leyti notaðar í þarfir einstaklinga í sambandi við atvinnurekstur og atvinnu þeirra, en ekki eingöngu sem lúxusbifreiðar, og er því ekki óeðlilegt, þó að gjöld af þessum bifreiðum séu ekki hærri en af bifreiðum, sem stunda atvinnu.

Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, þó að mönnum. eins og í þessu tilfeili, þyki nóg um útgjöldin, en þess er að gæta, að þarna er eitt látið yfir alla ganga — þarna eru engar undantekningar gerðar. Það er svo ekki meira í þessu sambandi, sem ég sé ástæðu til að taka fram.