11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

221. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. — það vannst ekki langur tími til að athuga þetta frv. í n., og þær brtt., sem ég ásamt hv. 6. þm. Reykv. flyt hér, hefðu þess vegna orðið miklu ýtarlegri, ef tími hefði unnizt til að athuga frv. Eins og minnzt var á hér í gær í umr., þá hefur í Noregi verið sett gjald á bíla, þar sem því er svo fyrir komið. að það er hæst á bílum meðan þeir eru nýir, en fer síðan lækkandi, þegar þeir eldast, og það hefði verið mjög æskilegt að koma einhverjum slíkum breyt. að hér, en því miður hefur ekki unnizt tími til að fá þessi norsku l. til athugunar.

En það liggur í augum uppi, að það er óréttlátt, að maður, sem á gamla bifreið, sem hann alltaf er að gera við og er honum mjög dýr, eigi að greiða sama gjald af sinni bifreið og greitt er af nýrri bifreið. Þess vegna er það mjög æskilegt, að það væri athugað fyrir 3. umr., hvort ekki væri hægt að gera slíka breyt., ef tími ynnist til. En það, sem ég legg til á þskj. 620 ásamt öðrum þm., eru þær breyt. við 1. gr., að undanþegnar því gjaldi, sem þar um ræðir, séu eftirfarandi bifreiðar:

Í fyrsta lagi eru atvinnubifreiðar, sem eigandinn ekur sjálfur. Það þýðir, að maður, sem á sjálfur bifreið og hefur atvinnu af að aka, sé undanþeginn þessum skatti. Þó mundi þetta að vísu lenda á mönnum, sem eiga bifreiðar og hafa aðra í þjónustu sinni til þess að aka þeim. það hefur verið sagt hér, að atvinnubifreiðastjórar væru stétt, sem græddi mjög mikið. Ég hef fengið þær upplýsingar hjá „Hreyfli“ að af 10 nýjum bílum, sem komið hafa inn á stöðina, þá hefur aðeins einn bíll verið keyptur þangað með venjulegu innkaupsverði. allir hinir bílarnir hafa verið keyptir á svörtum markaði á 55–60 þús. kr. Bílstjórarnir verða að kaupa sína bíla á svörtum markaði á 50–60 þús. kr. og eiga síðan að greiða 6.000 kr. í skatt af þeim. Þeir munu eiga mjög erfitt með að aka inn í fyrsta lagi skatta af þessum bílum, og síðan eiga þeir að standa undir rekstrarkostnaði. það þarf því enginn að segja mér, að þetta hljóti að vera gífurlega mikill gróðavegur. Ég vil þó ekki segja, að jafnvel þótt einhverjir bílstjórar kynnu að græða á því að eiga bíl, þá væri það forkastanlegt, meðan þjóófélagið er þannig, að það þykir sjálfsagt, að maður græði, ef hann er stóratvinnurekandi eða stórkaupmaður. Það þykir ónormalt að reikna með því, að slíkir menn séu fátækir — það þykir sjálfsagt, að þeir séu auðugir. Ég sé ekki. að það geti verið ákveðið fyrir fram út frá almennu mannlegu siðferði. að þeir menn, sem eru heildsalar og stóratvinnurekendur, eigi að hafa aðstöðu til að græða, en menn, sem stunda almenna vinnu, megi ekki græða og það verði að leggja sérstaka skatta á þá. Ég held þess vegna, að þetta út af fyrir sig sé ekki nein röksemd þarna á móti. Það kann að vera. að einhverjir af atvinnubílstjórum hafi haft allgóðar tekjur. en mér lízt ekki þannig á, að þeir muni hafa það á næstunni með þeirri stefnu, sem tekin er af þeim meiri hl., sem hér ræður, og ég held það sé mjög fjarri lagi að fara að skella sérstökum sköttum á þá. Ég held þess vegna, að atvinnubílstjórar komi til með að verða mjög hart úti vegna þessara l., og tel því rétt að undanþiggja þá þessum skatti. Ég vil benda á, að atvinnubílstjórar verða eins og aðrir að borga alla venjulega skatta og skyldur, sem tollahækkunin hefur í för með sér. Í öðru lagi verða þeir að borga hækkunina, sem stafar af benzínskattinum, sem er á öðru þskj. og engan veginn er vitað um, hvort þeim verður leyft að veita á neytendur, eins og ætlazt er til, að heildsalarnir geri með tollana. Í þriðja lagi eiga atvinnubílstjórar að borga þennan sérstaka skatt, sem hér er á lagður samkvæmt c-lið 1. gr., og verða þeir því harðar úti en aðrir vinnandi menn. — Ég held þess vegna að atvinnubifreiðastjórar ættu að fá að sleppa við þennan skatt.

Í öðru lagi eru okkar till. um jeppabifreiðar, sem skráðar eru utan kaupstaða. Það er vitanlegt, að bændur hafa undanfarið og eru nú að fá allmikið af slíkum jeppabifreiðum. það er að vísu nokkuð af þessum bílum í kaupstöðum, og álit ég ekkert á móti því að koma skatti á þá, en hins vegar hvað snertir þessa bíla í sveitum, þá álit ég, að þeir eigi að vera undanþegnir þessum skatti. Bændur hafa notað þá að mjög miklu leyti sem vinnutæki við heyskap og enn fremur sem flutningatæki, bæði fyrir þær vörur, sem þeir kaupa í kaupstaó, og ýmislegt annað. sem þeir þurfa að flytja, og þótt þeir séu kannske um helgar notaðir til skemmtiferðalaga eða til að ferðast á milli bæja, þá sé ég enga ástæðu til að skattleggja þær ferðir. Ég held, að í dreifbýlinu á Íslandi hafi þessum jeppabifreiðum verið fagnað, og mig minnir, að þegar hafi verið um það rætt á síðasta þingi, og einn þm. kom með till. um það að undanþiggja þær tolli, og ég held þess vegna. að það væri ekki rétt nú að taka upp þá stefnu að skattleggja sérstaklega þessa bíla. Þess vegna leggjum við til að jeppabifreiðar, sem skráðar eru utan kaupstaða, verði undanþegnar þessum skatti.

Í þriðja lagi eru áætlunarbifreiðar á langleiðum. Nokkuð af þeim mun vera rekið af ríkinu, og er það auðvitað að taka úr einum vasanum og láta í annan að vera að skattleggja þær. og enn fremur hefur það verið þannig, að fargjöld hafa verið reiknuð mjög nákvæmlega eftir kostnaði, og þegar fargjöld hafa hækkað, þá hefur það verið látið koma fram í vísitölunni. Mönnum hefur þótt rétt að stuðla að því. að það gæti orðið mikið af þessum bifreiðum í landinu, og þær eru orðnar nauðsynleg samgöngutæki fyrir fólkið. Höfum við því lagt til, að þær bifreiðar væru undanþegnar þessum skatti.

Sömuleiðis höfum við lagt til að strætisvagnar væru undanþegnir skattinum. Ég man ekki betur en að hækkun á strætisvagnagjöldum hafi áhrif á vísitöluna til hækkunar, og þar sem þetta snertir aðallega Reykjavík og það er bæjarfélagið, sem rekur þessa strætisvagna, þá er það nú sú undarlega sama aðferð, sem kemur fram í þessum till.. sem liggja fyrir d., að taka úr einum vasanum og láta í hinn, ef ríkið fer að skattleggja bæjarfélagið.

Í fimmta lagi eru skólabifreiðar. Það hefur verið af hálfu hins opinbera að því stutt. að þessum bifreiðum yrði komið upp, og því virðist ekki ástæða til að skattleggja þær.

Með þessu móti mundi vera undanþegið skatti það allra nauðsynlegasta og eðlilegasta í þessum efnum og ekki fyndist mér óeðlilegt, þó að hv. d. yrði við því að samþykkja þessar undanþágur, þó að stjórnin komi með till. um að hækka gjald af hinum bifreiðunum, sem eftir væru.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta. það er ekki enn þá búið að útbýta nál. minni hl., en ég held, að í því nál. sé prentað upp það bréf. sem stjórn „Hreyfils“ sendi fundi fjhn. í morgun. En í því bréfi er gerð grein fyrir þeirri álagningu, sem sérstaklega kemur við þessa bílstjóra í sambandi við bifreiðaskattinn, benzínhækkunina og annað. Þar sést, að þetta mundi nema á hvern bíl um 3.000 kr., og það er mjög drjúg álagning á eina stétt manna. sem er að vinna fyrir sér og rekur þessa atvinnu í þeirri áhættu að geta staðið uppi atvinnulausir. ef eitthvað ber út af. Vil ég eindregið skora á hv. d. að verða við þeim tilmælum „Hreyfils“ að undanþiggja þessar bifreiðar þessum skatti. — En ef ekki kemst neitt fram af þessum brtt., þá mun ég greiða atkv. á móti frv.