15.01.1947
Neðri deild: 54. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (3111)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Steingrímur Steinþórsson:

Ég vildi aðeins segja örfá orð. Ég er þakklátur hæstv. atvmrh. fyrir það, að hann viðurkennir, að Alþ. hafi með aðgerðum sínum áður í raun og veru gefið viðkomandi stöðum eindregið loforð. Tel ég þetta mikið vilyrði og vona, að þessir staðir megi búast við að fá innan mjög langs tíma atvinnutæki eins og síldarverksmiðjur. Ég tel líka með þessu viðurkennt af ráðh., að það verði að uppfylla þau loforð, sem Alþ. hefur gefið.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um, að söltun sé haganlegri en bræðsla, en eins og hann tók fram, getur ekki verið um söltun að ræða, nema bræðsla á úrgangssíld geti farið fram. Það gleður mig að heyra, að ráðh. hefur verið að athuga möguleika á því að notfæra nýja tækni við bræðslu síldarinnar, svo að líkur eru til, að hægt verði að bræða úrgangssíldina, þó að ekki verði um stórfellda bræðslu að ræða.

Það hagar vel til fyrir síldarsöltun við Skagafjörð, bæði á Sauðárkróki og einnig á Hofsós, sem liggur mjög vel við, svo að það eru líkur til, að koma mætti á fót söltun á báðum stöðunum, þannig að skilyrði til síldarsöltunar við Skagafjörð virðast vera mjög góð.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, um leið og ég legg áherzlu á nauðsynina á því, að þessi héruð fái atvinnutæki, eins og ráðgert hefur verið.