15.01.1947
Neðri deild: 54. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Þótt ég taki hér nú til máls, er það að sjálfsögðu ekki tilgangur minn að leitast við að hindra, að mál þetta gangi til n. og hljóti alla þinglega meðferð. Ég skal heldur ekkert um það segja á þessu stigi málsins, hvort rétt muni að reisa þessa verksmiðju. Það kann vel að vera full þörf á því. En það er annað í þessum síldarverksmiðjumálum, sem ég verð að drepa á hér við 1. umr. þessa máls, og það er sú aðferð Alþ. að ákveða með lögum, að verksmiðjur skuli settar á hina og þessa tilgreinda staði, eins og t. d. Húsavík, Sauðárkrók, og ég hygg Hólmavík og ef til vill fleiri staði. L. um síldarverksmiðjur á þessum stöðum eru þegar orðin nokkurra ára. Það eru hreint ekki lítil vonbrigði fyrir staði, sem eru búnir að fá vilyrði Alþ. fyrir því, að ríkið reisi þar fyrir eigin kostnað stórar verksmiðjur, að ekki skuli síðan vera staðið við þessi loforð. Og þetta er því verra sem margt er þá látið ógert á þessum stöðum, sem annars mundi vera gert, eða framkvæmdum hagað með tilliti til þess, að verksmiðjurnar verði reistar, og kostaðar rafveitur, hafnarumbætur og þess háttar, eins og t. d. á Sauðárkróki. Ég tel Alþ. vera komið inn á mjög hættulega braut með þessum lagasetningum um verksmiðjubyggingar, ef það hefur aldrei verið meiningin að reisa verksmiðjurnar, ef þetta á aðeins að vera tálbeita eða snuðtútta fyrir þessa staði.

Það er vitað mál, að undanfarin ár hefur verið unnið að því af alefli á Sauðárkróki, að þar yrði reist síldarverksmiðja. Þar eru nú um 1000 íbúar og höfuðskilyrði fyrir atvinnulífið að fá þar stórvirk atvinnutæki. Á Sauðárkróki hafa menn að vonum fyrst og fremst dregið sig eftir þessari síldarverksmiðju og lagt í stórfelldar framkvæmdir með tilliti til þess. Og það er ekkert einkennilegt, að hreppsfélög sækist eftir að fá verksmiðjur, þar sem ríkið leggur fram allt kapítalið. Og út af fyrir sig álít ég, að það sé stórmál fyrir Alþ. að athuga áhrifin af því að reisa slík atvinnutæki á einum stað á kostnað ríkissjóðs, þar sem þau hljóta að verða nokkurs konar gjöf til viðkomandi staða, á meðan ekkert er gert fyrir atvinnulíf annarra staða. Þessi inngrip ríkisins og misræmi milli staða er stórt mál út af fyrir sig. Þegar verið er að tala hér um síldarverksmiðjubyggingar, vil ég nota tækifærið og beina því eindregið til hv. sjútvn., sem mun fá þetta mál til meðferðar, að hún athugi rækilega öll þessi mál, hvað gert verði í því, sem áður hefur verið lofað. Betra hefði verið að gefa engin vilyrði fyrir verksmiðjum en draga allar framkvæmdir þannig og láta allt vera í óvissu. Viðkomandi staðir draga sig að sjálfsögðu eftir þeim verksmiðjum, sem þeim hefur verið heitið, og miða allt við það. Og það verður áreiðanlega ýtt fast á eftir loforði Alþ. til handa Sauðárkróki, það veit ég. En ef Alþ. ætlar ekki að standa við þessi loforð, þá vil ég einmitt, að það lýsi yfir því í stað þess að halda þessum stöðum á endalausum biðlista, á meðan nýjum verksmiðjum er skotið fram fyrir með nýjum l. Ég geri ráð fyrir, að við þm. Skagf. berum fram brtt. í þessu máli á síðara stigi þess til að fá úr því skorið, hvort Alþ. ætlar að standa við fyrri vilyrði sín um, að síldarverksmiðjur skuli reistar á tilgreindum stöðum, eða neita að standa við þau.